30 október 2025

Absalon erkibiskup – guðsmaður, ríkisráðsherra og faðir Kaupmannahafnar - 30. október

Absalon erkibiskup - faðir Kaupmannahafnar

Í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags stóð allt frá árinu 1875 og fram til ársins 1970 nafnið „Absalon“ við daginn 30. október. Líklega hefur þetta nafn ekki sagt Íslendingum mikið og jafnvel þeir sem leituðu í kirkjuleg dagatöl fundu engan dýrling með því nafni. Hvers vegna skyldi þá þessi Absalon hafa ratað í íslenska almanakið? Svarið er að finna í sögu Danmerkur. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags var í fyrstu þýðing eða staðfærsla dansks almanaks, sem innhélt bæði kirkjulega og þjóðlega minningardaga Dana. Þar með skýrist hvers vegna nafn eins og nafn Absalons – manns sem Íslendingum var að mestu óþekktur – birtist 30. október í íslensku dagatali árið 1875 og hélst þar í árlegum útgáfum þess allt til ársins 1970. Absalon var ekki dýrlingur í formlegum skilningi, heldur erkibiskup og einn af þeim sem lögðu grunninn að þjóðríkjum hinna norrænu miðalda – maður sem tengdi saman trú og vald, kirkju og ríki, menningu og stjórnvald.

Frá ættarveldi til ríkisvalds
Á tímum Absalons, sem var uppi á árunum frá um 1128 til 1201, var Danmörk enn að mótast úr ættarveldum sem börðust um völd og áhrif. Hver héraðshöfðingi hafði eigin vígi og hersveitir, og konungsvald var brothætt og bundið persónulegum tryggðum. Kirkjan hafði þó, í krafti skipulags síns og lærdóms, þá getu að hugsa á stærri skala – hún var fyrsta stofnunin sem starfaði yfir ættir, og þar óx ný hugsun um sameiginlegt ríki og ábyrgð.

Þessi þróun hafði þegar hafist sunnar í Evrópu. Konungar eins og Klóvis í Frakklandi og Ethelbert í Englandi höfðu tekið kristni löngu áður og þannig orðið hluti af stærra siðmenningarlegu og guðfræðilegu neti. Með kristninni fengu þeir nýtt tungumál valdsins: þeir gátu nú ríkt í umboði Guðs, lagt áherslu á réttlæti og frið í stað drottnunar með sverði. Á Norðurlöndum hófst þessi umbreyting á 11. öld þegar  menn byrjuðu að sjá ríkið og lögin sem það verndaði, ekki sem róstusamt ættarveldi, heldur sem réttlátt samfélag byggt á lögum, guðsríkið sem Jesús Kristur talar um.

Frá Knúti til Absalons
Í Danmörku varð þessi umbreyting bersýnileg undir stjórn tveggja konunga sem báru sama nafn – Knúts mikla og heilags Knúts – sem sinntu hvor sínum hlut í mótun kristins ríkisvalds. Knútur mikli (um 995–1035), sonur Sveins tjúguskeggs, byggði upp norrænt stórveldi sem náði yfir England, Danmörku og Noreg. Hann var kristinn konungur sem notaði trúna til að styrkja stjórn og lög, en var þó fyrst og fremst byggingarmaður ríkisins og hernaðarstjórnandi. Um hálfri öld síðar ríkti heilagur Knútur (Knútur IV, d. 1086), sem helgaði það sem Knútur mikli hafði hafið: hann styrkti stöðu kirkjunnar, setti reglur um kirkjuskatt og skipulagði ríkið í samvinnu við trúarstofnanir. Knútur helgi féll í uppreisn og var drepinn í kirkjunni í Óðinsvéum, en var tekinn í tölu heilagra árið 1101.

