21 október 2025

Nýir dýrlingar – tákn vonar og trúfesti

Páfi ávarpar þátttakendur eftir messuna (Mynd: Vatican news)

Síðastliðinn sunnudag, hinn 19. október 2025 tók Leó páfi XIV tók sjö karla og konur í tölu heilagra við hátíðlega messu á Péturstorginu. Í ávarpi sínu eftir messuna lýsti hann þeim sem „skærum táknum vonar“ og dæmum um þá algildu köllun sem allir kristnir menn eiga hlutdeild í – kölluninni til heilagleikans.

„Samfélag kirkjunnar nær yfir allt rými og allan tíma,“ sagði páfinn. „Í hverju tungumáli og hverri menningu erum við ein þjóð Guðs, líkami Krists og lifandi musteri Heilags anda.“

18 október 2025

Heilagur Lúkas, guðspjallamaður - verndardýrlingur lækna og listamanna - minning 18. október

Heilagur Lúkas guðspjallamaður

Heilagur Lúkas er höfundur þriðja guðspjallsins og Postulasögunnar. Páll postuli kallar hann „hinn elskaða lækni“ (Kól 4,14). Samkvæmt Eusebiosi kirkjusagnaritara var Lúkas ættaður frá Antíokkíu og heiðingi að uppruna. Þetta skýrir þá sérstöku næmni sem hann sýnir fyrir heiðingjum og utangarðsfólki í frásögnum sínum.

Æviágrip
Við vitum ekki nákvæmlega hvenær Lúkas tók trú, en af Postulasögunni má ráða hvenær hann gekk til liðs við Pál. Fyrir 16. kafla er frásögnin í þriðju persónu, en eftir sýn Páls af manni frá Makedóníu færist frásögnin í fyrstu persónu fleirtölu: „leituðum við færis að komast til Makedóníu“ (Post 16,9–10). Það bendir til þess að Lúkas hafi þá gengið til liðs við Pál og síðan fylgt honum um Samóþrakíu, Neapólis og Filippí. Síðar verður frásögnin aftur í þriðju persónu og virðist Lúkas þá hafa orðið eftir í Filippí. Sjö árum síðar liggja leiðir þeirra aftur saman og Lúkas fer með Páli til Míletusar, Tróas, Sesareu og Jerúsalem. Þegar Páll er síðan í haldi í Róm um árið 61 stendur Lúkas við hlið hans. Í lok fangelsisvistarinnar skrifar Páll: „Lúkas er einn hjá mér“ (2Tím 4,11).

17 október 2025

Heilagur Ignatíus frá Antiokkíu – píslarvottur og Theophoros, „Guðsberi“ - minning 17. október

Heilagur Ignatíus frá Antiokkíu

Heilagur Ignatíus, biskup frá Antiokkíu í Sýrlandi, var einn af fyrstu leiðtogum kristinnar kirkju eftir tíma postulanna. Hann kallaði sjálfan sig Theophoros – „Guðsbera“ – því hann taldi sig bera Krist í hjarta sínu og í líkama sínum. Hann var samtímamaður og vinur heilags Pólýkarps frá Smyrnu, sem samkvæmt sögnum Íreneusar frá Lyon var lærisveinn heilags Jóhannesar postula. Þannig stóð Ignatíus í beinum andlegum tengslum við arfleifð postulanna og varð lifandi brú milli Jóhannesar postula og guðspjallamanns og hinnar uppvaxandi kirkju annarrar aldar.

16 október 2025

Heilög Heiðveig, reglusystir og hertogaynja Póllands - minning 16. október

Heilög Heiðveig, reglusystir og hertogaynja Póllands

Heilög Heiðveig af Sílesíu 1174–1243, fæddist í Bæjaralandi og var gefin ung að aldri Hinriki hertoga af Neðri-Sílesíu, sem kallaður var „hinn skeggjaði“. Þau hjón eignuðust sex börn og hjónaband þeirra einkenndist bæði af ábyrgð og trúarlegri samstöðu.

