03 desember 2025

Heilagur Frans Xavier prestur og Jesúíti - minning 3. desember

Heilagur Frans Xavier prestur og Jesúíti við skírn

Frans de Jasso fæddist árið 1506 í kastalanum Javier (Xabier eða Xavier) í  í austurhluta Navarra. Á þessum tíma var það svæði hluti hins baskneska menningarsvæðis. Heimili hans var baskneskumælandi, og nafnið „Xavier“ er dregið af baskneska orðinu etxe berri = „nýtt hús“. Hann tilheyrði lágaðalsfjölskyldu, var greindur, stoltur og metnaðarfullur ungur maður sem hélt til Parísar til að læra heimspeki og öðlast áhrif í veraldlegum efnum. Á þeim tíma kom einnig annar ungur maður frá Baskalandi, Íñigo López de Loyola, síðar heilagur Ignatíus af Loyola af baskneskri háaðalsætt og sem síðar varð stofnandi Jesúítareglunnar. Fyrstu árin leit Frans niður á þennan eldheita samherja sem hafði snúist til trúar eftir sjúkdómsreynslu og innri umbreytingu. En smám saman hrundu varnirnar: orðin úr guðspjöllunum sem Ignatíus miðlaði, og persónuleg einlægni hans, leiddu Frans til að spyrja sig stórra spurninga. Hvað stoðar það mann að vinna allan heiminn en bíða tjón á sálu sinni?

Með tímanum fann hann fyrir náð Guðs. Frans gekk til liðs við hinn nýja hóp Ignatíusar, tók upp lífsreglur Jesúíta með honum og gerðist prestur. Hann gekk í gegnum hinar andlegu æfingar heilags Ignatíusar, þar sem hann lærði að hlusta, greina anda og gefa sig algerlega vilja Guðs. Þessi reynsla undirbjó hann, eins og hann sjálfur sagði, „til alls þess sem Drottinn óskaði“.



Það rættist þegar konungur Portúgals bað um tvo Jesúíta til að senda til portúgölsku nýlendanna í hinum svonefndu Austur-Indíum, heiti sem á þeim tíma náði yfir allt frá vesturströnd Indlands og langt austur um Asíu. Sá sem átti að fara varð veikur, og Ignatíus sneri sér að Frans og sagði: Vilt þú fara í hans stað? Frans svaraði samstundis: „Auðvitað, strax!“ Hann kvaddi vin sinn eins og sonur kveður föður, eyddi einum degi í að laga gömlu buxurnar sínar – og um borð fór hann. Ferðin til Indlands tók þrettán mánuði.

Árið 1542 lenti hann í Goa á Indlandi og hóf þegar þjónustu meðal sjúkra, fátækra og barna sem höfðu litla sem enga kristna fræðslu fengið. Hann ferðaðist um strendur Indlands. Þar kenndi hann, skírði og þjónaði svo óþreytandi að hann dofnaði í handleggnum og missti röddina tímabundið af öllum þeim fræðslustundum sem hann hélt. Hann taldi sig í eitt skipti hafa skírt tíu þúsund manns á einum mánuði.

Eftir að hafa komið á fót fræðslu fyrir innfædda presta og stutt byggingu staðbundinnar kirkju hélt hann til Indónesíu. Þar hitti hann japanskan mann að nafni Anjíró sem varð honum lykill að nýjum heimi. Eftir samtöl við hann ákvað Frans að leggja leið sína til Japans, sem hann gerði árið 1549. Hann lærði tungumálið eins og hann gat, þó hann næði aldrei fullkomnum tökum á því, og sá að fólkið var „skynsamt og móttækilegt“. Hann plantaði þar fræi sem síðar spratt upp í hinum stórbrotnu vitnisburðum japönsku píslarvottanna.

Dauði á Shangcuan eyju og varðveisla í Goa
Frans horfði svo til Kína. Japanskir stjórnmálamenn spurðu hann: Hvernig getur kristni verið rétt trúarbrögð ef Kína hefur aldrei heyrt af henni? Hann skildi þá að hann þyrfti að fara þangað. En hann komst aldrei alla leið því hann lést á Shangchuan-eyju undan ströndum Kína, þar sem hann beið þess að fá að stíga á meginlandið og hefja trúboð. Hann var grafinn þar í einfaldri sandgröf. Þegar félagar hans komu nokkrum mánuðum síðar til að flytja líkama hans til Malakka, kom í ljós eitthvað sem þótti óvenjulegt. Líkið fannst ótrúlega ósnortið, þrátt fyrir hitabeltisloftslag og langan tíma í jörðu. Sama bar við aftur í Malakka ári síðar, áður en líkið var flutt til Goa á Indlandi, þar sem það hefur hvílt síðan í Basiliku hins heilaga Jesúbarns.

Það sem er einkar athyglisvert er að stór hluti líkama hans hefur haldist óvenjulega lítið skemmdur í meira en fjögur hundruð og sjötíu ár, og á nokkurra ára fresti er líkamsleifunum stillt opinberlega fram til áheita og bæna, síðast árið 2014. Kirkjan lítur á þessa varðveislu sem merki um heilagleika hans, vitnisburð um náð Guðs og áminningu um þann kraft trúboðs og fórnfýsi sem einkenndi líf hans og þjónustu.