Knútur mikli byggði upp ríkisvaldið, heilagur Knútur helgaði vald konungs, og Absalon erkibiskup ásamt Valdemar I „hinum mikla“ (1131–1182) fullmótuðu það sem stofnun. Eftir daga heilags Knúts varð aftur óróasamt í Danmörku. Ættir og héraðshöfðingjar börðust, og konungar sátu stutt. Kristnin hafði rutt sér til rúms, en ríkisvaldið var ótraust. Þegar Valdemar mikli komst til valda um miðja 12. öld, hafði kirkjan þó varðveitt skipulag og lærdóm og var orðin eina stofnunin sem starfaði á landsvísu og gat veitt ríkinu stuðning. Það er á því sviði sem Absalon biskup og síðar erkibiskup stígur fram.
 

Erkibiskup, herforingi og hugsuður
Absalon fæddist um árið 1128 af Hvid-ættinni á Sjálandi og ólst upp í heimi þar sem trú og vald voru að endurskilgreinast. Frá unga aldri naut hann menntunar og lærði síðar í París, þar sem hann komst í kynni við nýjar hugmyndir um lög, kirkjuvald og stjórnskipan. Þegar hann sneri heim varð hann nánasti vinur og ráðgjafi hins unga Valdemars I konungs, sem síðar hlaut viðurnefnið „hinn mikli“. Vinátta þeirra varð burðarás í þeirri umbreytingu sem umbreytti Danmörku úr því að vera ættarveldi sterkustu höfðingjaættarinnar í það að vera ríki sem byggði réttlætingu sína á varðveislu ákveðinna grunngilda.

Absalon var vígður biskup í Roskilde árið 1158 og síðar erkibiskup í Lundi frá 1178. En hann var ekki maður sem lokaði sig inni í klaustri. Hann tók sjálfur þátt í sjóorrustum við Eystrasalt, stýrði flota Danmerkur undir merki krossins með sverðið að vopni, og varð þannig í senn bæði herforingi og trúmaður. Hann hafði þann skilning að ríki sem vilji lifa þurfi bæði lög og anda – vald sem byggist á réttlæti, ekki aðeins á vopnum. Það var á þessum árum sem krossinn varð hið sýnilega tákn danska ríkisins, löngu áður en þjóðsagan sagði hann hafa fallið af himni við Lyndanisse.

Undir stjórn Absalons og Valdemars hófst sú sameining sem lagði grunn að danska ríkinu. Kirkjan varð að hugmyndafræðilegri undirstöðu ríkisvaldsins – og ríkisvaldið varð í senn verndari kirkjunnar og þjóðarinnar. Absalon lét reisa kirkjur og klaustur, hvatti til menntunar og ritaðra laga, og þannig varð trúin að skipulagslegum ramma fyrir samfélagið. Hann studdi einnig við ritun sögunnar sjálfrar, því hann hvatti Saxo Grammaticus til að skrifa Gesta Danorum, hina miklu sögu Dana sem varð lykilverk í norrænni menningararfleifð.

Saxo lýsir vini sínum og verndara með þessum orðum: „Absalon var sá sem bar krossinn á skildi sínum, hugrakkur í orrustu, réttsýnn í dómum og hógvær í ráðgjöf.“ Þannig birtist hann sem maður hugar og handa, trúarinnar og stjórnsýslunnar, og tákn um þá samstöðu sem myndaði eina heild úr landi sem áður var klofið í ættarveldi.

Faðir Kaupmannahafnar
Ef einhver einn maður getur með réttu kallast faðir Kaupmannahafnar, þá er það Absalon erkibiskup. Elsta heimild um borgina er frá 1167, þegar sagt er að Absalon hafi reist virki á eyjunni Slotsholmen, þar sem nú stendur Kristjánsborgarhöll. Virkinu var ætlað að verja kaupmenn sem versluðu við sundið milli Sjálands og Amager, og staðurinn fékk fljótt nafnið Købmændenes havn – höfn kaupmannanna. Þar með var lagður grunnur að borg sem síðar varð hjarta og helsta stjórnsýslusetur Danmerkur.

