30 janúar 2025

Aukið hlutverk afrískra kvenna í kaþólsku kirkjunni

Staða afrískra kvenna innan kaþólsku kirkjunnar hefur verið að þróast á undanförnum árum, sérstaklega í ljósi nýlegra umræðna um samráðshæfni (synodality) innan kirkjunnar. Samráðshæfni vísar til þess að allir meðlimir kirkjunnar taki þátt í ákvörðunarferlum hennar, sem getur haft veruleg áhrif á hlutverk kvenna í kirkjunni.

Systir Lydia Mukari, meðlimur í söfnuði Maríu, Guðs móður frá Kakamega, hefur bent á að áður fyrr hafi konur innan kirkjunnar haft takmarkað tækifæri til að stunda formlegt nám í guðfræði, kirkjurétti eða ritningunum, og raddir þeirra hafi oft verið fjarverandi frá ákvörðunarferlum.

Með aukinni áherslu á samráðshæfni er vonast til að þessi staða breytist. Þátttaka kvenna í leiðtogahlutverkum og ákvörðunarferlum getur leitt til fjölbreyttari sjónarmiða og styrkari samfélags. Þetta er sérstaklega mikilvægt í Afríku, þar sem hefðbundin hlutverkaskipting kynjanna hefur oft takmarkað þátttöku kvenna í leiðtogastöðum.

Auk þess hefur Frans páfi ítrekað lagt áherslu á mikilvægi kvenna í kirkjunni og samfélaginu. Hann hefur hvatt til aukinnar þátttöku kvenna í ýmsum þjónustuhlutverkum og samtali innan kirkjunnar, sem getur stuðlað að meiri viðurkenningu og þátttöku kvenna í leiðtogahlutverkum.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu þróun eru enn áskoranir sem þarf að takast á við. Menningarlegar hindranir og rótgrónar hefðir geta enn staðið í vegi fyrir fullri þátttöku kvenna í kirkjunni. Því er mikilvægt að halda áfram að efla menntun og vitundarvakningu um mikilvægi kvenna í kirkjunni og samfélaginu.

Í heildina litið er staða afrískra kvenna innan kaþólsku kirkjunnar að breytast til hins betra, með aukinni viðurkenningu á mikilvægi þeirra í leiðtogahlutverkum og ákvörðunarferlum. Með áframhaldandi áherslu á samráðshæfni og stuðningi við menntun og þátttöku kvenna er vonast til að þessi þróun haldi áfram og leiði til enn sterkari og fjölbreyttari kirkju í Afríku.

Byggt á eftirfarandi frétt: https://www.vaticannews.va/en/church/news/2025-01/synodality-africa-sister-mukari-women-leadership-interview.html

27 janúar 2025

Hl. Angela Merici, mey og stofnandi Úrsúlínureglunnar

Hl. Angela Merici, mey og stofnandi Úrsúlínureglunnar fæddist í bænum Desenzano, á suðvesturströnd Gardavatns í Lombardy (Langbarðalandi) á Norður-Ítalíu árið 1470. Foreldrar hennar dóu þegar hún var aðeins 10 ára. Auðugur frændi hennar sem bjó í bænum Salo tók hana og systkini hennar, eldri systur og tvo bræður að sér. Eftir andlát systur sinnar helgaði hún líf sitt Guði. Hún fékk inngöngu í þriðjureglu fransiskana. (Þriðjuregla er leikmannaregla, þ.e. fólk getur verið í hjónabandi og unnið almenna vinnu. Það þarf ekki að ganga í munkakuflum, en ber einkenni reglunnar innanklæða. Ekki eru unnin regluheit, heldur gefin loforð. Fleiri reglur en Fransiskanareglan hafa þriðjureglu, til dæmis Karmelreglan.) Þegar Angela var 22 ára dó frændi hennar og hún sneri aftur til Desenzano. Henni rann mjög til rifja fáfræði fátækari barnanna í nágrenninu.

