![]() |
| Séra Lambert Terstroet, (tölvugerð mynd) |
Í dag, 23. október, minnumst við séra Lamberts Terstroet, prests af reglu heilags Montforts (SMM), sem lést á þessum degi árið 2003. Hann fæddist 19. maí 1912 í Hollandi og gekk ungur í Reglu heilags Louis-Marie Grignion de Montfort.
Séra Lambert var doktor í guðfræði og sérfróður um Guðsmóðurina. Hann var lika fjölfróður, víðlesinn, hafði ferðast víða og hafði haldið fyrirlestra um Heilaga ritningu í um sextíu löndum. Hann var glaðlyndur, hlýr og andríkur prestur sem hafði einstakt lag á að vekja trú og gleði í hjörtum þeirra sem áttu leið á fund hans.
Um 1982 hóf hann starf sem kapellán á hvíldarheimili St. Jósefssystra í Holtsbúð 87 í Garðabæ og þjónaði þar í um sextán ár. Þar hélt hann einnig opna bæna- og fræðslufundi sem urðu að öflugum, reglulegum og á stundum nokkuð fjölsóttum samkomum. Þeir fundir höfðu sérstakan, friðsælan blæ — þar var bænin í fyrirrúmi, trúin nærð og kærleikurinn lifandi. Ég minnist þess að hafa sótt þessa bænafundi og fann í þeim hugarró, bjartsýni og styrk. Það er ekki auðvelt að lýsa þeirri tilfinningu með orðum, en hún var áþreifanleg eftir að hafa verið í návist hans. Séra Lambert var í rauninni andlegt orkuver — maður sem geislaði trú, friði og kærleika, og miðlaði þeim gjöfum áfram til þeirra sem hann bað fyrir.
Þegar St. Jósefssystur fluttu frá Holtsbúð, flutti séra Lambert árið 1998 í prestahús Maríusóknar í Breiðholti, að Raufarseli 8, sem er sambyggt safnaðarheimilinu þar. Þar hélt hann áfram bænafundum sínum og andlegri leiðsögn allt þar til er hann þurfti að flytjast á dvalar- og hjúkrunarheimili erlendis.
Eftir að hann fór af landi brott hélt hópurinn sem hafði sótt bænafundina áfram að hittast, undir hinu óformlega nafni „Bænahópur séra Lamberts“. Sú hefð lifði áfram sem vitnisburður um trú, gleði og nærveru hans.
Séra Lambert andaðist hinn 23. október 2003, níutíu og eins árs að aldri. Hann var einn þeirra trúboða sem lögðu grunninn að samfélagi Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.
Drottinn, lát þjón þinn hvíla í friði,
megi ljósið eilífa lýsa honum.
Amen.
