30 september 2025

Heilagur Híerónýmus – prestur og kirkjufræðari - minning 30. september

Heilagur Híerónýmus, prestur og kirkjufræðari

Hinn 30. september minnist kirkjan heilags Híerónýmusar, eins helsta fræðimanns fornkirkjunnar. Hann var eldhugi að eðlisfari, en jafnframt maður bænar og íhugunar sem helgaði líf sitt því að þýða og skýra heilaga ritningu. Verk hans hafa mótað kristna hefð alla tíð síðan, og hann er einn þeirra manna sem kirkjan heiðrar sem kirkjufræðara.

Æviágrip
Heilagur Híerónýmus fæddist um árið 347 í borginni Strídon á landamærum Dalmátíu og Pannóníu. Nákvæm staðsetning er óþekkt í dag, en fræðimenn telja að hann hafi verið frá svæði sem nú tilheyrir Slóveníu eða norðurhluta Króatíu. Hann ólst líklega upp í fjöltyngdu umhverfi þar sem heimafólk talaði enn illirísk/dalmatísk mál, en frá barnæsku hans var latína aðalmálið. Það var tungumál menntunar, stjórnsýslu og trúarlegra rita í Rómaveldi, og það varð tungumál hans alla tíð. Hann hlaut góða menntun í Róm, þar sem hann nam bæði rómverskar bókmenntir og heimspeki. Í æsku sinni var hann lífsglaður og fjörmikill, en þegar hann sneri sér til trúarinnar af fullum hug tók hann upp strangan lífsstíl.

29 september 2025

Engladagur, hátíð hinna heilögu höfuðengla Mikaels, Gabríels og Rafaels - 29. september


Í dag, 29. september, fagnar kirkjan Engladegi, hátíð hinna heilögu höfuðengla Mikaels, Gabríels og Rafaels. Hátíðin hefur verið haldin frá fornu fari, þegar kristnir menn reistu kirkjur og helgidóma þeim til dýrðar og leituðu eftir vernd þeirra. Þeir eru þjónar Guðs og sendiboðar, sem ritningarnar kynna sem tákn um návist og kraft Drottins.

27 september 2025

Heilagur Vinsent af Páli, prestur og reglustofnandi - minning 27. september

Heilagur Vinsent af Páli

Heilagur Vinsent af Páli (1581–1660) fæddist í litlu þorpi sem heitir Pouy í Gascogne, í suðvesturhluta Frakklands. Fjölskylda hans voru smábændur og hann ólst upp við einfalt líf í sveitasamfélagi. Á þessum tíma gekk Frakkland í gegnum miklar þrengingar: stríð milli kaþólskra og huguenotta höfðu lagt mörg héruð í rúst, sjúkdómar og hungur voru algengir gestir, og alþýðufólk lifði án félagslegs öryggisnets.

Hl. Vinsent sýndi snemma gáfur og fékk að stunda nám fyrir tilstuðlan góðviljaðra manna sem tóku eftir honum. Hann var vígður prestur aðeins nítján ára gamall, en í fyrstu var hugur hans og metnaður fremur jarðbundinn: hann hugsaði fyrst og fremst um stöðu sína og tekjur. Með tímanum átti hann þó eftir að ganga í gegnum djúpa andlega reynslu sem breytti lífi hans.

25 september 2025

Faðir Róbert Bradshaw – dánardagur 23. september

Faðir Róbert Bradshaw fyrsti sóknarprestur Maríusóknar í Breiðholti

Hinn 23. september 1993 lést faðir Róbert Bradshaw á sjúkrahúsi í Krasnoyarsk í Síberíu. Hann var kaþólskur prestur sem þjónaði á Íslandi frá 1976 til 1992. Hér á landi var hann alltaf kallaður 'faðir Róbert'.

Róbert Bradshaw fæddist í Tipperary á Írlandi 6. júlí 1929. Hann nam guðfræði í Maynooth og var vígður til prestsþjónustu árið 1955. Hann starfaði fyrst á Írlandi, þjónaði síðar innflytjendum í London, en kom svo til Íslands árið 1976. Hann starfaði fyrst í Landakoti en fluttist 1978 í Breiðholt þar sem hann þjónaði í í 9 ár.  Hann bjó í þá nýbyggðu raðhúsi að Torfufelli 42 og lét innrétta kapellu í kjallaranum. Auk þess að vera prestsbústaður var þar einnig miðstöð starfs Maríulegíónarinnar, írskrar leikmannahreyfingar sem faðir Róbert starfaði mikið með. Stofnandi hreyfingarinnar Frank Duff hafði frumkvæði að því að fá föður Róbert til að starfa á Íslandi. 