Foreldrar þeirra hvorki gátu né vildu kenna þeim, ekki einu sinni einföldustu undirstöðuatriði trúarinnar. Hún ræddi þetta mál við vini sína sem flestir voru annað hvort þriðjureglu-fransiskanar, eða ungar konur úr hennar stétt, snauðar að fé og veraldaráhrifum. Þessir vinir hennar voru samt sem áður reiðubúnir að hjálpa henni ef hún myndi ríða á vaðið. Þó að Angela hafi verið mjög lágvaxin hafði hún alla þá kosti til að bera sem leiðtogi þarf að hafa, svo sem persónutöfra og gott útlit. Hún og félagar hennar hleyptu af stað reglulegum og kerfisbundnum kennslustundum fyrir litlu stúlkurnar í hverfinu. Starfið óx og blómgaðist, og fljótlega var henni boðið til Brescia, nálægrar borgar til að gera það sama þar. Henni var komið í samband við áhrifamestu fjölskyldurnar í Brescia. Hún varð fljótt lífið og sálin í hópi guðelskandi manna og kvenna sem hrifust af hugsjónum hennar. Hún settist að í Brescia og komst þar fljótt til áhrifa. Hún ferðaðist til frægra helgistaða, meðal annars landsins helga. Nálægt árinu 1533 virðist sem hún hafi byrjað að velja nokkra úr kennarahópi sínum til óformlegrar þjálfunar í regluhlýðni. Tólf þeirra settust að ásamt henni í húsi einu nálægt kirkju hl. Afra, en meirihluti þeirra bjó áfram í foreldrahúsum eða hjá ættingjum. Tveim árum síðar helguðu sig Guði 28 ungar konur, ásamt henni. Hún setti þær undir vernd hl. Úrsúlu, verndardýrlings miðaldaháskólanna sem naut einnig hylli og dýrkunar meðal almennings sem leiðtogi kvenna. þessi regla var mjög óformleg fyrst í stað, leit frekar út eins og samtök. Engin regluklæði voru borin, þó að mælt væri með svörtum fötum. Engir eiðar voru teknir og systurnar innilokuðu sig ekki, né lifðu þær sameiginlegu reglulífi. þessi atriði komu ekki fyrr en aldarfjórðungi eftir dauða hl. Angelu. þær hittust til að kenna, og til sameiginlegrar tilbeiðslu. Uppfylltu skyldur sínar, eins og hverri og einni féll í skaut og lifðu lífi heilagleika mitt á meðal fjölskyldumeðlima sinna. Hugmyndin um kennslureglu kvenna var svo fjarstæðukennd á þeim tíma að talsverðan tíma þurfti til að það yrði raunveruleiki. Þegar þessi samtök völdu sinn fyrsta leiðtoga var hl. Angela einróma kjörin og gegndi hún þeirri stöðu þau 5 ár sem hún átti eftir ólifuð. Hún dó í janúar 1540. Árið 1544 gaf Páll páfi III út reglugerð þar sem hann löggilti "Félagsskap hl. Úrsúlu". 1807 var hl. Angela tekin í heilagra manna tölu. [1]

II

Ástæða þess að hér er fjallað um hl. Angelu er sú að fyrir tilviljun lá leið þess er þetta ritar til Desenzano. Hópur 8 Íslendinga var á pílagrímsferð til Meðugorje í Júgóslavíu árið 1989 undir leiðsögn séra Jakobs Rolland prests í Landakoti. Miðvikudaginn 21. júní vöknuðu pílagrímar eldsnemma, svo sem þeirra er siður í svissneskum fjalladal. Klukkan var 5 um morguninn. Litlir rómsterkir fuglar kváðust á af ótrúlegum þrótti. Raust þeirra var líkust því að slegið væri með silfurhömrum á litla silfursteðja. Því er við hæfi að kalla þá smiðjufugla. Þeir samhæfðu söng sinn af svissneskri nákvæmni, og urðu af því hinir eftirminnilegustu hljómleikar. Eftir þvott og snöggan morgunverð í grákaldri morgunskímunni lögðu pílagrímarnir í Nufenen-fjallaskarðið. Stansað var efst í Nufenenskarði í 2400 metra hæð og landið skoðað. Morgunsólin skein björt og fögur í austri og lýsti upp fjöllin að baki. Í vestri og norðvestri blöstu hvarvetna við svissnesk Toblerone-löguð fjöll, með rjómalitum ístoppum. Það var ekki án söknuðar að þetta land var yfirgefið.

