29 mars 2024

Föstudagurinn langi - samstöðudagur með einmana, syrgjendum og þjáðum

Þakkir: pexels.com
Sum okkar sniðganga Föstudaginn langa með einum eða öðrum hætti og hyggja fremur að þeim skemmtunum sem í boði eru á þessum degi. Frá sjónarhóli þeirra sem glíma við efasemdir um trúna mætti samt líta á Föstudaginn langa sem samstöðudag með þeim sem eru einmana, syrgja eða þjást og þeirra þarf ekki alltaf að leita langt. Sorg og þjáningu er víða að finna í okkar samfélagi en samt ekki alltaf greinilega því mörg kjósum við að bera erfiðar tilfinningar í hljóði. Mörg eiga t.d. vin eða ættingja  sem býr einn eða á hjúkrunarheimili og myndi þiggja símtal eða heimsókn.  Víðsýnt og góðviljað fólk sem tekst á við efasemdir ætti að geta tekið undir nauðsyn þess að huga að þessum málum, leyfa jafnvel Guði að njóta vafans og tala við hann innra með sér. 

Það er löng hefð fyrir því í okkar menningu að leita kyrrðarinnar til að leggja stund á innri skoðun. Á föstudaginn langa minnast kristnir þess að þann dag þjáðist Kristur á krossinum og því er ekki óviðeigandi að nota bænadagana til að rannsaka hugann og samviskuna, horfa inn á við og viðurkenna mistök eða freistingar. Flest ættu að geta haft gott af þannig innri skoðun hvort sem hún er gerð á trúarlegum forsendum eða ekki. 

Hinar innri freistingar eru oft nálægar en samt ekki alltaf vel greinilegar. Í föstuboðskap sínum tiltók Frans páfi nokkrar þeirra: 

„Að vera almáttug, fyrirmynd sem allir líta upp til, að drottna yfir öðrum: sérhver mannvera er meðvituð um hversu djúpstæð og freistandi þessi lygi getur verið. Það eru vel þekkt sannindi. Við getum orðið háð gildum eins og peningum, ákveðnum verkefnum, hugmyndum eða markmiðum, stöðu okkar, hefðum, jafnvel ákveðnum einstaklingum. Og í stað þess að hjálpa okkur að ná lengra, hefta þau  okkur. Í stað þess að færa okkur nær hvert öðru, sundra þau okkur.“ [1]

RGB/29.3.2024

21 mars 2024

30. ártíð dr. Alfreðs Jolson biskups

Dr. Alfred James Jolson S.J.
Reykjavíkurbiskup
Fæddur 18. júní 1927
Prestvígsla 14. júní 1958
Biskupsvígsla 6. febrúar 1988
Dáinn 21. mars 1994
30. ártíð dr. Alfreðs Jolsons biskups er í dag 21. mars en hann andaðist þennan dag árið 1994. Hann naut þess að blanda geði við fólk, mynda vinasambönd og átti vini og kunningja víða sem hann heimsótti gjarnan. Andlát hans bar að eftir skamma sjúkrahúsdvöl í kjölfar hjartaáfalls sem hann fékk á ferðalagi í Bandaríkjunum og var það óvænt þrátt fyrir að hann væri á 66. aldursári.

Alfreð biskup hratt í framkvæmd ýmsum umbótum innan Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Meðal þess sem hann beitti sér fyrir var þjónusta við innflytjendur og ferðamenn í formi reglulegs messuhalds á ensku, stofnuð var Íslandsdeild Caritas hjálparsamtakanna, hann stuðlaði að réttarbótum varðandi hjónabandsógildingar með því að senda prest í nám í kirkjurétti í Róm, beitti sér fyrir stofnun Kaþólska kirkjublaðsins og tölvuvæðingar biskupsstofunnar. 

Eftir andlát hans fundust í fórum hans drög að verklagsreglum um málsmeðferð vegna mála um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum af hálfu vígðra þjóna, sem talið er að hann hafi komið með frá Bandaríkjunum. Í drögunum er meðal annars lögð áhersla á þverfaglega samvinnu, vandaða rannsókn mála og viðbrögð, þar með talið ítarlega skráningu og varðveislu upplýsinga um meðferð
allra mála þar sem grunsemdir vakna um ofbeldisbrot. Því miður vannst honum ekki aldur til að hrinda þessum reglum í framkvæmd. 

Meðal merkra athafna sem hann leiddi var hátíðarmessa haldin í Skálholti sumarið 1993 í tilefni af 800. ártíð Þorláks helga sem og vígsla st. Jósefskirkju í Hafnarfirði sama haust. Þegar kista hans var borin til kirkju hringdu kirkjuklukkur Dómkirkju Krists konungs óvænt og vakti þetta nokkra athygli. Morgunblaðið greinir t.d. frá þessu á bls. 2 í 76. blaði frá 6.4. 1994. Þar segir:

 „Kirkjuklukkur Landakotskirkju fóru að hringja af einhverjum óútskýrðum orsökum á mánudeginum í síðustu viku, daginn sem Afred Jolson biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi var jarðaður. Klukkurnar hringdu einnig tvo daga á eftir. Ekki er vitað til þess að klukkurnar hafi hagað sér svona áður.“

Á minningarspjaldi sem gert var skömmu eftir andlát hans var þessi bæn:

Drottinn, þú gerðir Alfred biskup vorn
að þjóni þínum og fólst honum
leiðsögn fjölskyldu þinnar.
Gef að hann megi njóta ávaxta
verka sinna og eignist hlut
í eilífri gleði þinni.
Hann hvíli í friði. 

Ef vera kynni að lesendur telji sig hafa fengið bænasvar og þakka það meðal annars að Alfreð biskupi hafi verið falin fyrirbæn, og vilja deila þeim upplýsingum þá má hringja í síma 896 5768 eða senda tölvupóst á ragnargeir@hotmail.com. 

13 mars 2024

40 ár síðan Karmelnunnur komu að nýju til Íslands

 


Á hátíð heilags Jósefs, þriðjudaginn 19. mars næstkomandi eru 40 ár liðin frá því að núverandi Karmelnunnur komu til Íslands. Áður höfðu hollenskar nunnur dvalið í klaustrinu frá 1946 til 1983. Í sögu klaustursins sem birt er á heimasíðu þess kemur eftirfarandi fram:  

„19. mars 1984 rann svo stóra stundin upp. 16 nunnur héldu til Íslands frá Póllandi. Þær yfirgáfu heimaland sitt til að biðja fyrir Íslendingum í nýju og framandi landi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Í ágúst þetta sama ár gladdi frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti lýðveldisins nunnurnar með komu heimsókn sinni í klaustrið og bauð þær velkomnar til Íslands.“

Í tilefni af þessum tímamótum bjóða systurnar til heilagrar þakkargjörðarmessu í kapellunni að Ölduslóð 37 í Hafnarfirði. Messan hefst kl. 8.00 þriðjudaginn 19. mars. 

13 febrúar 2024

„Guð er ekki þreyttur á okkur“

Frá Skagafirði. Ljósmynd: Pexels

Á morgun öskudag hefst fastan. Frans páfi segir m.a. í föstuboðskap sínum: 

„Guð er ekki orðinn þreyttur á okkur. Við skulum fagna föstunni sem hinni miklu hátíð þegar hann minnir okkur á að „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu“ (2M 20:2). Fastan er tími umbreytinga, tími frelsis. Jesús sjálfur, eins og við minnumst á hverju ári fyrsta sunnudag á föstutíma, var hrakinn út í eyðimörkina af Andanum til þess að freistast í frelsi. Í fjörutíu daga mun hann standa frammi fyrir okkur og með okkur: Sonurinn sem varð hold. Ólíkt faraó vill Guð ekki þegna, heldur syni og dætur. Eyðimörkin er staður þar sem frelsi okkar getur þroskast í persónulegri ákvörðun um að falla ekki aftur í þrældóm. Í föstunni finnum við ný viðmið réttlætis og samfélags sem við getum fylgt eftir braut sem hefur ekki enn verið fetuð.

04 janúar 2024

Fundir leikmannareglunnar


Komið sæl og gleðilegt ár!

Meðlimir Leikmannareglu Karmels hittast einu sinni í mánuði í Karmelklaustrinu, biðja tíðabænir og lesa kristin trúarrit. Þessar samkomur eru opnar fólki utan reglunnar sem áhugasamt er um andleg málefni, tíðabænir eða kristna íhugunarbæn og er kaþólsk trú ekki skilyrði fyrir þátttöku. Uppl. gefur Ragnar í síma 896 5768 eða í tölvupósti: ragnargeir@hotmail.com. Á myndinni eru frá vinstri: Hildur Sigurbjörnsdóttir, Jónas Sen, Ragnar Geir Brynjólfsson og Ágúst Elvar Almy.

28 ágúst 2023

Hátíð heilagrar Maríu meyjar frá Jasna Góra

Eftirmynd helgimyndarinnar í Jasna Góra sem nú er í kapellu Karmelklaustursins í Hafnarfirði

Laugardaginn 26. ágúst síðastliðinn var haldin í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði hátíð verndardýrlings klaustursins; heilagrar Maríu meyjar frá Jasna Góra. Jasna Góra (Bjartafjall) er klaustur staðsett skammt frá bænum Częstochowa í Póllandi, rúmlega 200 þúsund manna borgar í suðurfjöllum Póllands. 

Í klaustrinu í Jasna Góra er íkon (helgimynd) heilagrar Maríu meyjar sem nýtur mikillar virðingar. Fjöldi fólks fer í pílagrímsferðir til klaustursins til að biðjast fyrir, jafnvel á árum síðari heimsstyrjaldar þegar öll ferðalög voru hættuleg fór fólk í einkaferðir til Jasna Góra. 

Klaustrið var stofnað árið 1382 og skv. helgisögn kom íkonið þangað tveim árum síðar. Helgisögn hermir að hl. Lúkas guðspjallamaður hafi málað myndina á borðplötu úr heimili hinnar Heilögu Fjölskyldu. Í óeiginlegri merkingu má a.m.k. segja að hl. Lúkas Guðspjallamaður hafi dregið upp skýra mynd af Maríu mey í guðspjalli sínu. 

23 júlí 2023

„Drottni þekkur ilmur“

Systir Agnes í Karmelklaustrinu kom fram í útvarpsþætti á Rás 1 sem fluttur var 22. júlí sl. Þar var hún spurð um hlutverk lyktar í Kaþólsku kirkjunni og hvernig trú og lykt tengist. Þar er m.a. minnst á á ilm af reykelsi og af helgum dómum.  Þátturinn er aðgengilegur á hlaðvarpi Rúv til 22. júlí 2024. Viðtalið við systur Agnesi hefst þegar 3 mínútur og 10 sekúndur eru liðnar af þættinum, hægt er að smella á eftirfarandi tengil til að finna þáttinn: 

https://www.ruv.is/utvarp/spila/thefvarpid/34099/a5661k


Föstudagurinn langi - samstöðudagur með einmana, syrgjendum og þjáðum

Þakkir: pexels.com Sum okkar sniðganga Föstudaginn langa með einum eða öðrum hætti og hyggja fremur að þeim skemmtunum sem í boði eru á þess...