04 október 2025

Heilagur Frans frá Assisi – reglustofnandi og vitni um fagnaðarerindið - minning 4. október

Heilagur Frans frá Assisi


Í huga margra er heilagur Frans frá Assisi tákn hinnar hreinu trúar sem birtist í fátækt, auðmýkt og ómældri gleði yfir sköpun Guðs. Hann átti sér engan annan auð en vináttu við Krist, og var í lífi sínu og vitnisburði eins konar „Alter Christus“ – spegilmynd Frelsarans. Hann kenndi að við eigum ekki aðeins að tilbiðja Guð, heldur einnig að elska bræður okkar og systur, alla menn og alla skapaða hluti.

Æviágrip
Heilagur Frans fæddist árið 1182 í Assisi, sonur efnaðs klæðakaupmanns, Pietro di Bernardone, og móður hans Pica di Bourlemont. Í æsku var hann afar metnaðargjarn og tók þátt í stríði Assisi gegn Perugia. En stríðsreynslan og veikindi eftir heimkomuna hreyfðu hjarta hans djúpt. Í draumi heyrði hann rödd: „Hvers vegna þjónar þú þjóni en ekki Meistara?“ og líf hans tók að breytast.



Hann dvaldi í kyrrð bænar og íhugunar í Umbríu og fór að nálgast þá sem hann hafði áður forðast – holdsveika og fátæka. Í litlu kapellunni í San Damiano heyrði hann Krist segja: „Frans, farðu og endurnýjaðu kirkju mína, sem þú sérð að er í rúst.“ Hann tók fyrst að endurreisa litlu kirkjuna, en síðar áttaði hann sig á að köllun hans var að endurnýja alla kirkjuna með lífi í trú, fátækt og kærleika.

Ágreiningur varð milli hans og föður hans, þegar Frans afsalaði sér öllum arfi og tók á sig hjúskap við „Frú Fátækt“. Hann safnaði um sig fyrstu fylgismönnum sínum og árið 1209 fékk hann fyrstu staðfestingu páfa á reglu sinni. Síðari staðfestingin kom árið 1223. Hann stofnaði einnig reglu fyrir konur, Klörusystur, ásamt heilagri Klöru, og þriðju regluna fyrir leikmenn.

Frans sýndi brennandi kærleika til Krists. Hann setti upp fyrstu lifandi jólaguðspjallssýninguna í Greccio árið 1223 og fékk síðar stigmata, sáramerki Jesú Krists á eigin líkama. Hann orti hinn fræga „Sólarsálm“, lofgjörð til Skaparans, í veikindum sínum. Hann andaðist að kvöldi 3. október 1226, 44 ára að aldri, í kapellunni Porziuncola. Tveimur árum síðar var hann tekinn í tölu heilagra.

Heilagur Frans í Landinu helga – fundurinn við soldáninn
Árið 1219, meðan fimmta krossferðin stóð sem hæst, hélt heilagur Frans frá Assisi til Egyptalands. Krossfarar höfðu umkringd borgina Damíettu við Nílarós, og átök voru í algleymingi. Frans fylgdi krossferðinni ekki til að berjast, heldur í öðrum tilgangi: að vitna um frið og fagnaðarerindið.

Hann gekk óhræddur inn í herbúðir múslima og óskaði eftir að hitta soldáninn, al-Malik al-Kamil, sem var frændi Saladíns. Soldáninn tók á móti honum með virðingu og hlýju. Þeir áttu friðsamlegar samræður þar sem hl. Frans vitnaði um trú sína á Krist. Sagan segir að soldáninn hafi beðið hann að dvelja lengur, og þó að Frans hafi snúið aftur til bræðra sinna, þá er þessi fundur varðveittur sem vitnisburður um hugrekki hans og einlægan friðarboðskap.

Tilvitnun
Úr bréfi heilags Frans frá Assisi: „Vér eigum ekki að vera vitrir og hyggnir eftir holdinu. Vér eigum frekar að vera falslausir, auðmjúkir og hreinir. Vér eigum aldrei að hafa löngun til að vera yfir aðra hafna. Vér eigum heldur að vera þjónar sem eru undirgefnir öllum mönnum fyrir Guðs sakir.“
(Opuscula, edit. Quaracchi 1949) Úr tíðabænabók Kaþólsku kirkjunnar, sjá hér.