Í Torfufelli 42 hélt faðir Róbert reglulega kynningarfundi um kaþólska trú og skipulagði starf Maríulegíónarinnar sem fólst í trúfræðslu og heimsókum til fólks aðallega. Fljótlega eftir komuna í Breiðholt hóf hann reglulegt messuhald í félagsmiðstöðinni Fellahelli. Síðar gekkst faðir Róbert fyrir fjársöfnun á Írlandi og fyrir það fé, og með stuðningi Bonifatiuswerk var Maríukirkja byggð við Raufarsel 4 og síðar safnaðarheimilið og prestbústaðurinn að Raufarseli 8. Eitt af síðustu verkum föður Róberts í Breiðholti var einmitt að vígja nýja safnaðarheimilið og prestbústaðinn. Við það tækifæri bað hann að þaðan mættu fara trúboðar til endimarka jarðarinnar. Frá Breiðholti lá leið föður Róberts til Akureyrar þar sem hann var sóknarprestur síðustu ár sín á Íslandi. 

Árið 1992 rættist gamall draumur föður Róberts um að fá að starfa í Rússlandi og fór hann þangað til starfa haustið 1992. Hann starfaði í Novosibirsk og Krasnoyarsk í Síberíu þar sem hann andaðist 23. september 1993, aðeins 64 ára gamall.

Tilvitnun
„Trúr til dauða“ var orðalag sem Torfi Ólafsson formaður Félags kaþólskra leikmanna notaði um föður Róbert í minningargrein* sem birtist í Morgunblaðinu 5. október 1993.  Faðir Róbert unni sér lítillar hvíldar og lagði allt líf sitt í þjónustu trúarinnar.

Lærdómur
Saga föður Róberts minnir okkur á að fagnaðarerindið á sér ekki landamæri. Hann fór þangað sem þörfin var mest –  til innflytjenda í London, til Íslands og til fámennra safnaða í Síberíu. Líf hans kennir okkur að trúfesti og einfaldleiki geta orðið vitnisburður sem lifir áfram í hjörtum fólks.

Bæn

Guð, þú sem kallar þjóna þína til að bera fagnaðarerindið út til endimarka jarðar, við þökkum þér fyrir föður Robert Bradshaw. Gefðu okkur sama kjark og trúfesti að fylgja köllun okkar í lífinu. Lát hann hvíla í friði í ljósi dýrðar þinnar. Amen.

--

* Morgunblaðið, 225. tbl. 5.10.1993, bls. 41

--

Pistill í vinnslu. 


23 september 2025

Heilagur Píus frá Pietrelcina - minning 23. september

Heilagur Píus frá Pietrelcina (Padre Pio)

Francesco Forgione fæddist 25. maí 1887 í Pietrelcina á Ítalíu, inn í fátæka sveitafjölskyldu. Frá unga aldri bar hann innra með sér löngun til að ganga í trúarreglu. Sextán ára að aldri gekk hann í nýliðaþjálfun Kapúsínareglunnar og tók sér nafnið bróðir Píus (Fra Pio). Hann var vígður til prests árið 1910 og flutti sex árum síðar í klaustrið Santa Maria delle Grazie í San Giovanni Rotondo. Þar helgaði hann sig sérstaklega skriftamálunum og sat við að hlýða skriftum klukkustundum saman dag hvern. Hápunktur þjónustu hans var þó altarisgangan. Sjálfur sagði hann um sig: „Ég er aðeins fátækur bróðir sem biður.“ Hann kallaði bænina „okkar besta vopn“ og „lykil til að opna hjarta Guðs“.

20 september 2025

Heilagur Andrés Kim Taegon, prestur, heilagur Páll Chong Hasang og félagar píslarvottar - minning 20. september

Hl. Andrés Kim Taegon, hl. Páll Chong Hasang og félagar, píslarvottar

Þegar lítill hópur kóreskra fræðimanna hóf að lesa kristin rit sem þaðan bárust frá Kína um 1777 kviknaði neisti sem erfitt er að skýra öðruvísi en sem verk Guðs. Vinur sagði vini frá, og trúin breiddist út. Þegar kínverskur prestur komst loks til Kóreu árið 1794 fann hann fjögur þúsund trúaða. Fimmtíu árum síðar voru þeir orðnir tíu þúsund, fátækir í sakramentum en ríkir í trú. Yfirvöld töldu trúna framandi og ofsóttu hina kristnu, en kærleikurinn og trúarstyrkurinn dvínaði ekki. 

