![]() |
| Heilög Guðsmóðir birtist Jóhannesi Diego |
Heilagur Jóhannes Diego (1474–1548), fæddur Cuauhtlatoatzin – „talandi örn“ – var frumbyggi af þjóð Chichimeca frumbyggja nálægt þeim stað sem nú er Mexíkóborg. Í honum sameinast einfaldleiki, trúmennska og sú sérstaka náð að verða boðberi móður Drottins til þjóðar sinnar. María birtist honum á hæðinni Tepeyac í desember árið 1531 og fól honum að bera biskupi skilaboð, sem á endanum urðu upphafið að einni merkustu umbreytingu á innleiðingu trúarinnar í Ameríku.
Æviágrip
Jóhannes Diego fæddist árið 1474 í Cuautitlán og upplifði fyrstu árin tíma mikilla átaka og sársauka, þegar land hans varð fyrir ágangi landvinningamanna Spánverja (Conquistadores). En með hinum hrottalega her komu líka hógværir og góðir bræður Fransiskusarreglunnar sem kenndu trúna með myndum og kærleika. Hann og eiginkona hans, María Lucía, sáu í þeim eitthvað nýtt sem fyllti hjörtu þeirra trausti, og báðu því um skírn. Með henni fengu þau ný nöfn og nýtt líf í Kristi.
Eftir að eiginkona hans lést hélt Juan Diego áfram að sækja fræðslu til munkanna á laugardögum. Morgun einn í byrjun desember 1531 bar svo hið ótrúlega við. Á leið til fræðslunnar heyrði hann undarlega fagran fuglasöng við Tepeyac-hæðina og síðan rödd sem kallaði á hann á kærleiksríkan hátt: „Juantzin!“ Þar sá hann unga konu klædda stjörnum prýddri skikkju og með svart belti – merki þess að hún væri barnshafandi. Hún mælti til hans á túngumáli hans, Nahuatl, og bað hann að bera skilaboð til Zumárraga biskups: að byggja kirkju á þessum stað svo hún mætti gefa fólki Son sinn.
Biskupinn efaðist, og Jóhannes taldi sig sömuleiðis vera óverðugan boðbera. En María staðfesti að hún hefði sjálf valið hann. Biskupinn krafðist tákns, og hún lofaði því. Daginn eftir veikist frændi Jóhannesar alvarlega og hann þurfti að sækja prest. Hann reyndi að sveigja framhjá hæðinni til að komast hjá Maríu, en hún fann hann og talaði þau orð sem lifa í hjörtum milljóna: „Er ég þá ekki hér, sem er móðir þín?“
Hún sagði honum að frændi hans yrði heill að nýju og bað hann að tína rósir á hæðinni – þar sem aðeins kaktusar uxu, og nú var vetur. En hæðin var þá orðin full af kastilískum* rósum. Hann batt þær í tilmu sína, sem var hin ofna yfirhöfn sem frumbyggjar báru, og flutti til biskups. Þegar hann opnaði yfirhöfnina féllu rósirnar til jarðar og á klæðinu birtist mynd Maríu sem ungri mestiza-stúlku „klæddri sólinni, með tunglið undir fótum sér“ (Opb 12,1). Biskupinn féll á kné – og skildi.
Eftir þetta tók trúin við sér með ótrúlegum hraða. Á aðeins átta árum, til 1539, tóku um níu milljónir frumbyggja við skírninni: ekki vegna þvingunar eða kúgunar, heldur vegna þess að María talaði tungumál þeirra og hafði valið einn þeirra sem boðbera sinn.
Jóhannes flutti í lítinn kofa við nýju kirkjuna á Tepeyac, helgaða Maríu af Guadalúpe, þar sem hann bjó í bæn, þjónustu og einfaldleika þar til hann lést árið 1548 – „maður engrar virðingar“, eins og hann sjálfur sagði, en sem varð kirkju sinni og þjóð ómetanlegt verkfæri náðar Guðs.
Tilvitnun
Orð Maríu til Jóhannesar Diego hafa orðið að sígildum játningarorðum fyrir Mexíkó og allan hinn kristna heim:
„Er ég þá ekki hér, sem er móðir þín?“
Í þessum orðum speglast bæði vernd og hlýja móður Guðs – og sú sannfæring að Guð nálgist manninn í kærleika, ekki ótta.
Lærdómur
Líf heilags Jóhannesar Diego minnir okkur á að Guð velur ekki hina voldugu heldur hina hógværu. María birtist honum ekki vegna menntunar hans eða stöðu, heldur vegna hjarta hans, sem var opið fyrir orðum Guðs.
Hann minnir okkur á þrjár mikilvægar dyggðir:
Trúfesti: Hann lét ekki af trausti til Maríu, þótt honum væri hafnað í fyrstu.
Auðmýkt: Hann taldi sig ekki verðugan boðbera, en tók samt við hlutverki sínu.
Þjónustu: Hann gaf síðustu æviár sín til að kenna, þjóna og biðja – nálægt stað kraftaverksins.
Trúarvakningin sem fylgdi birtingunum er einnig áminning um hvernig Guð vinnur í hjörtum fólksins sjálfs. Eitthvað gerðist á Tepeyac sem boðaði nýtt samband milli kristni og frumbyggja Ameríku, samband sem byggði á virðingu, menningu þeirra og persónulegri reynslu.
Bæn
Heilagi Jóhannes Diego, þú hógværi þjónn Maríu og trúfasti boðberi hennar.
Kenndu okkur að heyra rödd Guðs í hversdagslífi okkar, að bera skilaboð friðar og trúar með auðmýkt og kærleika, og treysta á vernd Maríu, móður okkar.
Lát Son hennar fæðast á ný í hjörtum okkar eins og þú boðaðir þjóð þinni.
Fyrir Krist, Drottin vorn. Amen.
-
* Kastilía er landsvæði á Spáni.
