29 október 2024

Meðlimir leikmannareglu Karmels gefa lokaloforð

Frá vinstri: Thomas, Jónas, Ragnar, Davíð biskup, Hildur og Ágúst

Laugardaginn 26. október síðastliðinn gáfu fjórir meðlimir Leikmannareglu Karmels lokaloforð sitt í hátíðlegri messu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Þetta voru þau Ágúst Elvar Almy, Hildur Sigurbjörnsdóttir, Jónas Sen og Ragnar Geir Brynjólfsson. Davíð biskup Tencer leiddi athöfnina. Loforð til inngöngu í leikmannaregluna eru tvö, það fyrra var gefið 12. desember 2021.

Regludeildin hérlendis var formlega stofnuð 13. apríl 2019. Við stofnunina fengu umsækjendur reglubúning og helgiklæðið „brúna skapúlarið“ ásamt því að velja sér regluheiti. Hópurinn hafði þá hist reglulega um árabil undir leiðsögn systur Agnesar, Karmelnunnu í Hafnarfirði.

Á íslensku þýðir orðið „leikmenn“ (e. layman) óvígða karla og konur.  Loforð Leikmannareglunnar er ekki klausturheiti eða vígsla í sama skilningi og klausturheiti eða prestvígsla, þótt það sé af sama andlega meiði. Hið ytra líf meðlima leikmannareglunnar er því svipað og hjá almenningi; þeir geta stofnað og átt fjölskyldu. Regluloforðið felur í sér að umsækjandinn lofar að stefna að ævilangri evangelískri fullkomnun í anda dyggðanna skírlífis, fátæktar og hlýðni, ásamt því að lifa í anda Sæluboða Jesú Krists. 

Meðlimirnir leitast við að biðja tíðabænir; morguntíð (laudes), síðdegistíð (vesper) og kvöldtíð (completorium), og leita innri þagnar í daglegri íhugun.  Þau hittast einu sinni í mánuði í Karmelklaustrinu, biðja tíðabænir og samlesa rit af andlegum toga. Allir eru velkomnir að taka þátt í þessum fundum.  Þau sem hafa áhuga á að fræðast meira um Leikmannaregluna geta haft samband við undirritaðan.

Ragnar Geir Brynjólfsson: kirkjunet.blogspot.com. 29.10.2024

Meðlimir leikmannareglu Karmels gefa lokaloforð

Frá vinstri: Thomas, Jónas, Ragnar, Davíð biskup, Hildur og Ágúst Laugardaginn 26. október síðastliðinn gáfu fjórir meðlimir Leikmannareglu...