08 ágúst 2024

Leikmannafélag hl. Þorláks stofnað

Í forgrunni eru meðlimir leikmannareglunnar í hátíðabúningi sínum. Í efri röð er Davíð biskup ásamt tveim prestum. 

Á Þorláksmessu 20. júlí síðastliðinn gaf Davíð biskup út bráðabirgðareglur um stofnun Leikmannafélags heilags Þorláks. Tilgangur félagsins er efling kristilegs lífs í þjóðfélaginu í samræmi við guðslög og lög kirkjunnar með hliðsjón af heilögu lífi og fordæmi heilags Þorláks Þórhallssonar (1133-1193), sjötta Skálholtsbiskups og verndardýrling Íslands. 

Félagið stuðlar meðal meðlima sinna og almennings að dýrkun heilags Þorláks með því að efla þekkingu á ævisögu hans, kenningum, lifnaðarháttum og útbreiðslu dýrkunar hans gegnum aldirnar. Félagið tekur virkan þátt í bænahaldi og athöfnum sem kirkjan stendur fyrir, dýrlingnum til heiðurs. 

Meðlimir félagsins skuldbinda sig í eitt ár í senn frammi fyrir þjóni kirkjunnar að: 

  • Samræma líf sitt við kenningar kirkjunnar og vera virkir í trúariðkun sinni samkvæmt boðum Guðs og kirkjunnar.
  • Hlýða á heilaga messu á sunnudögum og lögboðnum helgidögum. 
  • Skrifta reglulega og meðtaka altarissakramentið oft.
  • Mæta í heilaga messu á hátíðisdögum dýrlingsins, 20. júlí og 23. desember.
  • Biðja nóvenubænir heilags Þorláks í níu daga fyrir hátíðisdaga hans. 
  • Klæðast hátíðabúningi félagsins í messunni á þessum tveimur hátíðisdögum en einnig á dýradegi, einkum í skrúðgöngunni, og við sérstök tækifæri í samráði við yfirvöld kirkjunnar. 
  • Leitast við að taka að sér eftir getu eitt hlutverk í safnaðarlífi að fengnu samþykki stjórnar félagsins og sóknarprestsins. 

Hl. Teresa Benedikta af Krossinum Karmelnunna og verndardýrlingur Evrópu Minning

„Edith Stein var fædd í Breslau tólfta október árið 1891. Fjölsky[l]da hennar voru Gyðingar. Eftir að ástríðufullu námi hennar í heimspeki l...