01 nóvember 2025

Allra heilagra messa – stórhátíð 1. nóvember

Samfélag heilagra


Í dag, 1. nóvember, fagnar kirkjan Allra heilagra messu — hátíð allra þeirra sem hafa gengið veg trúarinnar án þess að nöfn þeirra séu formlega meðal hinna þekktu dýrlinga. Þetta er dagur hins hljóða heilagleika, þeirra sem elskuðu, báðu, þjáðust, vonuðu og þjónuðu án þess að nokkur reisti þeim minnisvarða. Þeir eru afar margir, og líf þeirra myndar ósýnilega brú milli himins og jarðar.

Hátíðin á rætur sínar að rekja allt aftur til fyrstu alda kirkjunnar, þegar minnst var píslarvotta sem enginn þekkti með nafni. Seinna varð þessi dagur að sameiginlegri hátíð allra heilagra. Hún minnir okkur á að vegur heilagleikans er ekki frátekinn fyrir örfáa, heldur opinn öllum sem svara kærleika Guðs með trúfesti í hversdagslífi sínu.



Sæluboðin – sál heilagra
Guðspjall dagsins (Mt 5,1–12a) er kjarninn í þessari hátíð. Jesús stígur upp á fjallið og boðar nýjan skilning á hamingju — ekki byggðan á auði, frama eða yfirburðum, heldur á hreinleika hjartans, auðmýkt og trúfesti.

Sælir eru fátækir í anda því þeirra er himnaríki.

Þessi orð hafa oft verið misskilin eins og Jesús sé að vegsama fátæktina sjálfa. En það er ekki þannig. „Fátækt í anda“ merkir að við tæmum hjartað af sjálfhverfu, yfirlæti og þeirri blekkingu að við getum byggt líf okkar án Guðs. Sá sem er „fátækur í anda“ hefur opið hjarta fyrir vilja Guðs, treystir honum meira en eigin mætti og lætur Guð vera sitt sanna auðæfi. Eins og heilög Teresa frá Avíla sagði í hinni frægu bæn Nada de Turbe: „Guð einn nægir.“

Fátæktin sem Jesús lofar er ekki skortur, heldur frelsi — frelsi frá ótta og eignarhaldi, frelsi til að lifa í trausti og hlustun frammi fyrir Guði. Með orðum Divo Barsotti:

 „Sá sem vill að Guð fylli hjarta sitt verður að tæma það. Guð er ekki í fortíðinni, né í framtíðinni, heldur í núinu. Þín fátækt er að lifa í nærveru Guðs, sem er eilífð.“

Þeir sem syrgja og hinir hógværu

Annað sæluboðið segir:

Sælir eru syrgjendur, því þeir munu huggaðir verða.

Sorgin sem Jesús talar um er ekki aðeins yfir missi, heldur einnig yfir brotakennd heimsins, ranglæti og eigin vanmætti. Þeir sem syrgja með hjarta sem leitar Guðs verða huggun Guðs aðnjótandi. Huggun hans er ekki yfirborðsleg, heldur endurnýjar manninn innan frá.

Þriðja sæluboðið segir:

Sælir eru hógværir, því þeir munu jörðina erfa.

Hógværðin sem Jesús boðar er ekki veikleiki, heldur styrkur sálarinnar sem hafnar ofbeldi og frekju. Hún er kraftur sem kemur af róttæku trausti til Guðs og virðingu fyrir frelsi annarra. Martini kardínáli sagði:

„Hógvær manneskja, samkvæmt sæluboðunum, er sú sem – þrátt fyrir ákafar tilfinningar – heldur kyrrð, er ekki eignagjörn, er frelsuð hið innra og virðir leyndardóm frelsis annarra. Hún líkir eftir Guði, sem hvorki þröngvar sér upp á neinn né beitir neinn ofbeldi.“

Þannig verða fyrstu þrjú sæluboðin eins og inngangur að öllum hinum. Þau opna veginn til hins sanna frelsis: að vera fátækur í anda, að syrgja með kærleika, og að vera hógvær í hjarta — allt þetta leiðir inn í ríki Guðs.

John Henry Newman – nýr kennari heilagleikans
Á þessum hátíðardegi, deginum í dag, 1. nóvember 2025 í þessum skrifuðum orðum er Leó páfi XIV að hefja heilagan John Henry Newman til virðingar sem kirkjufræðara í heilagri messu. Tengill á athöfnina er hér. Það er táknrænt, því Newman sýndi með lífi sínu hvernig vegur heilagleikans liggur um leit, hugsun og trúarlega einlægni. Hann þekkti bæði efann og vonina, glímdi við mótþróa manna en hélt fast við samvisku sína sem rödd Guðs í hjartanu.

Newman kenndi að heilagleiki felst ekki í stórverkum heldur í tryggð við ljós sannleikans. Hann sagði eitt sinn: „Heilagleikinn vex í sálinni eins og dögun, hægt og hljótt, þar til hún stendur í ljósi dagsins.“ Á hátíð allra heilagra, þar sem hið hljóða ljós óteljandi manna brennur saman að einu, fá þessi orð sérstaka dýpt.

Lærdómur
Hátíðin kallar okkur til að horfa upp, en líka inn. Hún segir: þú ert kölluð eða kallaður til heilagleika — ekki með því að verða stór eða fullkomin, heldur með því að vera trúr kærleikanum í smáu. Fjallræðan er kortið, heilagir eru vitnin, og Newman er leiðsögumaður sem sýnir hvernig trú og skynsemi geta orðið eitt.

Bæn
Guð allra heilagra,
við þökkum þér fyrir ljós þeirra sem hafa gengið á undan okkur í trú.
Láttu ljóma í hjörtum okkar þann sama anda hógværðar,
þolinmæði og trúfesti sem lýsti líf þeirra.
Gef þú að við, líkt og heilagur Newman,
leitum þín með hreinu hjarta og finnum þig meðal fólksins.
Lát allt líf okkar verða lofgjörð þér til dýrðar
um aldir alda.
Amen.

Byggt á Lectio Divina Karmelreglunnar: www.ocarm.org

Allra heilagra messa – stórhátíð 1. nóvember

Samfélag heilagra Í dag, 1. nóvember, fagnar kirkjan Allra heilagra messu — hátíð allra þeirra sem hafa gengið veg trúarinnar án þess að nöf...