Heilagur Jósef, fósturfaðir Jesú og brúðgumi Maríu meyjar, er einn af merkustu dýrlingum kristinnar trúar. Hann er verndardýrlingur alheimskirkjunnar og fyrirmynd iðjusemi, réttlætis og trúarlegrar hlýðni. Hlutverk hans í lífi Jesú og Maríu er afar mikilvægt.
Jósef var af ætt Davíðs og bjó í Nasaret. Þegar hann komst að því að María, sem hann var trúlofaður, var þunguð, hugðist hann skilja við hana á laun til að hlífa henni við niðurlægingu. En þá birtist honum engill Drottins í draumi sem sagði honum að barnið væri getið af Heilögum Anda, að hann ætti að taka Maríu sér til eiginkonu. Jósef hlýddi þessum boðskap og tók að sér hið helga hlutverk að vernda og ala upp Jesú Krist (Mt 1:20-24).
Þetta var ekki í eina skiptið sem Guð talaði til heilags Jósefs í draumi. Eftir fæðingu Jesú fékk hann aftur vitrun í draumi, þar sem engill Drottins varaði hann við hættu. Heródes konungur hugðist láta drepa öll sveinbörn í Betlehem til að uppræta hinn nýfædda konung Gyðinga. Heilagur Jósef hlýddi skipun engilsins, vaknaði um nóttina og flutti fjölskyldu sína til Egyptalands, þar sem þau dvöldu þar til Heródes var fallinn frá (Mt 2:13-15). Enn síðar, þegar hættan var liðin hjá, birtist engill honum aftur í draumi og bauð honum að snúa aftur til Ísraels, og heilagur Jósef settist að í Nasaret með fjölskyldu sinni (Mt 2:19-23).
Draumar í biblíunni gegna oft lykilhlutverki í því að opinbera Guðs vilja. Í Gamla testamentinu birtist áætlun Guðs gjarnan í draumum, líkt og í draumi Jakobs í Betel. Draumar Jósefs sonar Jakobs, hafa einnig mikilvæga þýðingu í frásögnum af Faraó og komu ættfeðra Ísraels til Egyptalands, þar sem Guð varaði við komandi hungursneyð og leiðbeindi um viðbúnað, og er þess að minnast að bræður Jósefs kölluðu hann „draumamanninn“ (1. Mós, 37:19). Á sama hátt birtist Guð heilögum Jósef í draumum og gaf honum leiðsögn og vernd.
Hlutverk heilags Jósefs nær einnig til andlegs lífs kirkjunnar. Í Karmelreglunni er hann sérstaklega heiðraður sem fyrirmynd íhugunar og innri einingar við Guð. Heilagur Jósef var maður þagnar og hlýðni, sem lifði einföldu lífi í þjónustu við Krist og Maríu. Reglubræðurnir og reglusystrurnar í Karmel líta til hans sem leiðbeinanda í bænalífi og trausti á forsjá Guðs. Líkt og heilagur Jósef treysti Guði á hættutímum og fylgdi honum, eru Karmelfræðin grundvölluð á þeirri trúarafstöðu að fylgja Guðs vilja óttalaust og í trausti.
Heilagur Jósef er dýrlingur sem talar ekki í ritningunni, en verk hans tala skýrt. Hann sýnir okkur hvernig hlýðni við Guðs vilja, jafnvel á tímum óvissu, leiðir til gæfu og blessunar. Hann er verndari fjölskyldunnar, fyrirmynd feðra og verkamanna, og öflugur fyrirbænadýrlingur þeirra sem leita leiðsagnar í lífi sínu. Fyrir leiðsögn draumana sem Guð sendi honum, leiddi hann fjölskyldu sína af elsku, trúmennsku og hugrekki. Þess vegna er hann dýrlingur sem á erindi við alla kristna menn, í hvaða aðstæðum sem þeir kunna að vera.
Heilagur Jósef er einnig verndari deyjenda, og kirkjan hefur lengi heiðrað hann í því hlutverki. Það er talið að hann hafi dáið í návist Jesú og Maríu, sem gerir hann að fyrirmynd þeirra sem vilja deyja í friði með Guð sér við hlið. Í hefð kirkjunnar er hann oft ákallaður í fyrirbæn fyrir þá sem eru að kveðja þennan heim, svo þeir megi hljóta góðan dauðdaga og yfirgefa heiminn í samfélagi við Krist. Þannig er heilagur Jósef ekki aðeins fyrirmynd hins trúaða manns í lífi sínu, heldur einnig í andláti sínu, sem endurspeglar fullkomið traust á vilja Guðs.