Hl. Teresa frá Avíla (1515–1582) var tekin í tölu heilagra af Gregoríusi XV páfa 12. mars 1622 og útnefnd kirkjufræðari af Páli VI páfa árið 1970, ein af fjórum konum sem hefur hlotnast sá heiður. Hún var þekkt fyrir andlegt innsæi, ritstörf og umbætur innan Karmelreglunnar. Hún stofnaði „hina skólausu“ grein Karmelreglunnar (OCD) ásamt hl. Jóhannesi af Krossi og var mikill áhrifavaldur í andlegu lífi kristinna manna.
Þann 28. ágúst 2024 hófst í Alba de Tormes á Spáni enn einn kaflinn í langri sögu jarðneskra leifa hl. Teresu með opnun grafar hennar. Þetta er hluti af þeirri langvarandi hefð að rannsaka, varðveita og heiðra jarðneskar leifar hennar. Þetta hefur verið gert nokkrum sinnum í gegnum aldirnar, meðal annars stuttu eftir andlát hennar þegar í ljós kom að jarðneskar leifar hennar voru óforgengilegar. Í þetta sinn var farið í viðamikið og vandað rannsóknarferli sem nær hápunkti með opinberri sýningu frá 11. til 25. maí 2025, áður en gröfinni verður lokað á ný.
Við rannsóknina voru framkvæmdar fjölmargar nákvæmar vísindalegar athuganir undir stjórn prófessoranna Luigi Capasso, Ruggero D’Anastasio og Dr. Jacopo Cilli frá háskólanum ‘Gabriele d’Annunzio’ í Chieti-Pescara á Ítalíu. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem safnaðist ákvað aðalstjórn hinna skólausu Karmelnunna að ráðast í vísindalega endurgerð á andliti hl. Teresu með nýjustu aðferðum samtímans.
Þessi andlitsendurgerð, sem einnig er kölluð „nálgun“, var unnin af prófessor Jennifer Mann frá Victorian Institute of Forensic Medicine við Monash-háskólann í Victoria, Ástralíu. Hún byggði á réttarlæknisfræðilegum aðferðum sem notaðar eru í Bandaríkjunum og Bretlandi, og tók mið af andlitsmælingum og röntgenmyndum sem háskólinn í Chieti lagði til. Ljósmyndir voru teknar af Jennifer Mann og myndbönd af Paul Burston.
Listamennirnir hafa veitt leyfi fyrir birtingu og prentun þessara mynda með eftirfarandi skilyrðum: fyrir ljósmyndir „Höggmynd og ljósmyndir eftir Jennifer Mann“ og fyrir myndbönd „Höggmynd eftir Jennifer Mann / Myndbönd eftir Paul Burston“, með öll réttindi áskilin.
Brátt verða eftirmyndir af höfði hl. Teresu fáanlegar í upprunalegri stærð, annaðhvort í bronsi eða plastefni. Sjá nánar hér: