31 desember 2025

Silvestrimessa, minning hl. Silvesters I, páfa - 31. desember

Heilagur Silvester I páfi vígir biskup

Silvestrimessa markar lok ársins og leiðir hugann að einu mestu umbreytingarskeiði í sögu kirkjunnar. Heilagur Silverster I var fyrsti páfi Rómar sem gegndi embætti sínu alfarið eftir að kristni hafði öðlast löglegt frelsi með Mílanótilskipuninni. Á hans dögum gekk kirkjan út úr skugga ofsókna inn í dagsljós opinberrar trúariðkunar. Þetta var tími endurreisnar, gleði og nýrrar ábyrgðar.

Æviágrip
Samkvæmt Liber Pontificalis, safni stuttra æviágripa páfa frá fyrstu öldum kirkjunnar var Silverster sonur Rómverja að nafni Rufinus. Hann var kjörinn páfi árið 314, skömmu eftir lát forvera síns, Miltíadesar. Páfatíð hans féll saman við stjórnartíð Konstantínusar mikla, keisara sem studdi kirkjuna og skapaði henni nýtt rými í hinu rómverska samfélagi.

29 desember 2025

Heilagur Tómas Becket, biskup og píslarvottur - minning 29. desember

Víg heilags Tómasar Becket í dómkirkjunni í Kantaraborg

„Fyrir nafn Jesú og til verndar kirkjunni er ég reiðubúinn að taka á mig dauðann.“ Þessi orð eru eignuð heilögum Tómasi Becket skömmu áður en hann var veginn í Kantaraborgardómkirkju. Hann var maður valds og áhrifa, vanur því að skipa fyrir. En hann dó sem þjónn Krists og píslarvottur – trúr trú sinni og staðráðinn í að verja frelsi kirkjunnar.

Æviágrip
Tómas Becket (f. 1118) var erkibiskup Kantaraborgar frá 1162 til dauðadags, 29. desember 1170. Hann er dýrlingur og píslarvottur bæði í Rómversk-kaþólsku kirkjunni og Anglíkönsku kirkjunni.

28 desember 2025

Hátíð hinnar heilögu fjölskyldu - sunnudagur 28. desember – lesár A

Hin heilaga fjölskylda

Á sunnudeginum eftir jól heldur kirkjan hátíð hinnar heilögu fjölskyldu: Jesú, Maríu og Jósefs. Hátíðin varð til snemma á 19. öld í Kanada og breiddist út til allrar kirkjunnar árið 1920. Markmið hennar er ekki að setja fram óraunhæfa fyrirmynd heldur að beina augum okkar að fjölskyldunni í Nasaret sem raunverulegu lífsmódeli, þar sem Guð mætir manninum í daglegu lífi – í óvissu, flutningum, ábyrgð og trausti.

Guðspjall dagsins (Mt 2,13–15; 19–23) leiðir okkur inn í sögu sem er fjarri því að vera kyrrstæð og friðsæl. Hún er saga hreyfingar, flótta og endurkomu, saga fjölskyldu sem lifir af með því einu að hlýða rödd Guðs í myrkri og óvissu.

27 desember 2025

Heilagur Jóhannes postuli og guðspjallamaður - hátíð 27. desember

Heilagur Jóhannes guðspjallamaður og svipmyndir úr ævi hans

Við sjáum hann fyrst við Galíleuvatn, ungan fiskimann sem situr með föður sínum og bætir net. Í hita og þunga dagsins kveður skyndilega við ákveðið kall: „Fylgið mér.“ (Sjá Mt 4,21–22; sbr. Mk 1,19–20.) Svarið er afdráttarlaust. Jóhannes skilur eftir bátinn, föður sinn og öryggi hins kunnuga. Á þessu augabragði glittir í djúpa viðurkenningu — hér er sá sem Ísrael hefur beðið eftir. Síðar mun hann horfa aftur til þessarar stundar, en leiðin reynist lengri og torsóttari en hann gat ímyndað sér. Hann sér Jesú biðja, kenna, sefa storma og reisa barn frá dauðum. Samt gat hann ekki vitað að hann myndi einn daginn standa við krossinn og horfa á vin sinn deyja. Þar, í myrkrinu, öðlast orð sálmsins nýja merkingu: „Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.“ (S.27,8)