Tengsl heilags Frans frá Assisi við Ísland
Þótt heilagur Frans frá Assisi hafi aldrei komið til Íslands, er líklegt að fregnir af lífi hans og reglu hafi borist tiltölulega snemma hingað norður. Íslensk klaustursamfélög miðalda voru hluti af hinu sameiginlega evrópska kirkjusvæði og frásagnir um heilaga menn og konur náðu hingað í gegnum sögur og handrit. Ekki er vitað til þess að fransiskanar hafi komið til Íslands fyrir siðaskipti, en áhrif hugmynda heilags Frans um fátækt, auðmýkt og náungakærleika hafa án efa borist með munnmælum.

Í seinni tíð hafa tengslin orðið mun sýnilegri. Í bókinni Heilagur Frans frá Assisi, ævi hans og starf eftir Friðrik J. Rafnar, sem Kaþólska kirkjan gaf út árið 1979, er bent á í eftirmála eftir Torfa Ólafsson að „ein greinin á þeim meiði, sem heilagur Frans gróðursetti, hefur náð alla leið hingað, út af [svo] hinu ysta hafi. Það er regla Franciskussystra (The Franciscan Missionaries of Mary) sem hingað kom [...] og hefur síðan 1936 rekið sjúkrahúsið í Stykkishólmi af þeirri natni og samviskusemi sem systurnar eru alþekktar fyrir“ (bls. 193).

Starf þeirra í Stykkishólmi var fjölbreytt. Auk spítalans ráku þær leikskóla, sem var líklega einn af hinum fyrstu hérlendis, og frá 1952 til 1992 starfræktu þær prentsmiðju Kaþólsku kirkjunnar.   Fransiskussystur þjónuðu hér allt til ársins 2009 og sinntu einnig safnaðarstarfi á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2004 komu kapúsínamunkar frá Slóvakíu til Íslands og stofnuðu klaustur á Kollaleiru við Reyðarfjörð. Kapúsínarnir eru ein af megingreinum fransiskönsku reglunnar og leggja sérstaka áherslu á einfaldleika og bænaiðkun í anda heilags Frans. Þeir sinna bænahaldi og prestsþjónustu og hafa með nærveru sinni fléttað fransiskanska arfleifðina enn dýpra inn í trúarlíf á Íslandi.

Núverandi Reykjavíkurbiskup, Davíð B. Tencer, OFMCap, er sjálfur kapúsíni og stendur þannig sem lifandi vitni um áhrif heilags Frans frá Assisi í íslenskri kirkjusögu samtímans.

Lærdómur
Heilagur Frans frá Assisi sýnir að gleði sprettur ekki af auði eða frama, heldur af því að tilheyra Guði og lifa í kærleika. Hann minnir okkur á að vera einlæg og til þjónustu reiðubúin, að elska náungann og virða sköpunina sem gjöf frá Guði. Líf hans var hrein lofgjörð, og hann fann frelsi í því að afsala sér öllu til að eignast Guð einan. Köllun hans til að „endurnýja kirkjuna“ er köllun sem hljómar áfram í dag: að byggja upp samfélag trúar og kærleika þar sem Kristur er miðjan.

Friðarbæn eignuð hl. Frans frá Assisi
Drottinn, ger þú mig að farvegi friðar þíns,
svo ég færi kærleika þangað sem hatur er,
fyrirgefningu þangað sem móðgun er,
einingu þangað sem sundrung er,
sannleika þangað sem villa er,
trú þangað sem efi er,
von þangað sem örvænting er,
ljós þangað sem skuggi er,
gleði þangað sem harmur er.

Veit þú, Drottinn, að ég sækist fremur 
eftir að hugga en láta huggast,
skilja en njóta skilnings,
elska en vera elskaður,
því að okkur gefst ef við gefum,
við finnum sjálf okkur
ef við gleymum okkur sjálfum,
okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum
og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs.

Amen.


Heilög Elísabet frá Ungverjalandi – verndari fátækra og þjáðra - minning 17. nóvember

Heilög Elísabet frá Ungverjalandi Í dag minnist kirkjan heilagrar Elísabetar frá Ungverjalandi, sem lifði stuttu en djúpu lífi. Hún fæddist ...