Til Ítalíu var komið um 10 leytið. Í hita og þunga dagsins seig svefn á yngri hluta hópsins og Ítalía leið framhjá í þunnu mengunarskýi, við lágvær svefnhljóð. Nálægt miðjum degi náðu pílagrímar til úthverfa Mílanó, beygðu þar í austurátt, og óku sem leið lá eftir A4 hraðbrautinni. Um hálf-tvö leytið, reyndist brýnt að nema skjótlega staðar. Af tilviljun einni var því valinn næsti afleggjari út af hraðbrautinni. Það reyndist vera afleggjarinn til Desenzano. Þessi borg liggur nokkurn veginn miðja vegu milli Brescia í vestri og Veróna í austri. Staðurinn stendur á suðurbakka Gardavatnsins, sem er eitt af stærstu vötnum Ítalíu, ílangt og liggur í norður-suður stefnu og teygir norðurenda sinn í átt til Alpafjalla. Ekki sáu pílagrímar samt fjöllin þennan dag og var þar mengunin að verki, skyggnið ekki nema um fimm kílómetrar. Á vatninu liðu litlar seglskútur hljóðlaust um, og sumar sáust ógreinilega. Hópurinn okkar hafði það fyrir sið að sækja messu einu sinni á dag ef færi gafst. Því var lagt upp í göngu og leitað að kirkjuhúsi. Fljótlega fannst eitt stórt og mikið. En vonbrigðin voru mikil. Hún var harðlæst. Áfram var haldið eftir göngugötu, sem lá í vesturátt. Leitað var ráða hjá lögregluþjóni sem sagði til vegar. Önnur kirkja fannst, hún var líka harðlæst. Séra Jakob gekk hringinn í kringum hana, og ræddi við menn sem hann hitti í skugganum. Þeir kváðu öll tormerki vera á því að hægt væri að opna húsið, sérstaklega á þessum tíma, þegar sólin var hvað hæst á lofti. Gengu því pílagrímar niðurlútir í vesturátt, framhjá hattabúðum, ísbúðum, og veitingastöðum. Skyndilega komu þeir að húsi sem svipaði til kirkju. Það stóð þröngt klemmt milli húsanna til hliðar. Þeir knúðu dyra og var hleypt inn. Þar sat svarthærð talsímakona við skiptiborð og talaði í taltækið af miklum skörungsskap og þróttmikilli innlifun. Hún kvaddi til svartklædda reglusystur, sem hóf samræður við séra Jakob. Að þeim loknum sneri séra Jakob sér að okkur hinum og sagði: "Við erum komin í höfuðstöðvar Úrsúlínanna, sem hl. Angela Merici stofnaði. Við erum velkomin, og systurnar ætla að leyfa okkur að nota aðra kapelluna sína til messunnar." Systirin fylgdi okkur gegnum langt og vítt anddyri og út í bakgarð, sem var umkringdur byggingunni á alla kanta. Mildir sólargeislar umvöfðu garðinn og litfögur blóm, sem greru í snyrtilegum kerjum, ys götunnar heyrðist ekki. Kyrrðin og friður staðarins mynduðu andstæðu við þá veröld sem við höfðum stigið út úr fimm mínútum áður. Í bakgarðinum gengu hvítklæddar reglusystur hljóðlega um. Þær stöfuðu frá sér svalandi friðsæld og hógværð, það var næstum eins og þær svifu hljóðlaust í átt til aðal kapellunnar þar sem þær voru að safnast til sameiginlegrar bænar. Svartklædda systirin staðnæmdist fyrir utan kapelludyrnar þar sem hinar systurnar gengu inn. Hún ætlaði að leyfa okkur að líta inn í aðal-kapelluna. Eitt augnablik opnaði hún dyrnar og við sáum innfyrir. Systurnar báðust fyrir í hljóði í rökkvaðri kapellunni. Á gaflinum, beint á móti dyrunum gat að líta málverk af stofnanda reglunnar. Eitt augnablik horfðumst við í augu við málverkið. Það var af ungri konu með ákveðna andlitsdrætti, ljóshærðri og sýndist hárið falla niður á axlirnar. Síðan lokuðust dyrnar. Það var eins og hún hefði tekið á móti okkur sjálf. Séra Jakob messaði í lítilli en fallegri og svalri kapellu. Þar var flestallt gamalt inni og niður aldanna hljómaði á látlausan hátt. Okkur fannst við samt vera komin heim, og einhvernveginn var eins og hvert og eitt okkar settist í sætið sitt.