26 desember 2025

Heilagur Stefán frumvottur - hátíð 26. desember

Heilagur Stefán frumvottur

Heilagur Stefán frumvottur stendur á mörkum tveggja heima. Í gær heyrðum við englasöng yfir jötu barnsins í Betlehem; í dag heyrum við steinana dynja utan borgar Jerúsalem. Andstæðan er sláandi – og samt er samhengið sterkt. Sá sem fæddist í auðmýkt, kallar nú fylgjendur sína til vitnisburðar sem getur kostað lífið. Í þessari spennu birtist Stefán: ekki fyrst og fremst sem hetja í mannlegum skilningi, heldur sem maður sem leyfði kærleika Guðs að móta orð sín, sýn og síðustu bæn.

Í Gleðileiknum guðdómlega lýsir Dante Alighieri dauða hins unga píslarvotts með djúpri lotningu: augu hans opnast upp á við, að „hliði himins“, meðan hann biður fyrir þeim sem drepa hann. Þetta er ekki veikleiki heldur styrkur – kærleikur sem vinnur sigur í sjálfri mótstöðu dauðans.

23 desember 2025

Heilagur Þorlákur biskup og verndardýrlingur Íslendinga - hátíð 23. desember

Heilagur Þorlákur biskup og verndardýrlingur íslensku þjóðarinnar

Á Þorláksmessu á vetri, 23. desember, minnist kirkjan heilags Þorláks biskups Þórhallssonar verndardýrlings íslensku þjóðarinnar, sem andaðist í Skálholti árið 1193.  Í fari hans mætast bæn, ábyrgð og djúp samfélagsleg samviska – og arfleifð hans hefur mótað bæði trúarlíf og menningu Íslendinga allt til okkar daga.

Æviágrip
Þorlákur fæddist árið 1133 á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Foreldrar hans voru Þórhallur Þorláksson bóndi og Halla Steinadóttir. Hann stundaði fyrst nám í Odda hjá Eyjólfi Sæmundssyni presti, gekk síðan í reglu heilags Ágústínusar og tók snemma vígslur. Síðar nam hann í París og í Lincoln á Englandi og dvaldi erlendis í sex ár. Eftir heimkomuna dvaldi Þorlákur um hríð hjá frændum sínum, varð síðan forstöðumaður kirkjulegrar þjónustu í Kirkjubæ á Síðu um sex ára skeið, áður en hann var kjörinn ábóti í Þykkvabæ í Álftaveri, fyrsta ágústínusarklaustri landsins. Hann var kjörinn biskup í Skálholti á Alþingi árið 1174, var vígður í Niðarósi 1178 og gegndi biskupsembætti allt til dauðadags 23. desember 1193.

20 desember 2025

Séra Jan Habets (1913-1994) dánardagur 20. desember

Séra Jan Habets

Í dag, 20. desember er dánardagur séra Jan Habets, sem lést árið 1994. Hann var látlaus prestur sem vann störf sín af trúmennsku og festu, án þess að leita sér áhrifa eða virðingar. Þeir sem kynntust honum muna eftir hlýju, glettni og hógværð.

Æviágrip
Jan Habets fæddist í Schaesberg 19. nóvember 1913. Schaesberg er í Limburg-héraði, austurhluta Hollands, skammt frá landamærum Þýskalands. Foreldrar hans ráku kornmyllu og hann átti tvær systur. Hann nam við menntaskólann í nágrannabænum Schimmert 1926–1932, og lagði síðan stund á undirbúningsnám til prestþjónustu. Árið 1933 gekk hann í reglu heilags Montforts og nam heimspeki í Oirschot í suðurhluta Hollands til 1935. Eftir eitt ár í kennslu hóf hann guðfræðinám og lauk því árið 1940 þegar hann var vígður til prests 3. mars.

