Auk þess að vera brúðgumi hinnar blessuðu meyjar Maríu og fósturfaðir Jesú, var heilagur Jósef trésmiður. Með handverki sínu sá hann fyrir heilögu fjölskyldunni og tók þannig þátt í guðlegu hjálpræðisáformi.
Jósef, „hinn réttláti maður“
Í guðspjalli Matteusar er Jósef lýst sem „réttlátum manni“ (Matt 1,19), sem á biblíulegu máli merkir þann sem elskar og virðir lögmálið sem tjáningu Guðs vilja. Líkt og María var Jósef heimsóttur af engli, sem birtist honum í draumi (Matt 1,20). Og rétt eins og María sagði hann „já“ við köllun Guðs þegar honum var opinberað að barnið sem hún bar hefði verið getið af Heilögum Anda. Einkennandi eiginleiki heilags Jósefs er hógvær hlédrægni og styðjandi nærvera í bakgrunni. Ekkert orð hans er skráð í guðspjöllunum. Hann er ekki nefndur eftir atvikið þegar Jesús fannst í musterinu (Lúk 2,41–51). Líklega hafði hann þá þegar yfirgefið þessa tilveru þegar Jesús hóf opinbert starf sitt, til dæmis við brúðkaupið í Kana (Jóh 2,1–11), þó ekkert sé vitað með vissu um andlátið né hvar hann var grafinn.
Vinnan sem þátttaka í áætlun Guðs
Líkt og margir feður ól Jósef Jesú upp til að feta í fótspor hans sem handverksmaður; í guðspjöllunum er Jesús nefndur „sonur trésmiðsins“ (Matt 13,55). Þannig opinberar líf heilags Jósefs göfgi mannlegrar vinnu, sem er ekki aðeins nauðsyn heldur einnig köllun og leið til að þjóna Guði og náunganum.
Vinna er bæði skylda og vegur að helgun mannsins. Í henni þjónar hann samfélaginu og verður þátttakandi í hjálpræðisverki Guðs. Hl. Jósef elskaði vinnu sína og kvartaði ekki yfir þreytu. Hann lyfti daglegu starfi sínu upp sem trúfastri iðkun dyggðar. Hann leitaði hvorki auðs né öfundaði ríkidæmið – fyrir hann var vinnan ekki gullinn vegur til metorða eða sókn í meiri lífsþægindi heldur leið til að styðja fjölskyldu sína með reisn.
Í samræmi við boð Guðs helgaði hl. Jósef hvíldardaginn og tók þátt í helgihaldi gyðinga (sbr. 2 Mós 20,8–11). Þessi göfuga sýn á hógværa handavinnu á sér rætur í Gamla testamentinu, þar sem Guð sjálfur birtist sem vínræktarmaður (Jes 5,1–7), sáðmaður (Lúk 8,5–15) eða hirðir (Sálm 23).
Heilagur Jósef og góður dauðdagi
Margar aldir hefur fólk beðið til heilags Jósefs um náð góðs og friðsæls dauðdaga. Rík er sú trú að bæði Jesús og María hafi verið við rúmstokk hans þegar hann lést. Því er hann sérstaklega heiðraður sem verndari góðs dauðdaga í kristinni hefð.
Hátíð heilags Jósefs verkamannsins
Píus XII páfi stofnaði þessa hátíð formlega þann 1. maí 1955 til að verkafólk gleymdi ekki kristinni sýn á vinnu og mikilvægi hennar sem köllunar. Fyrri páfar höfðu þó þegar undirbúið jarðveginn. Píus IX páfi lýsti Jósef verndardýrling allrar kirkjunnar árið 1870 og viðurkenndi þar með einnig mikilvægi hans sem verkamanns.
Jóhannes Páll II páfi tók síðar upp þráðinn í bréfi sínu Laborem exercens (1981), þar sem hann talar um „guðspjall vinnunnar“ (Evangelium laboris) og ítrekar að mannleg vinna geti verið leið til helgunar og þátttöku í hjálpræði Guðs. Kardínálinn Angelo Roncalli – sem síðar varð Jóhannes XXIII páfi – hugleiddi að taka nafnið Jósef þegar hann var kjörinn páfi, svo djúp var virðing hans fyrir þessum hljóða og trúfasta þjóni Guðs.
Margar helgar persónur, einkum heilög Teresa frá Avíla Karmelnunna og stofnandi „hinnar berfættu“ (discalced) greinar Karmelreglunnar, báru sérstakt traust til heilags Jósefs og mælti hún með því að fólk leitaði til hans í öllum þörfum. Hún skrifaði:
„Ég hef aldrei beðið hann um nokkra náð án þess að hann hafi orðið við henni.“
(Sjá: Hl. Teresa frá Avíla, Sjálfsævisaga, kafli 6)
-
Þýtt og endursagt. Byggt á https://www.vaticannews.va/en/saints/05/01/st-joseph--the-worker--spouse-of-the-blessede-virigin-mary---pat.html