![]() |
| Hilarius Pictaviensis – Hilaríus frá Poitiers, biskup og kirkjufræðari á 4. öld |
Á fjórðu öld, þegar kirkjan stóð frammi fyrir einni dýpstu trúarlegu krísu sinni, reis upp biskup sem sameinaði fræðilega dýpt og hirðislega ábyrgð. Heilagur Hilaríus frá Poitiers varð í Vesturkirkjunni sá sem helst barðist fyrir því að halda fast við Níkeujátninguna: að Jesús Kristur sé sannur Guð, af sömu veru og Faðirinn. Hann var ekki fæddur inn í kristna hefð, heldur fann trúna með leit, námi og íhugun — og varð síðan óþreytandi játari hennar.
Æviágrip
Heilagur Hilaríus fæddist í Poitiers í Gallíu um árið 315, inn í vel stæða og heiðna fjölskyldu. Hann naut vandaðrar klassískrar menntunar og ólst upp í fjölgyðistrú, en vitnar sjálfur síðar um hvernig Guð leiddi hann smám saman til þekkingar á kristinni trú. Á fullorðinsárum tók hann skírn, eftir langa íhugun á Ritningunni og eðli Guðs.
Um fertugt var Hilaríus kjörinn biskup í heimaborg sinni, þótt kona hans væri enn á lífi og hann ætti dóttur, Apra að nafni. Hann reyndi að komast undan kjörinu, en auðmýkt hans og mannkostir gerðu það einungis að verkum að fólkið krafðist hans enn eindregnar. Sem biskup varð hann fljótt þekktur fyrir óbilandi andstöðu sína við aríanismann, sem hann taldi ógna sjálfum kjarna trúarinnar.
Árið 356 var Hilaríus sendur í útlegð til Frygíu að skipan keisarans Konstantínusar II. Sú ákvörðun varð vendipunktur í lífi hans og hafði djúpstæð áhrif á guðfræðilega arfleifð hans. Frýgía var fornt landsvæði í Litlu-Asíu, í miðhluta Tyrklands í dag, og var á 4. öld eitt þeirra svæða þar sem guðfræðilegar deilur kirkjunnar voru hvað mestar. Keisarar þess tíma sendu biskupa oft í útlegð innan kirkjuheimsins, ekki út fyrir hann, til að slíta þá úr sínu pólitíska og félagslega samhengi, einangra þá sem áhrifavald, en jafnframt halda þeim undir eftirliti. Slík útlegð var því ekki aðeins refsing, heldur einnig stjórntæki í baráttunni um einingu ríkis og kirkju
Konstantínus II keisari og aríanisminn
Sá keisari sem sendi heilagan Hilaríus í útlegð var Konstantínus II, sonur Konstantíns mikla. Eftir dauða föður síns árið 337 tók hann við stjórn austurhluta Rómaveldis og varð smám saman áhrifamesti keisari síns tíma. Ólíkt Konstantíni mikla, sem hafði stutt Níkeuþingið árið 325 og játningu þess um guðdóm Krists, leit Konstantínus II á trúardeilur kirkjunnar fyrst og fremst sem pólitískt vandamál sem ógnaði einingu ríkisins.
Konstantínus II var ekki sjálfur formlega fylgjandi kenningu Aríusar, en studdi aríanska og hálf-aríanska biskupa sem vildu veikja eða endurtúlka játningu Níkeu um að Sonurinn væri af sömu veru (homoousios) og Faðirinn. Hann taldi slíkar málamiðlanir nauðsynlegar til að tryggja frið í kirkjunni og beitti keisaravaldi sínu til að þrýsta á biskupa að fallast á þær.
Í þessu samhengi varð Hilaríus vandræðamaður í augum keisarans. Hann neitaði að fordæma Aþanasíus frá Alexandríu, helsta varnarmann Níkeujátningarinnar, og skrifaði keisaranum sjálfum þar sem hann hvatti hann til að láta kirkjuna ráða trúarmálum sínum. Fyrir þessa óbilandi afstöðu var Hilaríus sendur í útlegð árið 356.
Útlegðin var ætluð til að þagga niður í rödd sem stöðugt „truflaði friðinn“, en varð þess í stað einn frjósamasti tími í lífi Hilaríusar. Þar mótaðist guðfræði hans af enn meiri dýpt, og þar samdi hann áhrifamestu rit sín.
Ritstörf, endurkoma og síðari ár
Í útlegðinni kynntist Hilaríus guðfræði austurkirkjunnar og dýpkaði skilning sinn á grískri hugsun. Þar samdi hann stórvirki sitt Um Þrenninguna, eitt mikilvægasta guðfræðirit latnesku kirkjunnar, auk ritaskýringa við Matteusarguðspjall og Sálmana. Hann er jafnframt talinn meðal hinna fyrstu í Vesturkirkjunni til að semja sálma á latínu.
Eftir heimkomu sína um árið 360 lagði Hilaríus sig fram um að endurreisa aga, einingu og frið í kirkjunni í Gallíu. Hann tók virkan þátt í kirkjuþingum, beitti sér gegn áframhaldandi áhrifum aríanisma og varð í augum margra þekktur sem „Aþanasíus Vesturlanda“. Hann hélt áfram að berjast fyrir rétttrúnaði með riti og ræðu allt til æviloka.
Hann lést í Poitiers árið 367 eða 368. Hann var tekinn í tölu heilagra með almennri viðurkenningu eins og tíðkaðist þá, löngu áður en formlegt ferli slíkra mála varð til. Árið 1851 var hann lýstur kirkjufræðari af Píusi IX páfa.
Tilvitnun
(Úr prédikun heilags Hilaríusar biskups, Um Þrenninguna)
„Ég veit, almáttugur Guð og Faðir, að í lífi mínu skulda ég þér nokkuð sem mér ber að gjöra. Það er að láta allar mínar hugsanir og orð segja frá þér.
Þegar vér þenjum segl fastrar trúar og opinberrar játningar á þig, fylltu þau með andardrætti Anda þíns til að knýja oss áfram þegar vér leggjum í leið vora að kunngjöra sannleika þinn.“
(Ísl. þýðing Tíðabænabókarinnar)
Lærdómur
Heilagur Hilaríus minnir okkur á að trúin krefst bæði hugsunar og trúfesti. Hann var hvorki einungis fræðimaður né aðeins kirkjulegur stjórnandi, heldur hirðir sem skildi að orð kirkjunnar verða að vera sönn, jafnvel þegar þau ganga gegn valdi og tíðaranda. Í honum sjáum við að guðfræði er ekki til þess að vinna rökræður, heldur til að þjóna opinberun Guðs.
Saga útlegðar hans kennir einnig að Guð getur notað mótlæti til að dýpka skilning og styrkja vitnisburð. Þar sem keisaravaldið vildi þagga niður rödd hans, varð hún einmitt skýrari og áhrifameiri.
Bæn
Guð, almáttugi Faðir,
þú sem leiddir heilagan Hilaríus
frá leit til trúar og frá trú til vitnisburðar,
gef oss náð til að leita sannleikans af heilindum
og standa fast þegar reynir á.
Fyll hjörtu vor Anda þínum,
svo orð vor og verk
megi bera vitni um þig,
Föður, Son og Heilagan Anda,
nú og um aldir alda.
Amen.