17 desember 2025

Ættartölur Jesú hjá Matteusi og Lúkasi

Hinar fjórar ættmæður Jesú úr Matteusarguðspjalli og Jesúbarnið í fangi móður sinnar 

Í upphafi Matteusarguðspjalls (Mt 1,1–17) birtist ættartala Jesú sem rekur uppruna hans frá Abraham og niður til Jósefs, „brúðguma Maríu og fóstra Jesú“, og segir þar að faðir Jósefs hafi heitið Jakob. Í guðspjalli Lúkasar (Lk 3,23–38) birtist önnur ættartala sem fer hina leiðina, frá Jesú aftur til baka alla leið til Adams, og þar er Jósef fóstri Jesú sagður „sonur Helí“. Hér rekast þegar á tvö ólík nöfn rétt ofan Jósefs, sem vekur spurningu um hvernig ættbálkarnir tengjast.

Gyðinglegur erfðaréttur og hugsanlegir tveir feður

Kirkjufræðarar fyrstu alda bentu á að samkvæmt gyðinglegum lögum gat sami maður talist sonur tveggja karla, annars vegar líffræðilega og hins vegar að lögum. Í 5. Mósebók (5M 25,5–6) er mælt fyrir um svonefnda mágskyldu, þar sem bróðir látins manns á að eignast barn með ekkju hans og er barnið þá talið sonur hins látna. Samkvæmt þessu gæti Jósef hafa verið líffræðilegur sonur Jakobs eins og Matteus segir, en að lögum sonur Helí eins og fram kemur hjá Lúkasi.

16 desember 2025

Blessuð María af Englum – Karmelnunna Minning 16. desember

Blessuð María af Englum - Karmelnunna

Blessuð María af Englum, eða Marianna Fontanella, fæddist árið 1661 í Tórínó og ólst upp í stórri og trúaðri fjölskyldu þar sem líf barnanna og bænalíf runnu saman á náttúrulegan hátt. Hún sýndi frá unga aldri óvenjulega andlega næmni og innri þrá eftir Guði, og leit gjarnan til heilagra manna og kvenna sem fyrirmynda – ekki síst frænda síns, hins unga helgimennis Alósíusar Gonzaga sem hafði verið lýstur blessaður þegar árið 1605. Í Maríönnu bjó mildur eldmóður: hjarta sem leitaði stöðugt þess sem er meira, þess sem er Guðs. Köllun hennar markaði bæði líf hennar sjálfrar og Karmelreglunnar á Ítalíu fram á okkar daga.

Æviágrip
Marianna var níunda í hópi ellefu barna greifahjónanna Donato Fontanella og Maríu Tana. Hún stóð systkinum sínum fremst í kærleika og barnalegum ákafa, og sögur frá bernsku hennar sýna hve djúpt trúin hafði þegar snert hana. Sex ára gömul sannfærði hún yngri bróður sinn um að þau skyldu strjúka að heiman til að verða einsetumenn „í eyðimörkinni“. Ævintýrið rann þó út í sandinn þegar þau sváfu yfir sig morguninn sem átti að vera upphaf nýs lífs í heilagleika.

15 desember 2025

Heilagur Jóhannes af Krossinum – prestur, Karmelíti og kirkjufræðari - minning 14. desember

Heilagur Jóhannes af Krossinum, prestur, Karmelíti og kirkjufræðari

Heilagur Jóhannes af Krossinum er einn þeirra dýrlinga sem standa eins og fjall í sögu kirkjunnar: maður sem þekkti bæði dýpstu lægðir og hæstu andlegu hæðir, skáld sem orti meistaraverk í myrkri fangelsis, og kennari sem teiknaði upp þá andlegu vegferð sem leiðir manninn til sameiningar við Guð. Hann er helsti fræðimaður og mystíker Karmelreglunnar ásamt heilagri Teresu af Avíla, og nánasti samstarfsmaður hennar og samstofnandi hinnar „berfættu“ greinar reglunnar á Spáni. Síðustu orð hans við andlátið voru: „Í dag ætla ég að syngja tíðarnar á himnum.“

Æviágrip

Jóhannes fæddist árið 1542 í Fontiveros í Ávila og hlaut nafnið Juan de Yepes Álvarez. Foreldrar hans voru Gonzalo og Catalina, og fjölskyldan bjó við mikla fátækt. Gonzalo hafði verið afneitað af auðugum ættingjum sínum fyrir að ganga að eiga Catalinu konu af lægri stétt, og eftir að hann lést varð ástandið enn erfiðara. Catalina hélt milli borga í leit að stuðningi, en án árangurs. Að lokum settist fjölskyldan að í Medina del Campo, þar sem hinn ungi Juan fór í skóla, starfaði við umönnun sjúklinga á spítala og stundaði síðan nám hjá Jesúítum á árunum 1559–1563.