Að messunni lokinni kvöddum við Úrsúlínurnar með virktum og leituðum uppi veitingastað þar sem snædd var alþjóðleg fæða þeirra sem eru að flýta sér: Pizza, hamborgarar og kók. Að máltíðinni lokinni var stigið upp í Fordinn og haldið í austurátt. Framundan biðu Padúa og Feneyjar í hlýju mistrinu.

-------

RGB/Greinin birtist fyrst í Sóknarblaði Kristkirkju í janúar 1990. Hún er lítillega breytt hér.

Heimild:
[1]Butler's Lives of the Saints. Concise Edition. Burns and Oates. Kent 1988.

24 janúar 2025

Heilagur Frans frá Sales: Fyrirmynd guðrækninnar í fjölbreytileika lífsins

Heilagur Frans frá Sales (1567–1622) var franskur biskup og kirkjufræðari sem lagði áherslu á að guðræknin væri fyrir alla, óháð stöðu eða starfsvettvangi. Hann fæddist í héraðinu Savoy og var vígður biskup í Genf árið 1602, á tímum mikilla trúarlegra átaka. Verk hans, bæði sem sálusorgari og rithöfundur, höfðu djúp áhrif á þróun kristins lífs og guðræknisiðkunar á eftir honum. Hann er einkum þekktur fyrir rit sitt Philoþea: Leið til guðrækninnar, þar sem hann beinir orðum sínum til almennra trúaðra og kennir hvernig guðrækni geti blómstrað í hversdagslífinu.

Frans frá Sales taldi að líf guðrækninnar væri ekki bundið við klaustur eða sérstaka stöðu innan kirkjunnar. Í bréfi til andlegs sálufélaga síns, sem hann kallaði „Fílóþeu,“ ræðir hann um mikilvægi þess að guðrækni sé stunduð í samræmi við eðli, stöðu og köllun hvers einstaklings. Hann segir:

„Guðrækni á að stunda með ólíkum hætti af aðalsmanninum og verkamanninum, þjóninum og höfðingjanum, af ekkjunni, ógiftum stúlkum og giftum konum.“

Þessi sýn hans brýtur niður múra milli hins andlega og hins veraldlega lífs. Með líkingu við býfluguna, sem safnar hunangi án þess að skaða blómin, útskýrir hann hvernig guðrækni fegrar störf okkar og lífsskyldur án þess að hindra þær. Fyrir honum var sönn guðrækni ekki hindrun, heldur leið til að dýpka kærleikann og efla samfélagið.

Frans lagði áherslu á að guðræknin fullkomnar það sem við gerum. Til dæmis getur guðræknin gert ást hjóna innilegri, störf verkamanna ánægjulegri og þjónustu höfðingjans göfugri. Þessi nálgun hans eykur vægi hversdagslegra verka sem hluta af andlegri vegferð. Með trúrækninni, segir hann, verða allar athafnir okkar friðsælli og geðfelldari, hvort sem þær eru stórar eða smáar.

Frans var einnig ötull í starfi sínu sem kennari og leiðbeinandi. Hann hjálpaði mörgum að finna jafnvægi milli líkamlegra og andlegra þarfa og skrifaði fjölda bréfa og ritgerða til að leiðbeina mönnum um hvernig þeir gætu nálgast Guð á sinn einstaka hátt. Hann lagði áherslu á mildan kærleika og var þekktur fyrir umburðarlyndi sitt gagnvart þeim sem voru á villigötum, þar með talið Kalvínistum í Genf.

Það er þessi hagnýta og milda nálgun sem gerir kenningar hans aðgengilegar og viðeigandi enn í dag. Frans frá Sales boðaði að líf heilagleikans væri ekki einungis ætlað munkum og nunnum, heldur öllum mönnum, hver sem köllun þeirra væri. Hann hvatti fólk til að sjá hversdaginn sem vettvang trúarlegrar iðkunar og setja kærleika Guðs í öndvegi í öllum verkum sínum.

