27 júní 2025

Hjarta hins upprisna Frelsara – Stórhátíð heilags Hjarta Jesú


Gegnum Jesú helgast hjarta
í himininn upp ég líta má,
Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna' og sjá.
Hryggðarmyrkrið sorgar svarta
sálu minni hverfur þá.

Hjartans innstu æðar mínar
elski, lofi, prísi þig,
en hjartablóð og benjar þínar
blessi, hressi, græði mig.
Hjartans þýðar þakkir fínar
þér sé, gæskan eilíflig. 
Hallgrímur Pétursson

Í dag fagnar kirkjan stórhátíð hins Alhelga Hjarta Jesú, sem hefur lengi verið kær guðrækni meðal kristinna manna, einkum í Vesturkirkjunni, en í vaxandi mæli einnig í austrænni helgisiðavenju. Á þessari hátíð dveljum við við dýpstu verund Krists – Hjarta hans – sem opinberar elsku Guðs til mannkynsins í sárum og útstreymi lífs og kærleika. Tilbeiðslan beinist ekki að líffæri heldur að persónu Krists, að honum sem elskaði „allt til enda“ (Jh 13,1), og gaf líf sitt fyrir vinina (Jh 15,13).

Einnig fagna Karmelsystur af hinu Guðlega Hjarta Jesú GHJ aðalhátíð reglu sinnar. Árið 2001 komu Karmelsystur af hinu guðdómlega hjarta Jesú til starfa á Norðurlandi. Þær aðstoða við messuhald og trúfræðslu og starfa einnig við gæslu ungbarna. Heimasíða reglunnar er: https://carmeldcj.org/


Í textanum sem hér fer á eftir dregur rithöfundurinn Walter Kern í íslenskri þýðingu Jóns Rafns Jóhannssonar OCDS saman rætur og kenningarlegan grundvöll þessarar guðrækni með djúpum og innsæisríkum hætti. Textinn er úr inngangi að bókinni „Guðrækni hins Alhelga hjarta Jesú“ sem fæst í verslun Karmelsystra í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Textinn veitir ekki aðeins betri skilning á tilefni hátíðarinnar heldur kallar hann okkur til að svara elsku Krists með trúfesti, tilbeiðslu og elsku í verki.

„TAKMARK GUÐRÆKNINNAR
Kristindómurinn er trúarbrögð elskunnar eins og Kristur hefur opinberað okkur hana. Hún hefst með alheilögum, almiskunnsömum, óumræðilega fullkomnum og yfirskilvitlegum Guði sem kallar alla hluti og allt mannkynið til tilvistar vegna elsku sinnar. Þegar mannkynið fjarlægðist þessa elsku birtist Guð á vettvangi mannkynssögunnar síendurtekið til að leiða mannkynið að nýju til elskuríkrar ráðsályktunar sinnar. Að lokum gerðist svo önnur Persóna Þrenningarinnar maður sem „ímynd hins ósýnilega Guðs“ (Kol 1. 15) meðal mannanna.

Kristur Jesús boðaði boðaði þau djúpstæðu sannindi að „Guð er elska“ (1Jh 4. 16). Hann opinberaði að sönnun elsku Guðs til allra manna fælist í því að hann elskaði þá meðan þeir voru enn syndugir og engrar elsku verðir, áður en þeir tóku að elska með gagnkvæmri elsku (Rm 5. 6-8). Til að færa enn frekari sönnur á dýpt þessarar elsku úthellti Kristur lífi sínu fyrir okkur, allt til þess að Hjarta hans var gegnumstungið á krossinum á Hauskúpuhæð (1Jh 4. 9; Jh 19. 24).

Nú biður hinn upprisni Frelsari meðbræður sína: Lifið í elsku minni. Þið munuð halda áfram að lifa í elsku minni ef þið virðið boðorð mín, rétt eins og ég hef virt boðorð Föður míns og lifði í elsku hans.
„Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef 13 elskað yður“ (Jh 15. 11-12). Við lok jarðnesks lífs síns sendi Jesús fyrstu leiðtoga kirkjunnar út til að boða sérhverjum karli, konu og barni þessi skilaboð elskunnar svo að þau lifðu að eilífu (Mt 28. 16-20). Allt fram til dagsins í dag heldur kirkja hans áfram að predika þessi skilaboð elskunnar. Í þessu mikla útflæði elsku Guðs sem okkur er opinberuð í Kristi er guðræknin á hinu Alhelga Hjarta vel við hæfi.