Æviágrip Andrésar Kim
Heilagur Andrés Kim Taegon (1821–1846) var skírður fimmtán ára og lagði upp í langa ferð, tólf hundruð mílur til Makaó, til að læra til prests. Hann var vígður í Shanghai sem fyrsti kóreski presturinn. Heimkoma hans var ekki hættulaus, því flestir karlmenn í fjölskyldu hans höfðu dáið sem píslarvottar og kristni var bönnuð. Hann hvatti þó meðbræður sína með orðum sem lifa áfram: „Við höfum hlotið skírn og þann heiður að kallast kristnir menn. En hvað gagnar það okkur ef við erum kristnir í orði einu en ekki í verki?“ Árið 1846, aðeins tuttugu og fimm ára gamall, var hann tekinn af lífi. Rétt áður sagði hann böðlum sínum: „Ég dey fyrir Guð. Ódauðlegt líf mitt er að hefjast. Verðið kristnir ef þið viljið öðlast hamingju eftir dauðann.“

19 september 2025

Heilagur Janúaríus, biskup og píslarvottur - minning 19. september

Heilagur Janúaríus

Heilagur Janúaríus er verndardýrlingur Napólí og er minning hans tengd við eitt þekktasta trúarundur kaþólskrar kirkju: blóð hans sem varðveitt er í glerflöskum og verður fljótandi á hátíðardögum hans. Undrið er tákn um nærveru Guðs og trúarstyrk í hjarta fólksins.

Æviágrip
Janúaríus (á latínu Januarius, á ítölsku San Gennaro) var biskup í Benevento á Ítalíu á 3. öld. Hann var handtekinn á valdatíð Díókletíanusar keisara ásamt djáknum sínum og öðrum félögum. Þau voru dæmd til dauða fyrir trú sína og líflátin í Pozzuoli nálægt Napólí, líklega um árið 305. Fljótlega eftir dauða hans hófust pílagrímsferðir að gröf hans og hann varð einn vinsælasti dýrlingur Ítalíu.

18 september 2025

Heilagur Jósef frá Cupertino – fransiskani og furðuverk Guðs - minning 18. september

Hl. Jósef frá Cupertino, verndardýrlingur flugmanna og geimfara

Heilagur Jósef frá Cupertino (1603–1663) er meðal þeirra dýrlinga sem vekja hvað mesta undrun. Hann var fátækur fransiskani sem þótti einfaldur, en bar með sér djúpa trú, mikla auðmýkt og óvænta náðargáfu: í bæn og við altarisgöngu lyftist hann upp frá jörðu, svo aðrir sáu. Af þeim sökum hefur hann verið kallaður „fljúgandi munkurinn“ og er verndardýrlingur flugmanna og geimfara.

Æviágrip
Jósef fæddist árið 1603 í bænum Cupertino á Ítalíu. Fátækur og veiklulegur, með litla menntun og litla hæfileika, virtist hann ólíklegur til að fá inngöngu í trúarreglu. Honum var hafnað af kapúsínum, en loks tóku fransiskanarnir hann að sér. Þar þjónaði hann af einlægni í smáverkum og sýndi í öllu hógværð og hlýðni. Með tímanum kom í ljós að bæn hans var svo djúp að hann missti meðvitund um umhverfi sitt, og í algleymi trúarinnar hlaut hann svokallaðar levitationir – hann lyftist bókstaflega upp frá jörðu.

17 september 2025

Heilög Hildegard frá Bingen, mey og kirkjufræðari - minning 17. september

Hl. Hildegard frá Bingen, mey og kirkjufræðari

Í dag, 17. september, er minningardagur heilagrar Hildegard frá Bingen, meyjar og kirkjufræðara. Hér á eftir er þýðing á erindi Benedikts XVI páfa frá því hún var útnefnd kirkjufræðari hinn 7. október 2012. 14 dögum síðar, hinn 21 október var hún síðan tekin í tölu heilagra. Lesendur athugi að ekki er um samfellda og nákvæma textaþýðingu að ræða og á nokkrum stöðum eru innskot sett til að auðvelda íslenskum lesendum lesturinn og ná betra merkingarlegu samhengi. Um öll vafaatriði þýðingarinnar vísast að sjálfsögðu í frumtextann.

