24 október 2025

Að lesa í náttúruna og tímann - Hugleiðing út frá guðspjalli dagsins – Lúk 12, 54–59


Guðspjall dagsins er ákall Jesú til dómgreindar: 

„54 Jesús sagði og við fólkið: „Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri segið þér jafnskjótt: Nú fer að rigna. Og svo verður. 55 Og þegar vindur blæs af suðri segið þér: Nú kemur hiti. Og svo fer. 56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða. Hvers vegna kunnið þér ekki að meta það sem nú er að gerast? 57 Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður hvað rétt sé? 58 Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig réttarþjóninum og hann varpi þér í fangelsi. 59 Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.“ 

Hann minnir á að við getum lesið í skýin og vindinn, en gleymum að lesa í lífið sjálft. Jesús kallar menn til að greina merki tímans — að sjá hvar Guð talar í náttúrunni, í sögunni og í hjarta mannsins.



Jesús og bók náttúrunnar
Jesús horfði ekki á heiminn sem hlutlausan vettvang, heldur sem opna bók. Hann sá Guð í regninu sem féll á góða og vonda, í sólinni sem lýsti yfir réttláta og rangláta, í fræinu sem dó til að bera ávöxt. Af þeirri íhugun fæddist sýn hans á kærleika Guðs sem nær til allra, án takmarka. Heilagur Ágústínus sagði að náttúran væri fyrsta bók Guðs og Biblían hin önnur — skrifuð til að hjálpa okkur að lesa hina fyrri á ný. Jesús kennir okkur að lesa þessa bók á ný, að sjá Guð í regndropanum, í ljósinu og í lífinu sjálfu.

Uppfylla en ekki yfirfylla jörðina
Í upphafi sagði Guð við manninn:

 „28 Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.““ (1Mós 1,28). 

Þetta var ekki aðeins boð um ráðsmennsku heldur einnig ábyrgð. Guð fól manninum jörðina sem helga gjöf, til að hlúa að henni og láta lífið blómgast. Að „fylla“ jörðina merkir að taka þátt í sköpunarverki Guðs — að gefa af sér, rækta og vernda það sem hann hefur skapað. Í boðinu felst ekki skipun um að „yfirfylla“ hana, að leggja undir sig eða tæma auðlindir hennar, heldur að nýta hana á skynsamlegan hátt. 

Þegar maðurinn gleymir því að hann er ábyrgur ráðsmaður en ekki húsráðandi, breytist blessun í kvöð. Þá verður sköpunin að viðfangsefni græðgi fremur en viðurværis. Við sjáum afleiðingarnar allt í kringum okkur: vistkerfi í hnignun, haf og loft í ójafnvægi, náttúru sem stynur undir þunga mannsins. Þannig er boð Guðs um að „uppfylla jörðina“ líka köllun til endurreisnar.

Kirkjan hefur um aldir lagt áherslu á boðskap lífsins og hvatt fólk til að taka á móti börnum með opnum hug. Það er góð og heilbrigð köllun — en hún verður að standa í samhengi við ábyrgð og virðingu fyrir jörðinni, sem móður allra lífvera. Frans páfi minnir á þetta í bréfi sínu Laudato si’, þar sem hann segir að maðurinn hafi misskilið orð Guðs um að ráða yfir jörðinni. Við höfum talið þau veita okkur rétt til arðráns, en þau eru í raun köllun til þjónustu. Hann segir: „Við erum ekki eigendur náttúrunnar heldur þátttakendur í henni; ekki drottnarar heldur bræður og systur í lífríkinu.“ Í þessari sýn felst að virðing fyrir jörðinni er hluti af virðingu fyrir lífinu sjálfu — því allt líf er tengt, og þar sem hlúð er að einu lífi, þar blómstrar allt líf.

Þannig tengist þetta boð frá upphafi því sem Jesús segir í guðspjallinu: að lesa í tákn tímanna, að sjá hvar Guð talar í sköpuninni, og að bregðast við með kærleika og ábyrgð. Að lesa jörðina rétt — eins og Jesús las himininn og jörðina — er að sjá að hún er ekki eign okkar heldur helgur staður þar sem við hittum Guð. Þannig verður náttúran aftur sú bók sem Ágústínus talaði um: bók þar sem við lærum að lesa kærleika Guðs í litum, hljóðum og lífi heimsins sjálfs.

Jeremía og rödd spámannsins
Jesús sá einnig klofning samfélags síns: Farísea, Saddúkea, Essena og Heródesarsinna sem gátu ekki talað saman. Þess vegna leggur hann áherslu á sáttina: „Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann,“ segir hann, því sáttin er leiðin út úr blindum sannfæringum og harðnaði hjarta. Sá sem neitar að fyrirgefa lokar sjálfur dyrum fyrir náðinni.

Sama köllun hljómar í dag. Nútímaspámenn — vísindamenn sem lesa í merki náttúrunnar — vara við því að jörðin sem okkur var trúað fyrir beri nú einkenni misnotkunar og ójafnvægis. Þeir tala í anda Jeremía spámanns, sem sá að þjóð hans stefndi í glötun, en menn vildu ekki heyra. Þeir sögðu að Jeremía hræddi þjóðina, þegar hann í raun reyndi að vekja hana. Hann var hnepptur í fangelsi, honum var kastað í vatnsból og hann var sakaður um að grafa undan velferð landsins. Jeremía var ekki spámaður ógæfunnar heldur kærleikans — sá sem varaði við af umhyggju, ekki reiði. 

Rödd kirkjunnar í samtímanum
Frans páfi talaði í sama anda í Laudato si’. Hann kallar mannkynið til vistfræðilegrar iðrunar, til að endurheimta hæfileikann til undrunar og þakklætis gagnvart jörðinni. Hann segir að jörðin sé systir sem við höfum sært og að náttúran stynji undir þunga mannlegra gjörða. Ef við töpum hæfileikanum til að lesa boðskap Guðs í náttúrunni, verðum við líka blind fyrir orðum hans í Ritningunni.

Við lifum, líkt og á tímum Jesú, á meðal andstæðra sjónarmiða sem geta ekki talað saman. Sumir trúa á tækni og hagvöxt, aðrir kalla til einfaldleika og ábyrgðar. Þeir tala hvorir gegn öðrum í stað þess að hlusta. Hæðni og hroki hafa tekið sæti samtalsins, og hvor aðili gerir lítið úr hinum. Þannig berjast menn ekki lengur fyrir sannleika, heldur fyrir sigri. En sá sem vill sigra í stað þess að skilja, tapar því sem mestu máli skiptir: hæfileikanum til að sjá Guð í þeim sem hugsar öðruvísi.

Samtal sem trúarleg æfing
Að leita sátta er ekki veikleikamerki heldur hugrekki. Það er ákall um samtal — að hlusta áður en við dæmum, að spyrja áður en við svörum. Jesús vissi að án samtals breytist enginn, og án hlustunar verður engin sátt. Þannig er sáttin ekki aðeins friðartákn, heldur trúarleg æfing: að mæta öðrum í sannleika og virðingu, þar sem Guð sjálfur er nærverandi í samtalinu. Það er þar, í þessari viðkvæmu miðju, sem teikn tímans verða að köllun Guðs.

Að lesa tímann í dag
Að lesa tímann í dag þýðir að hlusta á allar raddir en leita í þeim hjartsláttar Guðs. Ekki velja lið, heldur sjá heildina: náttúruna og manninn, tímann og eilífðina sem eina samfellda sögu kærleikans. Þegar við lærum að lesa þannig hverfur óttinn, og í stað hans kemur ábyrgð, virðing og von.



Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550 Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elín...