Heiðveig fylgdi eiginmanni sínum í stjórnunarstörfum, en bar um leið í hjarta sér djúpa samkennd með hinum fátæku og þjáðu. Hún lét ekki tign sína eða auðæfi fjarlægja sig frá þeim, heldur sýndi auðmýkt í orði og verki. Hún var ekki of stolt til að klæðast gömlum fötum og notuðum skóm. Hún vildi ekki greina sig um of frá fátækum, því, eins og hún sagði sjálf: „Þau eru meistarar okkar.“

15 október 2025

Heilög Teresa af Jesú, Karmelnunna og kirkjufræðari - minning 15. október

Heilög Teresa af Jesú, Karmelnunna og kirkjufræðari

Heilög Teresa af Jesú, einnig nefnd Teresa frá Ávila, er ein skærasta stjarna Karmelreglunnar og allrar kristinnar dulhyggju. Hún var kona sem sameinaði djúpa trú, mikla skáldskapargáfu og óvenjulegan kjark. Í henni bjó eldur kærleikans sem hreinsaði, lýsti og umbreytti. Líf hennar var eins og ferðalag inn í hinn innri kastala sálarinnar — leið sem hún lýsti af skýru innsæi og mannlegri hlýju.

Æviágrip
Teresa de Cepeda y Ahumada fæddist í Ávila á Spáni árið 1515, dóttir Gyðings sem hafði tekið kristna trú og annarrar konu hans. Hún ólst upp í glaðværri fjölskyldu og elskaði riddarasögur og ævintýri. En eftir að hún missti móður sína og síðar elskaðan bróður sinn varð trúarleg leit hennar dýpri. Hún gekk í karmelklaustur í Ávila árið 1536, þrátt fyrir andstöðu föður síns, og sór klausturloforð 3. nóvember 1537.

14 október 2025

Heilagur Kalixtus I – Páfi og píslarvottur - minning 14. október

Heilagur Kalixtus I páfi og píslarvottur

Heilagur Kalixtus I (eða Callixtus) var páfi frá árinu 217 til 222. Hann fæddist sem þræll í Róm og gekk í gegnum miklar þjáningar áður en hann varð leiðtogi kirkjunnar. Hann var dæmdur í námuþrælkun á Sikiley, en losnaði úr ánauð og var tekinn í þjónustu af Zephyrinusi páfa. Með tímanum varð hann einn áhrifamesti skipuleggjandi kristinna grafreita, og það var hann sem stofnaði hina víðfrægu katakombu páfanna við Via Appia, sem enn í dag ber nafn hans – Katakomba Kalixtusar. Þar voru margir fyrstu páfarnir jarðsettir, og þar má enn sjá einfaldar grafir sem bera vitni um trúfesti og von hinna fyrstu kristinna manna.

12 október 2025

Leó páfi XIV: Kærleikur til fátækra má ekki aðskiljast frá trúnni


Postullegt vakningarbréf Dilexi te kallar kirkjuna til nýrrar samkenndar

Á minningardegi heilags Frans frá Assisí, 4. október 2025, gaf Leó páfi XIV út sitt fyrsta postullega vakningarbréf, sem ber titilinn Dilexi te – „Ég hef elskað þig“ (Opb 3,9).

Bréfið er í beinu framhaldi af bréfi Páfa Frans, Dilexit nos, um kærleika Hjarta Jesú, og byggir á drögum sem hinn látni páfi hafði undirbúið síðustu mánuði ævi sinnar. Leó páfi gerir bréfið að sínu, bætir við hugleiðingum um trú og fátækt og leggur áherslu á að kærleikur til Guðs og kærleikur til fátækra séu óaðskiljanleg.

Nýir dýrlingar – tákn vonar og trúfesti

Páfi ávarpar þátttakendur eftir messuna (Mynd: Vatican news) Síðastliðinn sunnudag, hinn 19. október 2025 tók Leó páfi XIV tók sjö karla og ...