Hátíð Pétursmessu á vetri beinist að „cathedra“ Péturs, eða biskupsstóli hans, og sérstöku hlutverki sem Jesús fól honum sem leiðtoga postulanna. Þessi kirkjuhátíð á rætur sínar að rekja allt aftur til þriðju aldar og er aðgreind frá Pétursmessu á sumri, sem haldin er 29. júní til minningar um píslarvætti hans. Uppruni hátíðarinnar er bundinn við biskupsstól Péturs, sem var tákn hins andlega valds sem hann fékk til að leiða og vernda kristna söfnuðinn.
Í fornkirkjunni var „cathedra“ biskupsins fastur stóll í dómkirkju biskupsdæmisins – þaðan er orðið „cathedral“ dregið – og hún táknaði umboð hans til að leiða og kenna. Þar sem biskupar eru arftakar postulanna var hlutverk þeirra að vernda hjörðina og miðla fagnaðarerindinu. Í þessum skilningi var loftstofan, þar sem Jesús hélt síðustu kvöldmáltíðina og þar sem postularnir ásamt Maríu mey tóku á móti heilögum anda, fyrsta „cathedral“ kristinnar kirkju.
Pétur fór síðar til Antíokkíu, borgarinnar sem Barnabas og Páll höfðu kristnað og þar sem lærisveinar Jesú voru fyrst nefndir „kristnir“ (Post. 11:26). Þar var Pétur fyrsti biskupinn, og því var biskupsstóll hans í Antíokkíu upphaflega heiðraður með sérstakri hátíð 22. febrúar. Seinna flutti Pétur til Rómar, þar sem hann leiddi kristna söfnuðinn og endaði líf sitt í píslarvætti. Fyrir þessa dýrlegu fórn var ákveðið að líta á Róm sem hinn eiginlega biskupsstól Péturs. Upphaflega var hátíð biskupsstólsins í Róm haldin 18. janúar, en Jóhannes páfi XXIII sameinaði þessar tvær hátíðir og hélt dagsetningunni 22. febrúar.
Hátíðin leggur áherslu á hið hirðislega og kennilega umboð sem Kristur fól Pétri, eins og fram kemur í guðspjalli dagsins. Tvær fornar heimildir undirstrika þetta. Hinn heilagi Híerónýmus skrifaði:
"Ég ákvað að leita til biskupsstóls Péturs, þar sem sú trú er upphafin sem var prédikuð af sjálfum postulunum. Ég kem til að nærast andlega þar sem ég eitt sinn klæddist Kristi. Ég fylgi engum nema Kristi, og þess vegna geng ég í samfélag við sælu þína, það er að segja við biskupsstól Péturs, því ég veit að þetta er kletturinn sem kirkjan er byggð á."
Hinn heilagi Ágústínus sagði: "Hátíðin sem við höldum í dag dregur nafn sitt af 'cathedra' vegna þess að fyrsti postuli Drottins, Pétur, sat á þessum biskupsstóli. Það er því rétt og viðeigandi að kirkjurnar heiðri uppruna þessa embættis, sem postulinn tók við í þágu allra kristinna safnaða." Pétursmessa á vetri er því ekki aðeins minning um postula Krists heldur einnig lifandi tákn um einingu og leiðsögn kirkjunnar í gegnum aldirnar.
https://www.vaticannews.va/en/liturgical-holidays.html