Sem kirkjufræðari hefur Frans frá Sales haft mikil áhrif á kristið líf og hugmyndafræði. Hann er verndardýrlingur blaðamanna og rithöfunda, en verk hans eru ómetanlegur leiðarvísir fyrir þá sem vilja lifa heilögu lífi í veraldlegum kringumstæðum.

Á þessari hátíð heilags Frans frá Sales rifjum við upp að kærleikurinn, mildin og guðrækni eiga heima í öllum þáttum lífsins, hvort sem við erum á vinnustað, á heimili eða í bæn. Með orðum hans getum við fundið innblástur til að leitast við að lifa lífi fylltu af kærleika og friði, þar sem trúin og daglegt líf mynda órjúfanlega heild.

https://www.vaticannews.va/en/saints/01/24/saint-francis-de-sales--bishop-of-geneva-and-doctor-of--the-chur.html

https://breviar.sk/cgi-bin/l.cgi?qt=pdt&d=24&m=1&r=2025&p=mpc&ds=1&j=is

13 janúar 2025

Skírn Drottins – Upphaf nýrra tíma í sögunni

Skírn Drottins í ánni Jórdan markar mikilvægan áfanga í lífi Jesú Krists og sögu kristinnar trúar. Þessi atburður, þegar Jesús lætur skírast af Jóhannesi skírara, undirstrikar auðmýkt hans og samsemd með mannkyninu, jafnframt því að opna nýtt skeið í sögu hjálpræðisins.

Guðspjöllin lýsa því hvernig Jesús kemur til Jóhannesar, síðasta spámanns Gamla testamentisins, til að láta skírast. Jóhannes boðaði iðrun og fyrirgefningu syndanna og benti á komu Messíasar, en hann gerði sér einnig grein fyrir eigin smæð í samanburði við þann sem á eftir kæmi: „Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.“

Skírnin og táknrænt hlutverk hennar
Skírnin í Jórdan er meira en einföld athöfn; hún hefur djúpa táknræna merkingu. Vatnið, sem táknar hreinsun og endurnýjun í bókum Gamla testamentisins, er nú helgað af Kristi sjálfum. Með því að stíga niður í vatnið tekur Jesús á sig syndir mannkyns, og þegar himnarnir opnast og Heilagur Andi stígur niður í líki dúfu, birtist Guð Faðirinn í sínum eigin orðum: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“

Samspil sögulegs og guðfræðilegs samhengis
Frásögn Lúkasar guðspjallamanns setur þennan atburð í ákveðið pólitískt og trúarlegt samhengi. Á sama tíma og Tíberíus keisari og valdamiklir æðstu prestar stjórna, gerir Lúkas það ljóst að það er ekki veraldleg valdastofnun eða trúarlegur rétttrúnaður sem mótar sögu hjálpræðisins, heldur „orð Guðs sem hvílir yfir Jóhannesi“. Þetta orð kallar Jóhannes úr eyðimörkinni til að boða fólkinu komu Drottins.

Jesús sem miðpunktur hjálpræðissögunnar
Eftir skírnina tekur Jesús við keflinu af Jóhannesi. Þar með hefst opinber þjónusta hans, þar sem hann kynnir nýjan tíma hjálpræðis sem byggir á kærleika, réttlæti og fyrirgefningu. Í skírn sinni vísar Jesús á undanhaldið sem hann mun sjálfur ganga í gegnum – frá höfnun og þjáningu til sigursins í upprisunni.

Hvatning til trúaðra
Skírn Drottins minnir kristna menn á mikilvægi auðmýktar og þrá eftir dýpri tengslum við Guð. Hún er einnig ákall um breytingu í lífi okkar, að taka upp nýjan lífsstíl sem byggir á réttlæti og kærleika. Þessi atburður kallar okkur til að fylgja fordæmi Jesú og lifa í ljósi hans, með hugrekki til að standa gegn óréttlæti og knýja fram breytingar í heiminum.