Hildegard frá Bingen
"Hildegard frá Bingen fæddist árið 1098 sennilega í Bermersheim í Rínarlöndum skammt frá Alzey. Hún náði 81 árs aldri og dó árið 1179 þrátt fyrir að hafa verið heilsuveil alla ævi. Hún fæddist inn í stóra aðalsmannafjölskyldu og foreldrar hennar tileinkuðu ævi hennar þjónustu við Guð. Þegar hún var átta ára gömul byrjaði formlegur undirbúningur hennar fyrir klausturlífið samkvæmt ákvæðum reglu Hl. Benedikts.

15 september 2025

Sókn Hins heilaga kross á Selfossi stofnuð á Krossmessu

Kirkja hins heilaga kross á Selfossi í byggingu í september 2025. Mynd af heimasíðu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi www.catholica.is

Í gær, sunnudaginn 14. september hélt Kaþólska kirkjan hátíðlega upphafningu hins heilaga kross - Krossmessu.  Séra Denis O'Leary sóknarprestur í Maríusókn í Breiðholti og á Suðurlandi prédikaði í sunnudagsmessu sem haldin var í kapellunni í Smáratúni 12 á Selfossi. Kapellan var þéttsetin en hún rúmar liðlega 30 manns. Guðspjallstexti dagsins var úr Jóhannesarguðspjalli, 3. kafla versin 13-17, þar sem segir: „Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf.“

13 september 2025

Heilagur Jóhannes Krýsóstómus – biskup, kirkjufræðari og „gullmunnur“ minning 13. september

Heilagur Jóhannes Krýsostómus biskup og kirkjufræðari

Heilagur Jóhannes Krýsóstómus fæddist árið 347 í Antíokkíu. Hann var einn mesti prédikari fornkirkjunnar og er talinn meðal kirkjufeðranna miklu. Nafn hans, Krýsóstómus, merkir „gullmunnur“ og vísar til þeirra eldheitu og lýsandi orða sem einkenndu boðun hans. Hann er einnig kirkjufræðari og helgihald kirkjunnar minnist hans sérstaklega í dag.

Æviágrip
Jóhannes ólst upp í heiðinni borgarmenningu Antíokkíu og hlaut menntun hjá hinum heiðna ræðumanni Líbaniusi. Svo mikill var hæfileiki hans til mælskulistar að Líbanius harmaði á dánarbeði sínu að kristnir menn hefðu „stolið“ Jóhannesi frá sér. Þeir hæfileikar sem áttu sér rætur í heimspeki og bókmenntum urðu hins vegar helgaðir Guði í bæn og föstu. Jóhannes leitaði einlífis og iðkaði bæn og ritningarnám í eyðimörkinni. Þar lærði hann að þekkja Drottin og festi í minni sínu mestan hluta Ritningarinnar.

12 september 2025

Að gæta orða sinna

Ógætileg orð geta umbreyst vegna iðrunar okkar og miskunnar Guðs

Í stefnuræðu við setningu Alþingis minnti forsætisráðherra þingmenn á að gæta orða sinna. Þessi áminning á sér djúpa rætur í kristinni hefð.

Biblían áréttar hvað orð geta haft mikil áhrif. Í Orðskviðunum stendur:

„Dauði og líf eru á valdi tungunnar, sá sem henni beitir mun og þiggja ávöxt hennar.“ (Orðskv. 18,21)

Jakobsbréfið segir að tungan sé „eldur, ranglætisheimur meðal lima okkar“ sem getur bæði blessað Guð og bölvað manninum (Jak 3,6–10). Lausmælgi, innantóm orð og kæruleysislegar athugasemdir geta sært djúpt og rýrt reisn annarra.

Blessuð María af Jesú - minning 12. september

Blessuð María af Jesú

Í dag, 12. september, minnist Karmelreglan hinnar blessuðu Maríu af Jesú (María López de Rivas), meyjar í karmelítaklaustrinu í Toledo á Spáni. Hún var nákomin heilagri Teresu af Jesú kirkjufræðara og vann með henni að endurnýjun Karmels á Spáni á 16.–17. öld. Hún afsalaði sér lífi í forréttindum og valdi einfaldleika, bæn og kyrrláta þjónustu. Í sumum samfélögum karmelíta er minningardagur hennar haldinn 11. september; María lést 13. september 1640. Í Árbók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er minningardagurinn skráður 12. september, og miðum við við það hér.

