![]() |
| Páfi ávarpar þátttakendur eftir messuna (Mynd: Vatican news) |
Síðastliðinn sunnudag, hinn 19. október 2025 tók Leó páfi XIV tók sjö karla og konur í tölu heilagra við hátíðlega messu á Péturstorginu. Í ávarpi sínu eftir messuna lýsti hann þeim sem „skærum táknum vonar“ og dæmum um þá algildu köllun sem allir kristnir menn eiga hlutdeild í – kölluninni til heilagleikans.
„Samfélag kirkjunnar nær yfir allt rými og allan tíma,“ sagði páfinn. „Í hverju tungumáli og hverri menningu erum við ein þjóð Guðs, líkami Krists og lifandi musteri Heilags anda.“
Heilagur Ignatius Maloyan
Fyrstur var nefndur Ignatius Maloyan, biskup og píslarvottur í Armeníu. Leó páfi lýsti honum sem „hirði eftir hjarta Krists“ sem styrkti hjörð sína á tímum ofsókna í stað þess að yfirgefa hana. Þegar honum var boðið frelsi gegn því að afneita trúnni, valdi hann Guð – jafnvel þó það kostaði hann lífið. Páfinn minntist armensku þjóðarinnar, sem ristir krossinn í stein sem tákn óhagganlegrar trúar, og bað að fyrirbæn hins nýja dýrlings mætti færa henni sátt og frið.
Heilagur Peter To Rot
Næstur var nefndur Peter To Rot, trúfræðari frá Papúa Nýju-Gíneu. Hann hélt áfram sálusorgun sinni í leyni á valdatíma Japana í síðari heimsstyrjöldinni og barðist fyrir helgi hjónabandsins gegn fjölkvæni.
„Þetta er erfiður tími fyrir okkur og við erum öll hrædd,“ hafði hann sagt, „en Guð faðir okkar er með okkur.“ Páfinn hvatti hina trúuðu til að verja sannleika trúarinnar og treysta Guði á öllum raunatímum.
Heilagir José Gregorio Hernández og Carmen Rendiles
Frá Venesúela voru tekin í tölu heilagra José Gregorio Hernández og Carmen Rendiles, sem bæði einkenndust af trú, von og kærleika. Páfinn benti á að trúin breyti hversdagslífi í ljós fyrir aðra, vonin minni okkur á að erfiðleikar hafi varanlegan tilgang, og kærleikurinn kalli okkur til þjónustu við sjúka, fátæka og smælingja.
Heilög Maria Troncatti og Vincenza Maria Poloni
Maria Troncatti, systir í Ekvador, læknaði bæði líkama og hjörtu með kærleika sprottnum úr trú og bæn. Vincenza Maria Poloni, stofnandi Samhjálparsystra, sýndi miskunn Krists gagnvart sjúkum og jaðarsettum. Báðar sýna þær að heilagleiki blómstrar í þjónustu við hina brothættu.
Heilagur Bartolo Longo
Að lokum nefndi páfinn Bartolo Longo, sem sneri sér frá trúleysi til djúprar trúar og helgaði líf sitt miskunnarverkum og útbreiðslu rósakransbænarinnar. „Með því að líta á Krist með augum Maríu,“ sagði páfinn, „lærum við að sjá heiminn í ljósi kærleikans.“
Í lok ávarps síns hvatti Leó páfi alla þá sem voru samankomnir – og þá sem fylgdust með heimafyrir – til að snúa aftur til síns heimalands „með hjarta fullt þakklætis og löngun til að líkja eftir hinum nýju dýrlingum.“
Heimild Fréttaþjónusta Páfagarðs, Vatican news: https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2025-10/pope-leo-xiv-saints-canonization-mass-hope.html