Absalon sá að valdamiðja Danmerkur hverfðist um Eyrarsund, milli Sjálands og Skánar, og að stjórnarsetur landsins þurfti að tryggja yfirráð þar sem sjóleiðir og verslun lágu saman. Með virki á þessum stað tryggði hann bæði öryggi og efnahag: hann verndaði sjóleiðir, efldi verslun og tryggði tolltekjur konungs. Í kringum virkið myndaðist markaðsstaður sem smám saman óx í kaupstað – og varð að borg. Þegar Erik af Pommern tók yfir virki Absalons á Slotsholmen árið 1417, varð Kaupmannahöfn í reynd að höfuðborg Danmerkur..

Í þjóðsögunni lifir Absalon áfram sem verndari borgarinnar. Stytta af honum með sverð og kross stendur nú við Biskupshlið Kristjánsborgar, og þegar Ráðhúsið var reist um 1900 var mynd hans sett yfir innganginn. Hann er þannig í bókstaflegum skilningi andlit borgarinnar – minningin um þann sem skapaði hana. Þótt margir hafi síðar lagt sitt af mörkum við að byggja borgina, þá var það Absalon sem átti hugmyndina og hóf verkið. Enginn annar norrænn kirkjumaður hefur tengst jafn beint stofnun höfuðborgar þjóðar. Því má með fullum rétti segja að Absalon sé faðir Kaupmannahafnar – og að virki hans á Slotsholmen hafi verið fyrsta steinlagða hjarta borgarinnar sem lifir enn. Í þessu sambandi er vert að rifja upp að Kaupmannahöfn var höfuðborg Íslands allt frá tímum Kalmarsambandsins til ársins 1918 og að þróun og staða ríkisvaldsins í Danmörku hafði mikil áhrif á hugmyndir Íslendinga um eigið þjóðríki. 

Arfleifð og gildi
Þegar Absalon lést árið 1201, eftir nær hálfa öld í þjónustu Guðs og ríkisins, syrgði allt landið hann. Hann var jarðsettur í klaustrinu í Sorø, þar sem gröf hans er enn í dag tákn um sameiningu trúar og þjóðar. Aldrei var hann tekinn í tölu heilagra, en í hugum Dana lifði hann sem verndari lands og kirkju, og þess vegna hélt nafn hans áfram að birtast í almanökum öldum saman – og með tímanum líka í því íslenska.

Hin yfirlætislausa nafn í þjóðvinafélagsalmanakinu hinn 30. október, Absalon, var því minning um mann sem stóð milli tveggja heima: kirkjunnar og ríkisins, hins heilaga og hins mannlega. Absalon er lifandi staðfesting þess að heilög hugsjón getur orðið að jarðnesku verki – að hin andlega borg Drottins getur þurft á vernd hinna ytri jarðnesku múra að halda. 

Þegar hugmyndir Absalons um að ríki sem vilji lifa þurfi bæði lög og anda eru skoðaðar, sjáum við í þeim spegil nútímans. Þegar fjölskylduböndunum sleppir eða fólk hættir að sýna þeim virðingu taka gildin við. Við tölum í dag um gildi, um þau menningarlegu og siðferðilegu gildi sem samfélagið þarf að byggja á til að halda sjálfu sér saman. Hjá Absalon hétu þau gildi andi og réttlæti, og voru grundvöllur trúar og stjórnarfars. Munurinn er aðeins orðræðan – inntakið er hið sama. Samfélag þjóðar sem horfir ekki lengur á sig sem ættbálk, sem skortir skilning á eigin uppruna, sögu og anda, verður brothætt, sama á hvaða öld það er uppi. Í þessum skilningi stendur arfleifð Absalons erkibiskups enn þrátt fyrir að nafn hans hafi nú í 55 ár verið afmáð úr almanakinu. 
 

Absalon erkibiskup – guðsmaður, ríkisráðsherra og faðir Kaupmannahafnar - 30. október

Absalon erkibiskup - faðir Kaupmannahafnar Í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags stóð allt frá árinu 1875 og fram til ársins 1970 nafnið ...