Æviágrip
María fæddist í Tartanedo árið 1560 og gekk inn í Karmel í Toledo 1577; hún vann klausturheit árið 1578. Hún þjónaði alla ævi í klaustrinu í Toledo, að undanskilinni stuttri sendiför 1585 til aðstoðar við stofnun klausturs í Cuerva. Heilög Teresa bar til hennar sérstakt traust, leitaði álits hennar og lét hana lesa handrit að verkum sínum; hún nefndi hana ástúðlega „letradillo“ („litla fræðimanninn“). María gegndi síðar hógværum og ábyrgum embættum (t.d. umsjón nýliða, forstöðukona) á erfiðum tímum fyrir Karmel.

11 september 2025

„Elskið óvini yðar“

Ræða Jesú á sléttunni: Elskið óvini yðar!

Í guðspjalli dagsins (Lk 6,27–36) höfum við eitt af þeim boðum Jesú sem skora á mannlega skynsemi:

„Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður,  blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður.  Slái þig einhver á kinnina skaltu og bjóða hina og taki einhver yfirhöfn þína skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.  Gef þú hverjum sem biður þig og ef einhver tekur frá þér það sem þú átt þá skaltu ekki krefja hann um það aftur.  Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera...Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.“

Þetta er kjarni hins nýja lífsstíls sem Jesús kallar lærisveina sína til: kærleikur sem gengur lengra en hefnd, lengra en hefðbundin réttlæting, lengra en mannlegar væntingar. Textinn er hluti af ræðu Jesú „á sléttunni“, þar sem hann snýr sér ekki aðeins til nánustu lærisveina sinna, heldur til fjöldans – allra þeirra fátæku og sjúku sem höfðu komið alls staðar að til að hlýða á hann og leita lækningar. Hugleiðing úr Lectio Divina frá Karmelreglunni setur þennan texta í samhengi:

08 september 2025

Fæðing heilagrar Maríu meyjar – hátíð 8. september


Fæðing hl. Maríu meyjar

Í dag, 8. september, fagnar kirkjan einni af elstu Maríuhátíðunum: fæðingu heilagrar Maríu meyjar. Þessi dagur er tákn vonar og gleði, þar sem með fæðingu hennar nálgast sú stund þegar Guð sjálfur kemur í heiminn í mannsmynd.

Saga hátíðarinnar
Uppruni hátíðarinnar tengist vígslu kirkju sem reist var til heiðurs heilagri Maríu í Jerúsalem á 6. öld. Hefðin segir að þar hafi staðið heimili foreldra Maríu, Jóakims og Önnu, og að María hafi fæðst þar. Í Róm var hátíðin tekin upp á 8. öld að frumkvæði Sergíusar I páfa (†701). Hún er þriðja hátíð „fæðingar“ í kirkjulegri helgidagaskrá Rómar: fæðing Jesú Krists á jólum, fæðing Jóhannesar skírara (24. júní) og fæðing Maríu meyjar (8. september).

05 september 2025

Heilög Móðir Teresa frá Kalkútta – minning 5. september

Heilög móðir Teresa frá Kalkútta stofnandi Kærleiksboðberanna (Missionaries of Charity)

„Ég kynni ykkur voldugustu konu heims.“
Þannig kynnti Pérez de Cuéllar, þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Móður Teresu frá Kalkútta þegar hún steig á svið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 26. október 1985. Sjálfri fannst henni þessi lýsing óþægileg. Hún kallaði sig frekar „blýantstubb í höndum Guðs.“

Æviágrip
Móðir Teresa fæddist 26. ágúst 1910 í Skopje, sem þá var hluti af Albaníu. Hún hlaut nafnið Agnes Gonxha. Foreldrar hennar ólu hana upp í trú og kærleika til fátækra. Árið 1928 fór hún til Dyflinnar á Írlandi og gekk í regluna Institute of the Blessed Virgin Mary (IBVM), betur þekkt sem Loreto-systur. Reglan var stofnuð af Mary Ward á 17. öld og fylgir reglu heilags Ignatíusar af Loyola, stofnanda Jesúítareglunnar. Loreto-systrurnar hafa um aldir helgað sig menntun og trúboði, og það var í gegnum þær sem hin unga María Teresa kynntist ignatískri hefð sem leggur áherslu á að „finna Guð í öllu“.