Einn af stærstu sigrum lífs hans var þó nálægðin við bræðurna í Jesúítareglunni sem hann elskaði. Hann skrifaði Ignatíusi bréf full af hógværð: „Kæri faðir sálar minnar… bið þú fyrir mér að Drottinn sýni mér vilja sinn og gefi mér náð til að framkvæma hann fullkomlega.“ Þau bréf sýna að hann var bæði sonur og faðir í hinu andlega lífi, jafn bundinn Róm og Austurlöndum.

Tilvitnun úr tíðabænabókinni
„Við höfum heimsótt þorp hinna nýju trúskipta sem tóku kristna trú fyrir fáeinum árum. Engir Portúgalar búa hér – landið allt er hrjóstrugt og snautt. Innfæddir kristnir menn hafa engan prest. Þeir vita einungis að þeir eru kristnir. Það er enginn til að lesa messu fyrir þá, enginn til að kenna þeim trúarjátninguna, Faðir vorið, Heil sért þú María og boðorð lögmáls Guðs.

Frá þeim degi að ég kom hingað hef ég verið önnum kafinn. Ég fór samviskusamlega um þorpin. Ég laugaði í hinu helga vatni öll börnin sem enn höfðu ekki hlotið skírn. Þetta þýðir að ég hef hreinsað mikinn fjölda barna sem voru svo ung að þau, eins og orðatiltækið segir, þekkja ekki hægri hönd sína frá hinni vinstri. Eldri börnin leyfðu mér ekki að lesa tíðir mínar eða borða og sofa fyrir en ég hafði kennt eina bæn og aðra. Þá skildi ég að slíkra er himnaríki.

Ég gat ekki neitað guðrækilegri ósk sem þessari án þess að bregðast sjálfur í guðrækni minni. Ég kenndi þeim fyrst játningu trúarinnar á Föðurinn, Soninn og hinn Heilaga Anda, síðan hina postullegu trúarjátningu, Faðirvorið og Heil sért þú María. Ég tók eftir því að á meðal þeirra voru margir mjög hyggnir menn. Ef einungis einhver gæti frætt þá í kristnum lífsháttum þá væri ég ekki í nokkrum vafa um að þeir yrðu framúrskarandi kristnir menn.

Einungis ein ástæða er fyrir því að margt fólk hér í kring gerist ekki kristið: Það er enginn til að kristna það. Hversu oft hef ég ekki hugleitt að fara til háskólanna í Evrópu, sérstaklega í París, og hrópa alls staðar eins og vitfirringur, fanga athygli þeirra sem hafa meiri lærdóm en náungakærleika, og segja: „Hvílík ógæfa: hversu margar eru sálirnar sem útilokaðar eru frá himnaríki og falla til heljar, þökk sé yður!“


Lærdómur
Það sem skín skærast í lífi heilags Frans Xaviers er hlýðni við það sem hann leit á sem vilja Guðs. Hann lagði fortíð sína, virðingarþrá og stoltið sem hafði einkennt hann í æsku, til hliðar þegar hann áttaði sig á að Kristur kallaði hann til starfa sem hann hefði ekki getað ímyndað sér áður. Líf hans kennir okkur að trúboð byrjar í hjartanu: ekki með skipulagi og áætlunum, heldur með hlýðni, kærleika og opnum huga fyrir því sem Guð vill gera í og með okkur.

Líf hans varpar ljósi á þá staðreynd að trúin lifir aðeins ef henni er deilt. Fyrstu kristnu samfélögin í Indlandi og Japan voru afar móttækileg fyrir kristinni trú, en þau skorti eftirfylgni og uppfræðslu. Heilagur Frans sá að ef enginn miðlar trúnni og leggur á sig að kenna hana, þá dofnar loginn. Áminning hans til Evrópuprófessoranna á sínum tíma hljómar enn: að gefa ekki aðeins af lærdómi sínum, heldur af lífi sínu.

Bæn
Heilagi Frans Xavier, þú sem lést orð Drottins hreyfa við hjarta þínu og lagðir af stað án þess að líta aftur, kenndu okkur að gera Krist að miðju lífs okkar. Bið fyrir hlýðni okkar og hugrekki til að svara kalli hans, kærleika til að miðla trú og styrk til að þjóna þeim sem eru fjarlægir, hvort sem er í eigin samfélagi eða á ystu ströndum jarðar. Líf þitt var logandi vitnisburður um vilja Guðs. Megi logi trúarinnar brenna einnig í hjörtum okkar. Amen.

Fyrri útgáfa þessa pistils birtist 3. desember 2024.

Geisladagur, skírn Drottins hátíð

Skírn Drottins - Geisladagur Minning um skírn Jesú á sér djúpar rætur í lífi kirkjunnar. Þegar á 4. öld var í austurkirkjunni haldin sameigi...