13 desember 2025

Heilög Lúsía - mey og píslarvottur - minning 13. desember

Heilög Lúsía

Heilög Lúsía er ein ástsælasta mey og píslarvottur fornkirkjunnar. Sagan um hana er varðveitt í píslarvottasögum, safni trúarhefða, frásagna og þjóðlegra sagna. Hún fæddist í Sýrakúsu á Sikiley undir lok þriðju aldar, inn í vel stæða og virta fjölskyldu, og ólst upp í kristinni trú á tímum þegar ofsóknir voru víða í rómaveldi. Faðir hennar lést snemma, og ólst Lúsía upp hjá móður sinni, Eutychiu, sem sinnti henni af kærleika og trúmennsku. Á bernskuárum varð henni ljóst í hjarta sínu að hún var kölluð til að helga líf sitt Guði í meydómi. Hún hélt þeirri ákvörðun leyndri og bar í brjósti þá óbifanlegu löngun að gera Krist að eina brúðguma lífs síns.

Móðir hennar hafði hins vegar lofað að gefa hana ungum, auðugum heiðnum manni. Lúsía þorði ekki að upplýsa móður sína um köllunina, heldur frestaði brúðkaupinu aftur og aftur, treystandi á að Guð myndi opna leið fyrir hana.

12 desember 2025

Alsæl María Mey frá Guadalupe – ljós Guðs sem brýst fram til hinna smæstu - minning 12. desember

Alsæl María mey í Guadalupe og Jóhannes Diego

Á dimmum vetrardegi getur verið erfitt að ímynda sér hvernig kærleikur Guðs geti náð að birtast í heimssögunni — en stundum kemur ljósið skyndilega, á óvæntum stað, til óvæntra manna. Þannig var það á hæðinni Tepeyac árið 1531, þegar María birtist ekki konungi, landvinningaherra eða lærdómsmanni, heldur fátækum, hógværum indíána á jaðri samfélagsins. Í þeirri birtingu opinberar Guð sannleika sem á sér eilíft gildi: að hann velur sér hin smæstu og talar inn í sögu þeirra. Og í gegnum þau talar hann til okkar allra.

Þetta gerðist á tíma þegar landsvæðið sem nefnt var Nýi-Spánn, núverandi Mexíkó var skekið af ofbeldi, mannréttindabrotum og niðurlægingu innfæddra þjóða. Þessar þjóðir urðu fyrir miklu órétti af hendi nýlenduyfirvalda, og margir nálguðust nýja trú í ótta fremur en von. Það er inn í þessar aðstæður sem María kemur — og hún mætir ekki nýlenduherra, heldur manni sem enginn hefði að óbreyttu hlustað á.

11 desember 2025

Heilög María Maravillas af Jesú – Karmelnunna - minning 11. desember

Heilög María Maravillas af Jesú

Heilög María Maravillas af Jesú (1891–1974) var ein af þeim sem lögðu sig mest fram um endurnýjun Karmelreglunnar á 20. öld. Líf hennar einkenndist af djúpri bæn, iðrun, hógværð og óbilandi trú á að Guð væri allt. Hún stofnaði eða endurreisti fjölda klaustra og leiddi kynslóð eftir kynslóð systra inn í hið hreina hjarta Karmels: lífið í innri samveru við Guð.

