|  | 
| Hinrik biskup Frehen | 
Í dag minnumst við herra Hinriks Hubert Frehen, fyrsta biskups Reykjavíkurbiskupsdæmis, sem lést 31. október 1986. Með skipun hans árið 1968 hófst nýtt tímabil í sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, þar sem biskupsdæmið í Reykjavík tók við af hinu forna nafnbiskupsdæmi Hóla.
Herra Hinrik Frehen fæddist 24. janúar 1917 í Waubach í Hollandi og gekk í Montfort-regluna (S.M.M.) árið 1937. Hann var vígður prestur 18. desember 1943 og lauk doktorsprófi við háskólann í Louvain í Belgíu með ritgerð um kristfræði Pierre de Bérulle kardínála. Hann gegndi ýmsum trúboðs- og kennslustörfum innan reglunnar áður en hann var skipaður biskup á Íslandi 18. október 1968.
Í jólaviðtali við Morgunblaðið árið 1978 er dregin upp hlý og virðuleg mynd af biskupi sem hafði þá þegar markað djúp spor í sögu kirkjunnar hér á landi. Þar segir meðal annars: „Dr. Frehen biskup hefur lagt mikla stund á sögu kirkjunnar hér á landi með ágætum árangri og náð góðum tökum á íslensku máli. Hann hefur verið fundvís á fróðlega hluti um sögu kirkjunnar, bæði í skjölum Vatíkansins og skjalasafni kaþólsku kirkjunnar hér, og hefur ýmislegt af því tagi verið birt í Merki Krossins.“
Þegar viðtalið birtist var Frehen biskup þegar að undirbúa nýjan áfanga í sögu kirkjunnar á Íslandi – uppbyggingu Maríukirkju í Breiðholti og trúboðsstarfsins þar. Í greininni kemur fram að kirkjan hafi fengið úthlutað byggingarlóð í Breiðholti. Þannig lagði hann grunninn að því starfi sem síðar varð föður Róberts Bradshaw að sinna með miklum árangri og trúmennsku. Í sama viðtali lýsti Frehen biskup einnig von sinni um að starf Karmelsystra héldi áfram á Íslandi. Á þeim tíma voru þær fáar og framtíð klaustursins óviss, en biskupinn hafði trú á því að verk þeirra yrði ekki látið fjara út. Orð hans reyndust spámannleg.
Aðeins nokkrum árum síðar, árið 1983, hvarf fyrsti hópur karmelnunnanna frá Hollandi af landi brott en hinn 19. mars 1984 komu svo sextán nunnur frá Póllandi til Íslands til að hefja nýjan kafla í sögu Karmelreglunnar hér á landi. Þannig rættist von Frehen biskups – að bænalíf Karmels myndi halda áfram að blómstra á Íslandi.
Á árum Frehens biskups komu ályktanir Annars Vatíkanþingsins til framkvæmda og brugðist var við þeim breytingum sem þær höfðu í för með sér á messuforminu. Málefni sjúkrahúsanna þriggja St. Jósefssystra í Hafnarfirði og Reykjavík og St. Fransiskussystra í Stykkishólmi voru einnig á döfinni sem og nýbyggingar biskupshússins og prestbústaðarins að Hávallagötu 14 og 16.
Dýrlingar Íslands
Í viðtalinu um jólin 1978 ræddi biskupinn einnig um hina fornu helgu menn Íslands og þrá sína að fá helgi þeirra viðurkennda í Róm. Hann sagði: „Við eigum þrjá dýrlinga, þá Þorlák helga, Jón helga og Guðmund góða. […] Ég reyndi þegar í upphafi biskupsdóms míns að fá helgi þeirra Þorláks og Jóns staðfesta í Róm, en gat ekki uppfyllt þau skilyrði sem til þess var krafist, en það voru fyrst og fremst lýsingar á æviferli þeirra og dýrkun í rás aldanna.“
Þessi orð sýna djúpa virðingu Frehen biskups fyrir kirkjusögu landsins og vilja hans til að tengja saman forna helgi og trú líðandi stundar. Með fræðilegum aga og trúmennsku beindi hann sjónum sínum að rótum íslenskrar kristni, en á sama tíma horfði hann fram á veginn – að kirkjan á Íslandi yrði lifandi hluti alheimskirkjunnar.
