18 október 2025

Heilagur Lúkas, guðspjallamaður - verndardýrlingur lækna og listamanna - minning 18. október

Heilagur Lúkas guðspjallamaður

Heilagur Lúkas er höfundur þriðja guðspjallsins og Postulasögunnar. Páll postuli kallar hann „hinn elskaða lækni“ (Kól 4,14). Samkvæmt Eusebiosi kirkjusagnaritara var Lúkas ættaður frá Antíokkíu og heiðingi að uppruna. Þetta skýrir þá sérstöku næmni sem hann sýnir fyrir heiðingjum og utangarðsfólki í frásögnum sínum.

Æviágrip
Við vitum ekki nákvæmlega hvenær Lúkas tók trú, en af Postulasögunni má ráða hvenær hann gekk til liðs við Pál. Fyrir 16. kafla er frásögnin í þriðju persónu, en eftir sýn Páls af manni frá Makedóníu færist frásögnin í fyrstu persónu fleirtölu: „leituðum við færis að komast til Makedóníu“ (Post 16,9–10). Það bendir til þess að Lúkas hafi þá gengið til liðs við Pál og síðan fylgt honum um Samóþrakíu, Neapólis og Filippí. Síðar verður frásögnin aftur í þriðju persónu og virðist Lúkas þá hafa orðið eftir í Filippí. Sjö árum síðar liggja leiðir þeirra aftur saman og Lúkas fer með Páli til Míletusar, Tróas, Sesareu og Jerúsalem. Þegar Páll er síðan í haldi í Róm um árið 61 stendur Lúkas við hlið hans. Í lok fangelsisvistarinnar skrifar Páll: „Lúkas er einn hjá mér“ (2Tím 4,11).

Guðspjall miskunnarinnar

Hjá Lúkasi er sérstök áhersla á fátæka, óréttlæti og syndara sem taka á móti fyrirgefningu og miskunn Guðs. Hjá honum er frásögnin af Lasarusi og hinum auðuga manni, dæmisagan um týnda soninn og miskunnsama föðurinn (týndi sonurinn) og sagan af syndugu konunni sem var fyrirgefið. Lúkas varðveitir einnig Lofsöng Maríu, Magnificat þar sem hún lofar Guð sem „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja“ og „hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.“ (Lk 1,52–53). Af þessum ástæðum hefur Lúkas lengi verið kallaður guðspjallamaður miskunnarinnar.

Hjá Maríu mey
Lúkas greinir með sérstakri hlýju frá Maríu mey. Þökk sé honum þekkjum við orð engilsins við boðunina, heimsókn Maríu til Elísabetar og Magnificat, smáatriði fórnarinnar í musterinu og angist Maríu og Jósefs þegar Jesús tólf ára týndist í musterinu. Trúarleg hefð segir að Lúkas hafi fengið þessar frásagnir beint frá Maríu og þess vegna er hann í hefðbundinni myndlist talinn fyrsti „málari“ Maríu. Um andlát hans eru ólíkar frásagnir: sumar segja að hann hafi orðið píslarvottur, aðrar að hann hafi dáið í friði háaldraður í Bæótíu, þar sem hann lauk við að skrifa guðspjall sitt. Bæótía (lat. Boeotia, gríska Βοιωτία) er hérað í miðhluta Grikklands, rétt norðan við Attíkus þar sem Aþena er. Það er í þessu héraði sem forn heimild segir að heilagur Lúkas hafi sest að og andast háaldraður. Bein hans eru varðveitt í klaustrinu Santa Giustina í Padúa, rifbein í upprunalegum grafreit í Þebu og höfuðkúpa í dómkirkjunni í Prag.

Heilagur Lúkas í myndlist
Í hefðinni sem tengir heilagan Lúkas við Maríu mey er sagt að hann hafi ekki aðeins skrifað orð hennar heldur einnig málað andlit hennar, sem fyrstu helgimyndina af Maríu og Jesúbarninu. Þessi hugmynd hefur lifað í kirkjulegri myndlist og orðið tákn þess hvernig listin getur orðið þjónustustarf miskunnarinnar.

Einna áhrifamest slíkra helgimynda er mynd heilagrar Maríu meyjar frá Jasna Góra, oft nefnd Svarta Madonnan í Częstochowa í Póllandi. Hún er dýrmæt eign pólsku þjóðarinnar og minnir á móðurlega nærveru Maríu í sögu kristninnar. Samkvæmt hefðinni er hún reist á fornum grunni sem rekja má til mynda sem málaðar voru eftir fyrirmynd Lúkasar sjálfs. Í gegnum aldirnar hefur þessi mynd orðið tákn vonar, trúfesti og verndar.

Í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði er eftirmynd myndarinnar af Maríu mey frá Jasna Góra, og fyrir framan hana biðja trúaðir. Þar sameinast í hughrifum íhugunar trú Maríu, fyrirmynd Lúkasar og bænir Karmelsystra í kyrrð og þjónustu. Þannig lifir hefð Lúkasar sem listamanns og trúarvitnis áfram á íslenskri grund – í lit, ljósi og bæn.

Í Gaulverjabæjarkirkju í Flóahreppi er altaristafla máluð árið 1775 af Ámunda Jónssyni. Á töflunni eru meðal annars myndir guðspjallamannanna fjögurra, og hefur hver þeirra bók í hendi og heldur Lúkas, sem er efst til hægri á töflunni, á fjaðurpenna. 

Tilvitnun
„Lúkas er einn hjá mér“ 2. Tímóteusarbréf 4,11

Lærdómur
Heilagur Lúkas guðspjallamaður kennir okkur að horfa á heiminn með augum miskunnarinnar. Í sögum hans brýtur trúin niður múra milli þjóða og stétta og nær til þeirra sem standa utanveltu. Fyrir okkur í dag er hann fyrirmynd læknisins sem þjónar lífinu, rithöfundarins sem varðveitir sannleikann og listamannsins sem lýsir upp mannlífið með ljósi Guðs.

Bæn
Drottinn, Guð miskunnarinnar,
þú sem hvattir heilagan Lúkas til að skrá fagnaðarerindi þitt,
ger þú okkur reiðubúin að vitna um kærleika þinn í orði og verki.
Læknaðu sár heimsins og gef okkur hjarta sem slær í takt við miskunn þína.
Fyrir Krist, Drottin vorn. Amen.

Heimild
Byggt á efni frá Páfagarði.

Heilagur Lúkas, guðspjallamaður - verndardýrlingur lækna og listamanna - minning 18. október

Heilagur Lúkas guðspjallamaður Heilagur Lúkas er höfundur þriðja guðspjallsins og Postulasögunnar. Páll postuli kallar hann „hinn elskaða læ...