Æviágrip
Heilög María af Jesús — síðar María Maravillas af Jesú — fæddist í Madrid 4. nóvember 1891 inn í djúptrúaða fjölskyldu af fornum og virtum aðalsættum Spánar þar sem samfélagsleg staða, menntun og kristin trú fléttuðust saman. Þetta umhverfi mótaði uppeldi hennar bæði menningarlega og trúarlega. Hún var skírð María de las Maravillas Pidal y Chico de Guzmán. Faðir hennar, Luis Pidal y Mon, var markgreifinn af Pidal, háttsettur stjórnmálamaður og ráðherra á Spáni, og móðir hennar, Cristina Chico de Guzmán y Muñoz, kom úr ætt með kastilísk og andalúsísk tengsl. Þrátt fyrir að hafa alist upp við velmegun og virðingu aðalsins, leitaði hugur hennar frá unga aldri hins einfalda og hógværa lífs. Hún leit á allt sem hún fékk í vöggugjöf sem ábyrgð frekar en forréttindi, og þegar Guð kallaði hana til klausturlífs fagnaði hún því að verða „fátæk fyrir Krist“ og lifa eingöngu af náð hans.

10 desember 2025

Heilög María Mey frá Loreto – hefðin um hið heilaga heimili - minning 10. desember

Heilög María mey og hið heilaga hús

Minning heilagrar Maríu meyjar sem kennd er við húsið í Loreto er bundin hinni fornu arfleifð um Santa Casa – „húsið heilaga“ – sem samkvæmt aldagömlum vitnisburði er upprunalega húsið í Nasaret þar sem María ólst upp, meðtók boðskap engilsins og þar sem Jesús var alinn upp í fjölskyldu sinni. Saga Loreto-hússins er ólík öðrum helgisögum: hún er saga húss sem varð tákn um nærveru Guðs í mannlegu lífi.

Sögulegur bakgrunnur
Samkvæmt fornum heimildum var Santa Casa heimili Maríu, Jósefs og Jesú í Nasaret. Í þessu húsi hljómuðu orðin sem breyttu heiminum: „Heilagur andi mun koma yfir þig…“ (Lk 1,35). Þar tók Orð Guðs sér bólfestu í manneskju og gerði heimili einfalds fólks að helgum stað, þar sem eilífðin sneri sér að tímanum og Guð gekk í eigin persónu inn í mannlegt líf.

09 desember 2025

Heilagur Jóhannes Diego Cuauhtlatoatzin – boðberi Maríu á Tepeyac - minning 9. desember

Heilög Guðsmóðir birtist Jóhannesi Diego

Heilagur Jóhannes Diego (1474–1548), fæddur Cuauhtlatoatzin – „talandi örn“ – var frumbyggi af þjóð Chichimeca frumbyggja nálægt þeim stað sem nú er Mexíkóborg. Í honum sameinast einfaldleiki, trúmennska og sú sérstaka náð að verða boðberi móður Drottins til þjóðar sinnar. María birtist honum á hæðinni Tepeyac í desember árið 1531 og fól honum að bera biskupi skilaboð, sem á endanum urðu upphafið að einni merkustu umbreytingu á innleiðingu trúarinnar í Ameríku.

Æviágrip
Jóhannes Diego fæddist árið 1474 í Cuautitlán og upplifði fyrstu árin tíma mikilla átaka og sársauka, þegar land hans varð fyrir ágangi landvinningamanna Spánverja (Conquistadores). En með hinum hrottalega her komu líka hógværir og góðir bræður Fransiskusarreglunnar sem kenndu trúna með myndum og kærleika. Hann og eiginkona hans, María Lucía, sáu í þeim eitthvað nýtt sem fyllti hjörtu þeirra trausti, og báðu því um skírn. Með henni fengu þau ný nöfn og nýtt líf í Kristi.

08 desember 2025

Flekklaus getnaður Maríu meyjar - stórhátíð 8. desember

María getin án syndar bið þú fyrir oss er leitum athvarfs hjá þér


Hinn flekklausi getnaður Maríu – þegar draumur Guðs lifnar á ný

Stórhátíð hins flekklausa getnaðar Maríu meyjar 8. desember stendur á ákveðnum tímamótum í kirkjuárinu. Við erum í miðri aðventu, þegar kirkjan horfir fram til fæðingar Krists og spyr hvernig Guð kemur inn í heiminn á ný. Í þessari helgu bið kemur hátíð sem snýst ekki fyrst og fremst um boðunina eða fæðingu Jesú, heldur um uppruna kirkjunnar sjálfrar, um uppruna hinnar blessuðu móður okkar. Hinn flekklausi getnaður Maríu er hátíð þess helga sannleika og sem kirkjan hefur lýst yfir, að María hafi frá fyrsta andartaki tilveru sinnar verið umvafin náð, varðveitt frá erfðasynd og mótuð af kærleika Guðs til þess að verða móðir frelsarans.