Tveimur árum fyrir andlát sitt fékk Frehen biskup að sjá draum sinn rætast, þegar páfi lýsti Þorlák helga Þórhallsson opinberlega verndardýrling íslensku þjóðarinnar. Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðingur skrifaði síðar í minningargrein í Morgunblaðinu 7. nóvember 1986 að það hefði verið „fyrir tilstuðlan Hinriks Frehen“ að þessi viðurkenning varð að veruleika, og hann lýsir biskupinum sem manni með mild, broshýr augu, staðföstum í trúnni undir oki krossins.
Skuggahlið tímans
Hin alvarlegu orð Gunnars sagnfræðings frá 1986 um ok krossins sem hvíldi á Frehen biskupi voru ekki bara lýsing á samtímanum heldur reyndust þau einnig vera spádómsorð, eins og síðar kom í ljós.  Á árunum sem Frehen biskup stýrði kirkjunni, 1968 til 1986, komu fram alvarlegar ásakanir um misnotkun og ofbeldi. Þáverandi skólastjóri Landakotsskóla séra Ágúst George, sem tilheyrði sömu Montfort-reglu og biskupinn, og kennarinn Margrét Müller voru nefnd í þessum ásökunum. Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar tók málið til skoðunar árið 2012 og komst að þeirri niðurstöðu að ásakanir hefðu komið fram á þessum tíma, en að viðbrögð kirkjulegra yfirvalda hefðu ekki verið nægileg.
Í skýrslunni kemur fram frásögn föður sem kvartaði til Frehen biskups vegna framgöngu Margrétar og George. Biskupinn kvaðst þá hafa fengið margar svipaðar kvartanir og lofaði að gera eitthvað í málinu, en ekkert virðist hafa orðið úr því. Faðirinn kvaðst síðast hafa rætt við biskup nokkrum dögum áður en hann lést árið 1986 og hafi biskup þá sagt: „þetta sem þú talaðir um við mig fyrir nokkrum árum, hefði ég átt að stöðva eða grípa inn í með einhverjum hætti.“ Heimild: Skýrsla rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar um meint kynferðisbrot innan kirkjunnar á Íslandi, Reykjavík 2012, bls. 79.
Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum úr skýrslunni en það sýnir að biskupinn hafði vitneskju um vaxandi áhyggjur innan samfélagsins vegna séra George og Margrétar, en tregða til frekari aðgerða varð til þess að hann brást ekki nægilega við. Þögnin og aðgerðaleysið sem af henni leiddi hefur orðið kirkjunni dýrkeypt. Að viðurkenna þessa skuggahlið er nauðsynlegt, því réttlætið krefst sannleika. Það er hluti af trúfesti við Krist, sem stóð alltaf með þeim smæstu og varnarlausu.
Verk Frehen biskups lifa þó áfram í byggingum kirkjunnar við Hávallagötu, í Maríukirkju í Breiðholti, í Karmelreglunni á Íslandi og í þeirri virðingu sem hann sýndi fornum helgum mönnum þjóðarinnar. Minning hans minnir okkur á að trúfesti birtist ekki aðeins í verklegum framkvæmdum, orðum, fræðistörfum, bænum, helgiathöfnum og íhugun, heldur einnig að það getur verið nauðsynlegt að standa með sannleikanum og vernda hina varnarlausu.
Lærdómur og bæn
Herra Hinrik Frehen biskup var fræðimaður, trúmaður og þjónn kirkjunnar. Hann leitaði jafnvægis milli visku og trúar, menningar og bænar. En eins og hann sjálfur viðurkenndi á síðustu dögum sínum getur jafnvel sá sem vill gera rétt hikað — og þá getur orðið of seint að bregðast við. Það er lærdómur sem nær út fyrir hans eigin ævi: að ábyrgð krefst hugrekkis, og að stundum er það kærleikurinn sjálfur sem kallar á sársaukafullar aðgerðir.
Bæn
Drottinn Guð, þú sem kallar menn af ólíkum þjóðum til þjónustu í víngarði þínum. Gef að við lærum að bregðast við þegar réttlætið kallar, og að við látum ekki aðgerðaleysið hindra verk kærleikans.
Fyrir Krist, Drottin vorn. Amen.