Skírn Drottins er ekki aðeins sögulegur viðburður heldur lifandi tákn um náð Guðs, sem boðar nýtt upphaf fyrir alla sem taka við skírn og gangast undir köllun hans.

https://www.vaticannews.va/en/liturgical-holidays/feast-of-the-baptism-of-the-lord.html

06 janúar 2025

Heilagur André Bessette

Bróðir André Bessette, fæddur Alfred Bessette árið 1845 í Québec, Kanada, er þekktur fyrir djúpa trú sína og óbilandi þjónustu við aðra. Eftir að hafa misst báða foreldra sína ungur, upplifði hann erfiða æsku og vann ýmis störf, bæði í Kanada og Bandaríkjunum, þrátt fyrir viðvarandi heilsuvandamál.

Árið 1870, þá 25 ára gamall, sótti Alfred um inngöngu í Bræðrafélag heilags kross í Montreal. Vegna heilsu sinnar og menntunarleysis var umsókn hans upphaflega hafnað. Með stuðningi biskupsins í Montreal, var honum að lokum veitt innganga og hann tók nafnið bróðir André. Hann var falið að gegna hlutverki dyravarðar við skólann þeirra, starf sem hann sinnti í fjörutíu ár.
Sem dyravörður tók bróðir André á móti fjölda fólks daglega. Með tímanum varð hann þekktur fyrir hlýju sína, samkennd og djúpa trú. Hann hafði sérstaka ástúð fyrir heilögum Jósef og hvatti fólk til að biðja fyrir hans milligöngu. Margir sem heimsóttu hann sögðu frá lækningum og andlegri huggun eftir að hafa talað við hann, sem leiddi til þess að orðspor hans sem fyrirbiðjandi læknara og undramanns breiddist út.
Þrátt fyrir aukna athygli hélst bróðir André hógvær og einbeitti sér að þjónustu sinni. Hann safnaði fjármunum til að reisa kapellu tileinkaða heilögum Jósef á Mount Royal í Montreal. Þessi kapella, sem hófst sem lítið bænaskýli, þróaðist með tímanum í stórfenglega byggingu, þekkt sem Oratory of St. Joseph, sem varð miðstöð fyrir pílagríma og bænahald.
Bróðir André lést árið 1937, 91 árs að aldri. Í jarðarför hans komu yfir milljón manns til að votta honum virðingu sína, sem endurspeglar djúp áhrif hans á samfélagið. Hann var tekinn í dýrlingatölu af Benedikt XVI páfa árið 2010 og er fyrsti kanadíski karlmaðurinn sem hlotnast sú viðurkenning.
Arfleifð bróður Andrés er lifandi í gegnum Oratory of St. Joseph, sem heldur áfram að vera staður fyrir bæn og íhugun fyrir þúsundir sem heimsækja staðinn árlega. Saga hans er vitnisburður um hvernig hógværð, trú og óeigingjörn þjónusta geta haft djúp áhrif á samfélagið og veitt innblástur fyrir komandi kynslóðir.

04 janúar 2025

Hl. Angela frá Foligno og áhrif hennar á hl. Elísabetu af Þrenningunni

Hin heilaga Angela frá Foligno (1248–1309) var ítölsk þriðju reglu Fransiskani sem er þekkt fyrir djúpa andlega reynslu sína og skrif um einingu við Guð. Hún fæddist í Foligno á Ítalíu og lifði veraldlegu lífi þar til hún upplifði umbreytandi trúarlega reynslu sem leiddi hana til að ganga í þriðja reglufélag Fransiskana. Hennar er minnst 4. janúar ár hvert.

Heilög Elísabet af Þrenningunni (1880–1906), frönsk Karmelnunna, var djúpt snortin af Angelu. Elísabet, sem var þekkt fyrir djúpa íhugun sína á heilagri þrenningu, fann í verkum Angelu spegilmynd af eigin andlegri reynslu. Sérstaklega heillaðist hún af lýsingum Angelu á nánd við Krist á síðustu augnablikum lífsins.

Í bréfi til móður Magdalenu, vitnar Elísabet í orð Jesú til Angelu: "Það er ég sem kem og ég færi þér óþekkta gleði... Ég mun koma inn í djúp veru þinnar." Þessi orð, sem Angela heyrði á dánarbeði sínu, endurómuðu í hjarta Elísabetar, sem sjálf var að upplifa síðustu daga sína í veikindum. Þetta sýnir hvernig andleg reynsla Angelu veitti Elísabetu huggun og styrk á erfiðum tímum.