06 desember 2025

Heilagur Nikulás biskup – verndari hinna smæstu og sæfarenda - minning 6. desember

Heilagur Nikulás í Bár, biskup í Mýru

Hinn 6. desember minnumst við heilags Nikulásar, biskups frá Mýru í Lýkíu, á suðvesturströnd núverandi Tyrklands, eins ástsælasta dýrlings kristninnar. Í kringum persónu hans hafa myndast ótal siðir og þjóðtrú, allt frá hollenskum Sinterklaas til jólasveinsins sem börn um allan heim þekkja í dag. En á bak við þessar þróuðu hefðir stendur skýr og kraftmikil mynd af manni sem lifði lífi hlýðni, örlæti og þjónustu við hina smæstu.

Heilagur Nikulás fæddist í Patara í Lýkíu á 3. öld og ólst upp á kristnu heimili þar sem trúin og kærleikurinn voru honum leiðarljós frá bernsku. Þegar hann missti foreldra sína ungur ákvað hann að verja arfi sínum til að lina neyð hinna fátæku, sjúku og varnarlausu. Þessi rótfesta í miskunn og gjafmildi mótaði allt hans líf og varð kjarni þjónustu hans síðar sem biskups.

Æviágrip
Nikulás var kjörinn biskup í Mýru og varð fljótt þekktur fyrir staðfasta framgöngu, réttsýni og þjónustulund. Í ofsóknum Díókletíanusar var hann hnepptur í fangelsi og þoldi harðræði, líkt og fjölmargir kristnir leiðtogar þess tíma, en lifði ofsóknirnar af. Hann tók þátt í fyrsta allsherjarþingi kristinnar kirkju í Níkeu árið 325 og lést 6. desember 343. Grafhýsi hans í Mýru varð snemma á miðöldum mikill pílagrímastaður.

05 desember 2025

Fides et ratio, trú og skynsemi – hinir tveir vængir mannsins

Trúin og skynsemin eru eins og tveir vængir sem mannshugurinn lyftir sér á til hugleiðingar sannleikans.


Þegar heilagur Jóhannes Páll II páfi gaf út bréfið Fides et Ratio árið 1998 var það um leið ákall og áminning. Hann sá að samtíminn upplifði miklar fræðilegar og tæknilegar framfarir, en að maðurinn væri þó oft ráðvilltur og á barmi merkingarleysis. Í þessu samhengi opnar hann bréfið með einni frægustu setningu sinni: „Trúin og skynsemin eru eins og tveir vængir sem mannshugurinn lyftir sér á til hugleiðingar sannleikans.“ Þessi mynd felur í sér kjarnann í þeim boðskap sem hann vill færa lesandanum: að trú og rök, opinberun og hugsun, séu ekki andstæður heldur samverkandi kraftar sem gera manneskjunni kleift að verða það sem hún er sköpuð til að vera.

Bréfið er sprottið af djúpum skilningi á mannlegri reynslu. Jóhannes Páll II kom úr heimi þar sem bæði nazismi og kommúnismi höfðu reynt að þagga niður sannleikann og gera manninn að hlekk í vélarafli hugmyndafræði. Hann hafði séð með eigin augum hvað gerist þegar sannleikurinn er sviptur virðingu og trúin útilokuð úr samfélaginu: manneskjan visnar, menning deyr og lífið verður varnarleikur í stað gjafar. Sú lífsreynsla gefur bréfinu sérstakan þunga. Hér er ekki skrifað úr fræðilegri fjarlægð, heldur af reynslu sem hefur mætt bæði ótta og von.

