Lectio – Lestur guðspjallsins
„Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá er meiri en allir og enginn getur slitið þá úr hendi Föðurins. Ég og Faðirinn erum eitt.“
(Jóh 10,27–30)
Meditatio – Hugleiðing
Jesús segir: „Mínir sauðir heyra raust mína“. Þessi setning er kjarni sambandsins milli góða hirðisins og hans eigin sauða. Að hlusta á rödd hans merkir meira en að heyra með eyrunum – það merkir að bregðast við, að opna hjarta sitt og vilja til viðveru og hlýðni.
Í biblíulegri merkingu er „að hlusta“ alltaf virkt: það kallar á viðbragð, ákvarðanir, stefnu lífsins. Að hlusta á rödd góða hirðisins í dag þýðir að taka frá tíma fyrir íhugun – opna hjarta sitt fyrir orði hans, eins og það talar til mín núna, í þessum kringumstæðum. Hann talar ekki aðeins í fornum textum biblíunnar heldur lifandi í hjarta okkar í gegnum Orðið og Anda sinn. Hlýðnin er ekki blint samþykki heldur trúrarlegt traust. Við lærum að þekkja rödd hans, að greina hana frá öðrum röddum sem kalla á athygli okkar – raddir heimsins eru raddir ótta, kvíða og vantrausts. Rödd góða hirðisins færir ró, kærleika og staðfestu. Hún græðir sár og hvetur en þrýstir ekki. Hún byggir upp, en brýtur ekki niður.
Í daglegri þögn og íhugun lærum við að samstilla hjarta okkar hjartslætti góða hirðisins. Við verðum hlustandi, ekki aðeins eftir því hvað hann vill að við gerum, heldur einfaldlega hver hann er – og hver við erum í ljósi hans. Þegar við hlustum þannig á hann í daglegri bæn, skapast samband trausts og þekkingar – þá vitum við að við erum „þekkt“ og elskuð, og við getum sagt: „Ég þekki rödd hans – og hún leiðir mig heim.“
Oratio – Bæn
Drottinn Jesús,
Þú ert góði hirðirinn sem kallar mig með nafni.
Þú þekkir mig og elskar mig með lífgefandi kærleika.
Gefðu mér einlægt hjarta sem hlýðir rödd þinni
og trúfastan vilja til að fylgja þér, líka þegar leiðin verður dimm eða erfið.
Láttu mig aldrei missa takið á hönd þinni. Amen.
Contemplatio – Dvöl í orði
Ég dvel í orðunum: „Ég þekki þá… þeir fylgja mér… þeir glatast aldrei.“
Í þeirri djúpu kyrrð sem fylgir trausti til góðs hirðis fær hjartað hvíld. Það þarf ekki að skilja allt – heldur dvelja í þeirri vissu að enginn getur numið þig úr hendi Hans. Þar liggur róin og friðurinn sem heimurinn getur hvorki gefið né tekið.
Byggt á Lectio Divina: https://ocarm.org/en/prayer/lectiodivina