Áhrif Angelu á Elísabetu endurspegla hvernig andleg arfleifð getur ferðast yfir aldir og menningarheima, veitt innblástur og leiðsögn fyrir þá sem leita dýpri tengingar við Guð. Skrif Angelu, sem leggja áherslu á persónulega reynslu af Guði og umbreytandi mátt kærleikans, urðu Elísabetu leiðarljós á hennar eigin andlega ferðalagi.

Þannig má sjá hvernig heilög Angela frá Foligno, með djúpu andlegu innsæi sínu, hafði áhrif á og auðgaði trúarlíf heilagrar Elísabetar af Þrenningunni, sem sjálf varð fyrirmynd margra í leit sinni að einingu við Guð.

https://www.vaticannews.va/en/saints/01/04/st--angela-of-foligno--franciscan.html

https://spiritualdirection.com/2013/10/19/saint-angela-di-foligno-blessed-elisabeth-trinity

02 janúar 2025

Hinir heilögu Basilíus mikli og Gregoríus frá Nazianz


Hinir heilögu Basilíus mikli og Gregoríus frá Nazianz voru áhrifamiklir kirkjufræðarar á 4. öld sem mótuðu kristna guðfræði og líf kirkjunnar. Þeir voru vinir og samstarfsmenn sem lögðu grunn að mörgum þáttum kristinnar kenningar og kirkjusiðar.

Basilíus mikli

Basilíus, fæddur árið 329 í Kappadókíu (núverandi Tyrklandi), kom úr fjölskyldu heilagra. Eftir nám í Konstantínópel og Aþenu ákvað hann að helga líf sitt einlífi og stofnaði klaustur í Pontus. Hann samdi reglur fyrir einlífi sem urðu grunnur að munkareglu og sem lögðu áherslu á hugleiðslu og samfélagslega þjónustu.

Árið 370 var Basilíus vígður biskup í Kaesareu. Hann reyndist áhrifamikill leiðtogi og sýndi fordæmi með mannúðarverkefnum sínum. Þegar hungursneyð reið yfir gaf hann eigið fé til fátækra, skipulagði súpugjafir og lét sjálfur reisa þorp með kirkju, sjúkrahúsi og gestahúsi.

Basilíus barðist gegn Aríusarvillunni, sem dró í efa guðdóm Krists og olli miklum klofningi innan kirkjunnar. Hans óbilandi staðfesta varð mikilvæg í að styrkja trúverðugleika réttrar kenningar. Basilíus er verndardýrlingur munka, stjórnenda sjúkrahúsa, umbótasinna og Rússlands.

Gregoríus frá Nazianz

Gregoríus, einnig fæddur árið 329, var þekktur fyrir sína óviðjafnanlegu mælsku og ritstörf. Eftir nám í Aþenu snéri hann aftur til heimabæjar síns, þar sem hann var vígður prestur. Hann var kallaður „Guðfræðingurinn“ vegna áhrifamikilla predikana og skrifa sem vörðuðu þrenningarkenninguna og guðdóm Krists.

Árið 379 var Gregoríus kallaður til Konstantínópel til að leiða kirkjuna þar á erfiðum tíma. Hann dró að sér mikinn fjölda fólks með kraftmiklum prédikunum sínum, þar sem hann varði guðdóm Krists gegn Aríusarvillunni. Hann stóð fyrir hinum svokölluðu „guðfræðipredikunum,“ sem urðu grundvallartextar í þróun kristinnar kenningar.

Gregoríus mætti þó harðri andstöðu. Ákveðnir hópar innan kirkjunnar, sem studdu annaðhvort Aríusarvilluna eða höfðu persónulega hagsmuni, gerðu honum erfitt fyrir. Þrátt fyrir velgengni hans í að sameina samfélagið, ákvað Gregoríus að yfirgefa Konstantínópel árið 381 til að stuðla að einingu kirkjunnar. Hann eyddi síðustu árum sínum í einangrun, þar sem hann ritaði ljóð og bænaljóð og dýpkaði andlega reynslu sína.