04 desember 2025

Heilagur Jóhannes af Damaskus prestur, munkur og kirkjufræðari - minning 4. desember

Heilagur Jóhannes af Damaskus

Heilagur Jóhannes af Damaskus er einn af hinum miklu kennurum austurkirkjunnar – munkur, sálmaskáld og guðfræðingur sem beitti ekki vopnum heldur pennanum til að verja hjarta kristinnar trúar: leyndardóm holdtekjunnar.

Æviágrip
Jóhannes fæddist í Damaskus um árið 675 og hét upphaflega Mansur, eftir afa sínum sem þjónað hafði keisaranum Heraklíusi. Eftir landvinninga múslima hélt fjölskylda hans áfram í þjónustu yfirvalda, þótt hún væri kristin. Sumir heimildamenn segja að Jóhannes hafi sjálfur starfað í stjórnkerfi kalífans þar til hann heyrði innri köllun, hljóðlátt en skýrt innri ákall Guðs.

Hann yfirgaf embætti og auðæfi og gekk í klaustrið Mar Saba við Jerúsalem, þar sem hann helgaði líf sitt bæn, föstu, ritun og íhugun. Þar varð hann vitni að vaxandi spennu innan kirkjunnar þegar myndbrjótadeilan hóf að ógna fornum helgimyndahefðum kristninnar.

03 desember 2025

Heilagur Frans Xavier prestur og Jesúíti - minning 3. desember

Heilagur Frans Xavier prestur og Jesúíti við skírn

Frans de Jasso fæddist árið 1506 í kastalanum Javier (Xabier eða Xavier) í  í austurhluta Navarra. Á þessum tíma var það svæði hluti hins baskneska menningarsvæðis. Heimili hans var baskneskumælandi, og nafnið „Xavier“ er dregið af baskneska orðinu etxe berri = „nýtt hús“. Hann tilheyrði lágaðalsfjölskyldu, var greindur, stoltur og metnaðarfullur ungur maður sem hélt til Parísar til að læra heimspeki og öðlast áhrif í veraldlegum efnum. Á þeim tíma kom einnig annar ungur maður frá Baskalandi, Íñigo López de Loyola, síðar heilagur Ignatíus af Loyola af baskneskri háaðalsætt og sem síðar varð stofnandi Jesúítareglunnar. Fyrstu árin leit Frans niður á þennan eldheita samherja sem hafði snúist til trúar eftir sjúkdómsreynslu og innri umbreytingu. En smám saman hrundu varnirnar: orðin úr guðspjöllunum sem Ignatíus miðlaði, og persónuleg einlægni hans, leiddu Frans til að spyrja sig stórra spurninga. Hvað stoðar það mann að vinna allan heiminn en bíða tjón á sálu sinni?

Með tímanum fann hann fyrir náð Guðs. Frans gekk til liðs við hinn nýja hóp Ignatíusar, tók upp lífsreglur Jesúíta með honum og gerðist prestur. Hann gekk í gegnum hinar andlegu æfingar heilags Ignatíusar, þar sem hann lærði að hlusta, greina anda og gefa sig algerlega vilja Guðs. Þessi reynsla undirbjó hann, eins og hann sjálfur sagði, „til alls þess sem Drottinn óskaði“.

02 desember 2025

Ef Guð er til hvers vegna er hann í felum?

Móses og þyrnirunninn logandi

Ein spurning hefur fylgt trúarlífi manna allt frá upphafi, og hún snertir leynd Guðs: Ef Guð er til, hvers vegna gengur sumum þá svo illa að skynja það? Hvers vegna birtist hann ekki með skýrari hætti, svo allir geti séð og trúað? Í kaflanum „Ef Guð er til, hvers vegna er hann í felum?“ í bók Jóhannesar Páls II, Yfir þröskuld vonarinnar, er þessari spurningu svarað með djúpum skilningi á eðli Guðs, eðli mannsins og þeirri heimsmynd sem mótar hugsun samtímans.

Heilagur Antóníus ábóti - minning 17. janúar

Heilagur Antoníus ábóti í Egyptalandi Í dag, 17. janúar, minnist kirkjan heilags Antóníusar ábóta, manns sem með lífi sínu mótaði kristið me...