11 apríl 2025

Heilagur Stanislaus, biskup í Kraká og píslarvottur - minning 11. apríl


„Sannleikurinn hræðist ekki valdið, og réttlætið fellur ekki frammi fyrir ofbeldi.“

Heilagur Stanislás, verndardýrlingur Póllands og helsta helgimenni Krakár, var ekki aðeins biskup heldur hirðir sem leiddi sitt fólk í átt til ljóssins í heimi þar sem skuggarnir sóttu að. Líf hans og dauði bera vott um þá djörfung sem Guð gefur þeim sem treysta Honum meira en mönnum.

Hl. Stanislás fæddist um árið 1030 í Szczepanów, skammt frá Kraká. Hann var alinn upp af kristnum foreldrum sem hlúðu að trú hans og námfýsi. Hann stundaði nám í Gniezno og síðar í París, og varð að lokum prestur í Kraká. Þar vakti hann fljótt athygli fyrir næma dómgreind, hlýju og djúpa trú. Árið 1072 var hann vígður biskup í Kraká – sá fyrsti af pólskum uppruna til að gegna því embætti.

Heilagur Stanislás hefur frá fornu fari verið talinn þjóðardýrlingur Póllands og dýrkaður sem tákn kristins siðferðis, þjóðlegrar reisnar og andlegs styrks. Hann hefur skipað sér sess sem trúarleg fyrirmynd sem sameinar hið andlega og þjóðlega, og minning hans lifir áfram í trúarlífi og menningu pólsku þjóðarinnar.

Frá fyrstu tíð beitti hl. Stanislás sér fyrir réttlæti og vörn hinna minnstu. Hann varð fljótt óþægilegur þeim sem misnotuðu vald sitt, ekki síst konunginum Boleslausi II. Þegar biskupinn gagnrýndi siðleysi og grimmdarverk konungs, dró það dilk á eftir sér.

Ein þekktasta saga úr lífi hl. Stanislásar tengist landakaupadeilu. Biskupinn hafði keypt land af manni að nafni Piotr, sem lést áður en kaupunum var formlega lokið. Erfingjar Piotrs sökuðu biskupinn um svik og heimtuðu landið til baka. Hl. Stanislás, sem vildi hvorki ljúga né greiða götu óréttlætis, bað Guð um hjálp. Hann gekk til grafar hins látna, kallaði hann fram í nafni Krists, og í viðurvist fólksins reis Piotr upp úr gröf sinni, bar sannleikanum vitni og gekk síðan friðsamlega aftur til hvílu.

Þegar hl. Stanislás rak konunginn úr samfélagi kirkjunnar vegna grimmdarverka hans, brást Boleslaus við með ofbeldi. Árið 1079 gekk hann sjálfur inn í kirkju heilags Mikaels í Kraká og drap hl. Stanislás með eigin höndum við altarið, þar sem biskupinn söng heilaga messu.

Lík hl. Stanislásar, sem hafði verið höggvið í sundur sameinaðist á ný. Samkvæmt helgisögn vöktu englar yfir leifunum og örn breiddi væng sinn yfir þær til verndar. Þetta var talið kraftaverk sem staðfesti heilagleika hans og varð tákn bæði um þá einingu kirkjunnar sem hann hafði reynt að varðveita með lífi sínu og einnig tákn um einingu Póllands. 

Heilagur Stanislás var tekinn í tölu dýrlinga árið 1253 af Innocentiusi páfa IV. Hann varð fljótt ekki aðeins trúarleg fyrirmynd í hjörtum fólks, heldur þjóðartákn – trúfastur vörður samvisku og réttlætis. Hann hefur oft verið borinn saman við heilagan Thomas Becket í Englandi, sem einnig dó við altarið af hendi konungs. Báðir urðu píslarvottar fyrir að standa með sannleikanum gegn veraldlegu valdi.

Líf heilags Stanislásar minnir okkur á að kristin trú er ekki aðeins kærleiksboðskapur – hún kallar einnig á staðfestu, hugrekki og trúfesti. Sá sem elskar Guð meira en eigið öryggi verður sjálfur að lifandi ljósbera, jafnvel þótt það kosti hann allt. Í hl. Stanislási sjáum við hirði sem stóð fast gegn óréttlæti, ekki fyrir sjálfan sig, heldur fyrir samfélag sitt og samviskuna.


Bæn

Heilagi Stanislás,
þú sem studdir hina réttlátu með hugrekki og blíðleika,
þú sem reistir hinn dauða og stóðst frammi fyrir dauða þínum með trúfesti –
bið fyrir okkur, svo við megum lifa í sannleika og þjóna Guði af heilum hug.
Gef okkur þá náð að rækta réttlæti, elska frið og ganga í auðmýkt frammi fyrir Guði.
Amen.



Hl. Katrín frá Síena, mey, kirkjufræðari og verndardýrlingur Evrópu

Caterina Benincasa, síðar heilög Katrín frá Síena, er hér sýnd í hefðbundnum búningi dóminíska reglusamfélagsins – þó hún væri ekki klaustur...

Mest lesið