20 september 2025

Heilagur Andrés Kim Taegon, prestur, heilagur Páll Chong Hasang og félagar píslarvottar - minning 20. september

Hl. Andrés Kim Taegon, hl. Páll Chong Hasang og félagar, píslarvottar

Þegar lítill hópur kóreskra fræðimanna hóf að lesa kristin rit sem þaðan bárust frá Kína um 1777 kviknaði neisti sem erfitt er að skýra öðruvísi en sem verk Guðs. Vinur sagði vini frá, og trúin breiddist út. Þegar kínverskur prestur komst loks til Kóreu árið 1794 fann hann fjögur þúsund trúaða. Fimmtíu árum síðar voru þeir orðnir tíu þúsund, fátækir í sakramentum en ríkir í trú. Yfirvöld töldu trúna framandi og ofsóttu hina kristnu, en kærleikurinn og trúarstyrkurinn dvínaði ekki. 

Æviágrip Andrésar Kim
Heilagur Andrés Kim Taegon (1821–1846) var skírður fimmtán ára og lagði upp í langa ferð, tólf hundruð mílur til Makaó, til að læra til prests. Hann var vígður í Shanghai sem fyrsti kóreski presturinn. Heimkoma hans var ekki hættulaus, því flestir karlmenn í fjölskyldu hans höfðu dáið sem píslarvottar og kristni var bönnuð. Hann hvatti þó meðbræður sína með orðum sem lifa áfram: „Við höfum hlotið skírn og þann heiður að kallast kristnir menn. En hvað gagnar það okkur ef við erum kristnir í orði einu en ekki í verki?“ Árið 1846, aðeins tuttugu og fimm ára gamall, var hann tekinn af lífi. Rétt áður sagði hann böðlum sínum: „Ég dey fyrir Guð. Ódauðlegt líf mitt er að hefjast. Verðið kristnir ef þið viljið öðlast hamingju eftir dauðann.“


Æviágrip Páls Chong
Heilagur Páll Chong Hasang (1795–1839) var frændi eins mesta heimspekings Kóreu á þeim tíma. Sjö ára að aldri sá hann föður sinn og eldri bróður deyja píslarvotta. Hann varð þýðandi fyrir stjórnvöld og notaði ferðir sínar til Kína til að tala máli kristinna kóreumanna. Hann skrifaði páfa og bað um að sett yrði á laggirnar postullegt umsjónarsvæði í Kóreu, sem Gregoríus páfi XVI samþykkti. Þegar Páll var leiddur fyrir dóm árið 1839 afhenti hann dómaranum ritaða vörn fyrir trúna. Dómarinn játaði að hann hefði rétt fyrir sér, en krafðist samt afneitunar: „Kóngurinn hefur bannað þessa trú, og þitt er að hafna henni.“ Páll svaraði stutt og skýrt: „Ég hef sagt yður að ég er kristinn. Ég verð kristinn allt til dauðans.“

Tilvitnun
„Við höfum hlotið þann heiður að kallast kristnir menn. En hvað gagnar það okkur ef við erum kristnir í orði einu en ekki í verki?“ – Heilagur Andrés Kim Taegon

Lærdómur
Á innan við hundrað árum eftir komu kristninnar til Kóreu höfðu tíu þúsund manns orðið píslarvottar. Flestir voru leikmenn: trúkennarar, bændur, húsmæður og börn. Þau skynjuðu að það að bera nafn Krists væri dýrmætur heiður og voru tilbúnin að vitna um hann með lífi sínu. Þessi arfleifð lifir áfram. Í Suður-Kóreu vex kaþólska kirkjan hratt og enn logar sami eldur, trú sem berst frá hjarta til hjarta.