TILBEIÐSLA Á PERSÓNU KRISTS
Guðræknin á hinu Alhelga Hjarta er í eðli sínu tilbeiðsla og svar andspænis persónu Krists, einmitt eins og hún er séð út frá endanlegum skilningi á honum: Að hann sé elskurík persóna. Þetta er ekki guðrækni á einstökum hluta hans, það er að segja Hjartanu, heldur samfélag við hann einmitt vegna þess að hann er persóna fullur elsku sem borið er skyn á í kjarna alls sem hann er – út frá Hjartanu. Að það sé persóna Krists sem sé takmark þessarar guðrækni hefur Píus páfi VI gert fyllilega ljóst í fordæmingu sinni á jansenismanum og gervikirkjuþinginu í Pistoia (1794). Hann komst svo að orði: „Í reynd tilbiðja þeir Hjarta Jesú eins og það er, það er að segja Hjarta persónu Orðsins sem það er samofið“ (Auctorem Fidei,“ Denziger 1561 og 1563). Leó páfi XIII lagði einmitt með ljósum hætti áherslu á þetta sama atriði í hirðisbréfi sínu á heilögu ári sínu sem nefnist „Annum Sacrum,“ málsgrein 10. Bæði elska og Hjarta Jesú eru sögð takmark þessarar guðrækni, en þetta tvennt ber ætíð að skilja sem skírskotun til og tákn persónu Krists. Horft er á Jesú út frá Hjarta hans, það er að segja frá dýpstu verund hans: Hjartanu (Haurietis Aquas,“ gr. 145-146).

GUÐRÆKNI HINS ALHELGA HJARTA JESÚ TILBEIÐSLAN EINS OG HÚN BIRTIST INNAN VESTURKIRKJUNNAR OG AUSTURKIRKJUNNAR
Kristnir menn hafa ætíð brugðist við gagnvart þessari elsku Guðs sem opinberuð hefur verið í Kristi eins og greint er frá henni í guðspjöllunum og hinum postullegu bréfum, en einkum þó hjá  uðspjallamanninum Jóhannesi. Iðulega birtist þetta sem sérstök íhugun hins mennska eðlis Jesú, einkum í píslum hans og þegar Hjarta hans var gegnumstungið á föstudaginn langa. Í helgisiðum austurkirknanna kaþólsku og hjá Rétttrúnaðarkirkjunni var þessi leyndardómur elsku Guðs tjáður með skírskotun til hinna upplýsandi orðs í Bréfi Páls til Títusar (3. 4): Philanthropia. Þetta orð er þýtt sem „Ástmögur mannkynsins.“ Það var í þessari philanthropiu sem Guð skapaði alla hluti, sendi Son sinn í heiminn sem mann, friðþægði fyrir mannkynið og endurlífgaði það og allan alheim sinn. Í reynd hefur þessi skilningur gegnsýrt andlegt líf og helgisiði Austurkirkjunnar svo algjörlega, að við sjáum hana í því sem næst öllum helgisiðunum og síendurtekna í bænalífinu (Í helgisiðum hl. Jóhannesar Krýsostómosar rekumst við hvað eftir annað á hana, jafnvel í bænunum fyrir gjörbreytingu brauðsins og vínsins í líkama og blóð Krists).

Eftir því sem guðfræðin og guðræknin dýpkaði í aldanna rás, sá Austurkirkjan, en þó einkum  Vesturkirkjan, einstætt tákn þessarar yfirskilvitlegu elsku í líkamlegu Hjarta hins upprisna Frelsara. Þetta var ofur eðlileg niðurstaða vegna þess að finna má samnefnara persónu og verka Krists í orðinu „elska,“ og tákn elskhugans er hjartað. Jafnhliða því sem hjartað birtist í stigvaxandi mæli hið ytra í vestrænni list á brjósti Krists, tjáði hin íhaldssamari list Austurkirkjunnar hana með einni þekktari íkona sinna í sama tilgangi. Þetta fólst í því að bæta orðunum:  „Komið til mín, allir“ (Mt 11. 28 og stundum Jh 7. 37) á guðspjallabókina á hinni hefðbundnu íkonu af Kristi sem Pantakrator (þar sem hann hefur hægri hendina upp í blessunarskyni og sú vinstri hvílir í guðspjallabókinni). Þar sem svo fáir skyldu þessi orð á hinu forna máli, þá hafa fjölmargar „Philanthropiaíkonur“ einfaldlega verið nefndar „Pantokratoríkonur“! Í dag hafa þó bæði einstaklingar í kaþólsku Austurkirkjunum og Orþodoxakirkjunni nútímaíkonur á heimilum sínum með Hjartanu eða myndir af hinu Alhelga Hjarta Vesturkirkjunnar.


