![]() |
Faðir Róbert Bradshaw fyrsti sóknarprestur Maríusóknar í Breiðholti |
Hinn 23. september 1993 lést faðir Róbert Bradshaw á sjúkrahúsi í Krasnoyarsk í Síberíu. Hann var kaþólskur prestur sem þjónaði á Íslandi frá 1976 til 1992. Hér á landi var hann alltaf kallaður 'faðir Róbert'.
Róbert Bradshaw fæddist í Tipperary á Írlandi 6. júlí 1929. Hann nam guðfræði í Maynooth og var vígður til prestsþjónustu árið 1955. Hann starfaði fyrst á Írlandi, þjónaði síðar innflytjendum í London, en kom svo til Íslands árið 1976. Hann starfaði fyrst í Landakoti en fluttist 1978 í Breiðholt þar sem hann þjónaði í í 9 ár. Hann bjó í þá nýbyggðu raðhúsi að Torfufelli 42 og lét innrétta kapellu í kjallaranum. Auk þess að vera prestsbústaður var þar einnig miðstöð starfs Maríulegíónarinnar, írskrar leikmannahreyfingar sem faðir Róbert starfaði mikið með. Stofnandi hreyfingarinnar Frank Duff hafði frumkvæði að því að fá föður Róbert til að starfa á Íslandi.
Í Torfufelli 42 hélt faðir Róbert reglulega kynningarfundi um kaþólska trú og skipulagði starf Maríulegíónarinnar sem fólst í trúfræðslu og heimsókum til fólks aðallega. Fljótlega eftir komuna í Breiðholt hóf hann reglulegt messuhald í félagsmiðstöðinni Fellahelli. Síðar gekkst faðir Róbert fyrir fjársöfnun á Írlandi og fyrir það fé, og með stuðningi Bonifatiuswerk var Maríukirkja byggð við Raufarsel 4 og síðar safnaðarheimilið og prestbústaðurinn að Raufarseli 8. Eitt af síðustu verkum föður Róberts í Breiðholti var einmitt að vígja nýja safnaðarheimilið og prestbústaðinn. Við það tækifæri bað hann að þaðan mættu fara trúboðar til endimarka jarðarinnar. Frá Breiðholti lá leið föður Róberts til Akureyrar þar sem hann var sóknarprestur síðustu ár sín á Íslandi.
Árið 1992 rættist gamall draumur föður Róberts um að fá að starfa í Rússlandi og fór hann þangað til starfa haustið 1992. Hann starfaði í Novosibirsk og Krasnoyarsk í Síberíu þar sem hann andaðist 23. september 1993, aðeins 64 ára gamall.
Tilvitnun
„Trúr til dauða“ var orðalag sem Torfi Ólafsson formaður Félags kaþólskra leikmanna notaði um föður Robert í minningargrein* sem birtist í Morgunblaðinu 5. október 1993. Faðir Róbert unni sér lítillar hvíldar og lagði allt líf sitt í þjónustu trúarinnar.
Lærdómur
Saga föður Róberts minnir okkur á að fagnaðarerindið á sér ekki landamæri. Hann fór þangað sem þörfin var mest – til innflytjenda í London, til Íslands og til fámennra safnaða í Síberíu. Líf hans kennir okkur að trúfesti og einfaldleiki geta orðið vitnisburður sem lifir áfram í hjörtum fólks.
Bæn
Guð, þú sem kallar þjóna þína til að bera fagnaðarerindið út til endimarka jarðar, við þökkum þér fyrir föður Robert Bradshaw. Gefðu okkur sama kjark og trúfesti að fylgja köllun okkar í lífinu. Lát hann hvíla í friði í ljósi dýrðar þinnar. Amen.
--
* Morgunblaðið, 225. tbl. 5.10.1993, bls. 41
--
Pistill í vinnslu.