Kaþólska kirkjan í Suður-Kóreu í dag
Í Suður-Kóreu eru nú um sex milljónir kaþólikka, eða um ellefu prósent þjóðarinnar. Á síðasta ári voru skírðir yfir fimmtíu og átta þúsund nýir meðlimir, flestir innfæddir Kóreumenn. Kaþólska kirkjan í Kóreu er ein sú sem stækkar hvað hraðast. Hún byggir nú á eigin prestum og samfélögum og er ekki lengur háð erlendu trúboði. Samfélagið í heild í Kóreu er trúarlega fjölbreytt; um þriðjungur telur sig kristinn en helmingur segist trúlaus. Samt hefur kaþólska kirkjan sterkt aðdráttarafl og tekur virkan þátt í samfélagsmálum.

Kirkjan í Norður-Kóreu
Í Norður-Kóreu er kristin trú bönnuð og ofsótt. Að tilheyra kirkjunni getur leitt til fangelsunar eða dauðarefsingar. Að eiga Biblíu getur eitt og sér nægt til dauðarefsingar. Þrátt fyrir það halda margir áfram að trúa í felum. Kristnir hittast í smáum hópum á heimilum eða jafnvel úti í náttúrunni. Trúin lifir þannig áfram í leyni, líkt og á fyrstu öldum kirkjunnar, en við mun harðari skilyrði.

„Jerúsalem Austursins“
Áður en kommúnistar tóku völdin á miðri tuttugustu öld var Pyongyang miðstöð kristninnar í Kóreu. Borgin hafði fengið viðurnefnið „Jerúsalem Austursins“. Á síðari hluta nítjándu aldar höfðu bæði kaþólskir trúboðar og mótmælendasamfélög náð fótfestu í borginni, og um aldamótin 1900 var talið að stór hluti íbúa Pyongyang væri orðinn kristinn. Árið 1907 hófst þar mikil trúarvakning sem breiddist út sem andleg endurnýjun um alla Kóreu og er oft talin upphaf þess öfluga kristindóms sem einkennir Suður-Kóreu í dag. Borgin var einnig þekkt fyrir trúarlega menntun og velferðarstarf; þar starfræktu kirkjur skóla, barnaskóla, spítala og prentsmiðjur. Klaustur og prestsetur voru virk, og Pyongyang varð að miðstöð menntunar presta og trúboða.

Þegar stjórnvöld í Norður-Kóreu tóku við eftir stríðið var þessari arfleifð nánast þurrkuð út. Hundruð kirkna voru rifnar eða breytt í opinberar byggingar, prestar og trúboðar fangelsaðir eða teknir af lífi, og fjölskyldur kristinna teknar af lífi eða sendar í vinnubúðir. Í dag stendur aðeins ein opinber „kaþólsk“ kirkja, reist af stjórnvöldum árið 1988. Þar eru engir prestar og engar messur; bænir eru lesnar af leikmönnum. Erlendir gestir sem hafa heimsótt hana segja að hún virki fremur sem leiksýning fremur en lifandi trúarsamfélag. Kaþólska kirkjan viðurkennir þó enn Pyongyang-biskupsdæmið, þótt enginn biskup né prestur starfi þar. Eldurinn sem kviknaði með fyrstu píslarvottunum og trúarvakningunni logar þó enn í hjörtum þeirra sem þora að trúa, jafnvel í skugga fangabúða og dauðarefsinga.

Bæn
Guð, sem endurreisir kirkju sína með blóði píslarvotta, við biðjum þig: lát meðalgöngu heilags Andrésar, Páls og félaga þeirra styrkja kirkjuna þína í Kóreu og um allan heim. Gef þú okkur sama hugrekki til að vitna um trúna í orði og verki. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.

(Byggt að hluta á vefsíðu Páfagarðs sjá hér.)

Heilagur Andrés Kim Taegon, prestur, heilagur Páll Chong Hasang og félagar píslarvottar - minning 20. september

Hl. Andrés Kim Taegon, hl. Páll Chong Hasang og félagar, píslarvottar Þegar lítill hópur kóreskra fræðimanna hóf að lesa kristin rit sem það...