GRUNDVÖLLURINN: EINING PERSÓNU KRISTS
Hinn guðfræðilegi grundvöllur þessarar guðrækni sem tilbiður persónuna „út frá Hjartanu“ hvílir á tvenns konar sannindum: (1) Einingu Persónanna og (2) Hlutverki Krists sem meðalgangara. Með  hugtakinu einingu persónanna er skírskotað til verundar eingetins Sonar Guðs sem varð maður: Hann var einungis ein persóna (hin guðlega persóna) sem bjó yfir tveimur eðlum, öðru guðdómlegu en hinu mennsku. Píus páfi XII komst svo að orði: „Það er því afar brýnt á þessu stigi í kenningu sem er jafn mikilvæg og þessi og krefst slíkra hygginda, að sérhver og einn geri sér ljóst að sannleikur hins náttúrlega tákns þar sem hið líkamlega Hjarta Jesú skírskotar til persónu Orðsins, hvílir að öllu leyti á grundvallarsannindum einingar persónanna. Ef einhver heldur því fram að þetta sé ekki sannleikanum samkvæmt, þá reifar hann villukenningar sem kirkjan hefur fordæmt oftar en einu sinni vegna þess að þær ganga þvert á einingu persóna Krists, þrátt fyrir að hin tvö eðli séu hvort fyrir sig fullkomin og aðgreind“ (gr.105). Sá heiður sem hinu Alhelga Hjarta er þannig auðsýndur er tilbeiðsla („latreia“) vegna þess að viðkomandi er að vegsama og skírskota til sjálfrar persónu hins eingetna Guðsonar, annarrar persónu hinnar blessuðu Þrenningar á æðsta sviði mennsku hans („Haurietis Aquas,“ gr. 26-27; Almenna kirkjuþingið í Efesus, kanón 8; Annað kirkjuþingið í Konstantínópel, kanón 9).

Í öðru lagi hvílir guðræknin á Hjarta endurlausnarans einnig á hlutverki hans sem meðalgangara. Hlutverk Krists sem meðalgangara, það er að segja talsmanns sem Guð skipar milli mannkynsins og Guðs, er það sem sem er einstætt fyrir kristindóminn. Sjálfur opinberaði Kristur Föður sinn með
eftirfarandi orðum: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til Föðurins nema fyrir mig“ (Jh 14. 6; 1Tm 2. 5; Heb 9. 15; 12. 24). Þrátt fyrir að það sé rétt að Guð elski að hlusta á okkur hvert og eitt með sínum hætti, þá elskar hann enn frekar að heyra okkur nálgast sig í hjartfólgnum Syni sínum
sem hann sendi sjálfur í heiminn (Þetta er kjarni helgisiðabænanna). Í guðrækni hins Alhelga Hjarta nálgumst við Guð í ljósi þessa sannleika Biblíunnar, en séð út frá Hjarta meðalgangarans (Sjá „Haurietis Aquas,“ gr. 105). Nýleg afstaða innan guðfræðinnar beinir athygli sinni að því hversu „miðlægur“ Kristur er í allri fyrirhugun Guðs: Kristsmiðjuisminn (Christocentricism). Þetta er ekki einfaldlega endurvakning á deilum Scotistanna og Tómasaristanna á mikilvægi Krists, heldur grundvallaraðferð til að túlka allt svið kenningafræðinnar með hliðsjón af persónu Krists. Óháð því hvar við skipum okkur í flokk í þessari öldnu deilu og hvaða skilning við leggjum í Kristsmiðjuismann, þá er kjarni málsins ætíð sá sami: Elskan á Hjarta Krists.“

Minning hinna fyrstu píslarvotta kirkjunnar í Rómaborg - 30. júní

Hinir fyrstu píslarvottar kirkjunnar í Rómaborg. Mynd: ChatGPT Í dag, 30. júní, minnir kirkjan okkur á hina fyrstu píslarvotta kirkjunnar í ...