Hátíð boðunar Drottins er ein af stóru hátíðunum í Kaþólsku kirkjunni og er haldin 25. mars ár hvert, níu mánuðum fyrir fæðingu Krists. Þessi hátíð minnir á þá stund þegar erkiengillinn Gabriel birtist Maríu mey í borginni Nasaret og flutti henni þau tíðindi að hún myndi geta son með atbeina Heilags Anda og að sonur hennar yrði kallaður Sonur Guðs.
Saga og bakgrunnur hátíðarinnar tengist mörgum frásögnum Gamla testamentisins þar sem Guð kemur til kvenna og tilkynnir þeim um fæðingu sonar með sérstakt hlutverk í hjálpræðissögunni. Við sjáum dæmi um þetta í sögum Söru, eiginkonu Abrahams, sem fæddi Ísak þrátt fyrir háan aldur (1Mós 18:9-15), Önnu, móður Samúels (1Sam 1:9-18), og móður Samsons (Dóm 13:2-5). Í öllum þessum tilfellum var boðuð fæðing sonar sem átti að gegna lykilhlutverki í áætlun Guðs. Þegar María heyrir orð erkiengilsins um að hún muni verða móðir frelsarans, rifjast þessar sögur sjálfsagt upp fyrir hana og styrkja hana í trúnni.
Boðunin á sér stað „á sjötta mánuði“ meðgöngu Elísabetar, móður Jóhannesar skírara (Lk 1:26). Þessi tímasetning er mikilvæg, því þungun Elísabetar var sjálf kraftaverk þar sem hún var komin á efri ár og hafði verið talin óbyrja. Hún er þannig lifandi vitnisburður um að „ekkert er Guði um megn“ (Lk 1:37). María fær því ekki aðeins orð engilsins, heldur líka skýrt tákn um að Guð framkvæmir hið ómögulega. Þannig er sagan af fæðingu Jesú samtvinnuð sögum fyrri tíðar um konur sem gengu með börn með undraverðum hætti.
Engillinn heilsaði Maríu með orðunum: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“ (Lk 1:28). Þessi kveðja minnir á það þegar Guð kallaði Móse (2Mós 3:12), Jeremía (Jer 1:8) og Gídeon (Dóm 6:12) til að sinna mikilvægum hlutverkum í sögu Ísraels. María bregst við með undrun og spyr sig hvað þessi kveðja geti þýtt. Hún er ekki óvarkár, heldur vill hún skilja hvert hlutverk hennar eigi að vera.
Engillinn fullvissar hana og segir: „Óttast þú eigi“ (Lk 1:30). Þetta er dæmigert svar Guðs þegar hann birtist fólki og kallar það til þjónustu. María tekur hins vegar ekki boðskapnum án umhugsunar. Hún spyr hvernig þetta geti gerst, þar sem hún hafi ekki karlmanns kennt. Hún veit að aðstæður hennar eru mannlega séð ómögulegar. Þá útskýrir engillinn að Heilagur Andi muni koma yfir hana og kraftur hins hæsta muni yfirskyggja hana. Þetta er lykilatriði í boðunarfrásögunni og undirstrikar að Jesús er ekki aðeins afkomandi Davíðs konungs, heldur er hann í raun Sonur Guðs.
Engillinn útskýrir að Heilagur Andi, sem hefur verið viðstaddur frá sköpun heimsins (1Mós 1:2), getur gert hið ómögulega að veruleika. Þetta er ástæða þess að barnið sem fæðist mun kallast Sonur Guðs. Þetta kraftaverk endurtekur sig allt til dagsins í dag. Þegar orð Guðs er meðtekið af hjarta okkar, þá verður eitthvað nýtt og óvænt til, fyrir mátt Heilags Anda! Líkt og María meðtók orðið og lét það verða hold, erum við kölluð til að leyfa Guði að starfa í lífi okkar og breyta okkur innan frá.
Viðbrögð Maríu sýna djúpa auðmýkt og algjört traust til Guðs. Hún svarar einfaldlega: „Sjá, ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orðum þínum“ (Lk 1:38). Hún tekur þannig á sig hlutverk þjóns Guðs, sem minnir á þjónshlutverk Messíasar í spádómum Jesaja (Jes 42:1-9; 49:3-6). Jesús sjálfur mun síðar skilgreina sína köllun með þessum hætti: „Ég er ekki kominn til að láta þjóna mér, heldur til að þjóna“ (Mt 20:28). Hér sjáum við hvernig María, frá upphafi, var fyrirmynd sonar síns í auðmýkt og þjónustu.
Hátíð boðunar Drottins kennir okkur margt. Hún minnir okkur á að Guð hefur áætlun fyrir hvern og einn og að hann getur leitt okkur inn á nýjar brautir sem við hefðum aldrei séð fyrir. Hún minnir okkur líka á að líkt og María erum við kölluð til að svara kalli Guðs með trausti og auðmýkt. Fyrir kraft Heilags Anda getur líf okkar umbreyst og orðið hluti af hinni miklu hjálpræðissögu Guðs.
Byggt á:
https://www.vaticannews.va/en/liturgical-holidays/solemnity-of-the-annunciation-of-the-lord.html
https://ocarm.org/en/prayer/lectiodivina