Gregoríus er verndardýrlingur uppskeru og skálda og er minnst fyrir auðmýkt, guðfræði og kærleik til Guðs og manna.

Vinátta þeirra, þjónusta við Guð og barátta þeirra fyrir sannleika kristinnar trúar höfðu djúp áhrif á kirkjuna. Minningardagur þeirra er haldinn hátíðlegur 2. janúar ár hvert, og liturgískur litur dagsins er hvítur.

https://www.vaticannews.va/en/saints/01/02/sts--basil-the-great-and--gregory-nazianzus--bishops-and-doctors.html

https://www.franciscanmedia.org/saint-of-the-day/saint-gregory-nazianzen/

https://www.loyolapress.com/catholic-resources/saints/saints-stories-for-all-ages/saint-basil-the-great-and-saint-gregory-nazianzen/

https://mycatholic.life/saints/saints-of-the-liturgical-year/2-january-saints-basil-the-great-and-gregory-nazianzen-bishops-and-doctors-memorial/

01 janúar 2025

1. janúar, stórhátíð Heilagrar Guðsmóður

Stórhátíð heilagrar Maríu guðsmóður er haldin hátíðleg 1. janúar ár hvert, hinn áttunda dag jólatímabilsins. Þessi dagur er helgaður Maríu, móður Jesú Krists, og undirstrikar mikilvægi hennar í kristinni trú sem guðsmóður.

Á Efesusþinginu árið 431, var kenningin um guðlegt móðurhlutverk Maríu staðfest. Þetta var mikilvægt skref í að viðurkenna hlutverk hennar í hjálpræðissögunni. Í tilefni af 1500 ára afmæli þingsins árið 1931 stofnaði Píus XI páfi þennan sérstakan hátíðisdag til heiðurs Maríu guðsmóður, sem hafði þó verið haldinn hátíðlegur frá 7. öld.

Þessi dagur er einnig haldinn heilagur sem alþjóðlegur friðardagur, sem Páll VI páfi stofnaði árið 1968. Þannig sameinast á þessum degi virðing fyrir Maríu guðsmóður og ákall um frið í heiminum.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því þegar hirðarnir heimsóttu Jesúbarnið í jötunni og hvernig María geymdi orð fjárhirðanna í hjarta sínu og hugleiddi þau. Þetta undirstrikar djúpa trú hennar og hlutverk sem móðir frelsarans.

Lúkasarguðspjall leggur áherslu á þátt Maríu sem móður og lærisveins Guðs. Í Lk. 2:19 og 2:51 er María sögð „geyma öll þessi orð í hjarta sínu og hugleiða þau.“ Í Lk. 11:27–28 bendir Jesús á að heilagleiki Maríu kemur ekki einungis til vegna mannlegs móðurhlutverks hennar heldur fyrst og fremst vegna hins djúpa andlega skilnings hennar – með því að heyra Guðs orð og varðveita það. Heilagur andi gegnir lykilhlutverki í þessu sambandi, þar sem kveðja engilsins Gabríels („heyra“) og þungun hennar („varðveita“) marka upphaf hjálpræðisverksins. Líkt og sáttmálsörkin forðum varðveitir hún Orðið, frelsara heimsins í skauti sínu, og með leisögn Andans varðveitir hún á sama hátt orð Guðs í djúpi sálar sinnar og hugleiðir það. Staða hennar í Kristinni trú er því einstök, hún er bæði farvegur náðarinnar og fyrirmynd kristinna.

Stórhátíð heilagrar Maríu guðsmóður minnir okkur á mikilvægi þess að hefja nýtt ár með trú, von og kærleika, með Maríu sem fyrirmynd í trúarlegu lífi okkar. Hún hvetur okkur til að leita friðar og réttlætis í heiminum og að treysta á blessun Guðs í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.

Með ósk um gleðilegt nýtt ár og frið á jörðu /RGB.
https://www.vaticannews.va/en/liturgical-holidays/solemnity-of-mary--the-holy-mother-of-god.html

Heilagur Abbondio, biskup í Como - minning 15. apríl

Borgin Como, þar sem heilagur Abbondio þjónaði sem biskup, stendur við samnefnt vatn, Lago di Como, sem margir telja eitt fegursta stöðuvatn...

Mest lesið