04 september 2025

Heilög Rósalía mey frá Palermo – minning 4. september

Heilög Rósalía frá Palermó

Heilög Rósalía (um 1125–1160) er verndardýrlingur borgarinnar Palermó á Sikiley. Hún er kölluð La Santuzza („litla heilaga“) og er minnst 4. september. Saga hennar er samofin sögu borgarinnar, sérstaklega þegar hún varð tákn vonar og verndar gegn plágu.

Æviágrip
Rósalía fæddist inn í aðalsfjölskyldu í Palermó. Hún ólst upp við hirðlíf, en ákvað ung að yfirgefa það og helga líf sitt Guði sem einsetukona. Hún dvaldi fyrst í helli nálægt borginni og síðan á fjallinu Pellegrino þar sem hún lifði í bæn og íhugun þar til hún lést aðeins 35 ára gömul.

Þótt líf hennar væri hljótt og fábrotið, varð hún þjóðardýrlingur síðar. Árið 1624, þegar borgarbúar Palermó voru þjakaðir af skæðri plágu, fundust líkamsleifar hennar í helli á Pellegrino-fjalli. Þær voru bornar í skrúðgöngu um götur borgarinnar, og sögur hermdu að plágan hafi horfið í kjölfarið. Frá þeim tíma hefur hún verið álitin verndardýrlingur borgarinnar og verið í miklum metum víðar á Sikiley.

03 september 2025

Heilagur Gregoríus mikli – páfi og kirkjufræðari - Minning 3. september

Heilagur Gregoríus mikli, páfi og kirkjufræðari

Heilagur Gregoríus mikli (um 540–604) var páfi á tíma mikilla atburða, og persóna hans markaði djúp spor í sögu kirkjunnar. Hann er talinn einn af hinum fjórum miklu kirkjufræðurum Vesturkirkjunnar ásamt hinum heilögu Ambrósíusi, Híerónýmusi og Ágústínusi. Hann var leiðtogi sem sameinaði skipulagshæfileika, djúpa trú og hjarta sem barðist fyrir fátæka, sjúka og þá sem ekki þekktu Krist.

Æviágrip
Gregoríus fæddist í Róm um árið 540 inn í aðalsætt. Faðir hans gegndi embætti borgarstjóra Rómar. Móðir hans, heilög Silvía, er í tölu heilagra, og einnig föðursystir hans, heilög Tarsilla. Þannig erfði hann ekki aðeins félagslegan sess heldur einnig djúpa trúarlega arfleifð. Æska hans var mörkuð þungbærum stórviðburðum sögunnar: árið 542 lagði plága þriðjung ítalskrar þjóðar í valinn og innrásir germanskra þjóðflokka færðu eyðileggingu yfir landið.

02 september 2025

Heilagur Zenon – píslarvottur frá Níkomedíu - Minning 2. september

Hl. Zenon ásamt sonum sínum, Concordíusi og Þeódórusi

Heilagur Zenon var rómverskur hermaður sem vitnaði með eigin lífi og dauða um trú sína á Krist. Hann varð píslarvottur ásamt sonum sínum í Níkomedíu þegar keisarinn Júlíanus fráhvarfsmaður reyndi að endurreisa heiðni sem ríkistrú.

Æviágrip
Zenon var kristinn hermaður og faðir tveggja sona, Concordíusar og Þeódórusar. Samkvæmt fornri latneskri helgisögu var hann handtekinn ásamt sonum sínum þegar Júlíanus fráhvarfsmaður (361–363) hóf að ofsækja kristna menn. Júlíanus hafði hafnað kristni og leit á hana sem ógn við einingu ríkisins. Hann vildi endurvekja fórnir og siði heiðninnar, og þeir sem neituðu að taka þátt voru dæmdir til dauða.

Zenon og synir hans játuðu Krist opinberlega og neituðu að afneita trú sinni. Þeir voru pyndaðir og loks teknir af lífi. Þannig urðu þeir dæmi um djúpa trúfesti og hugrekki fjölskyldu sem sameinaðist í píslarvætti.

01 september 2025

Heilög Teresía Margrét af hinu alhelga Hjarta Jesú - minning 1. september

Heilög Teresía Margrét af hinu alhelga Hjarta Jesú

Heilög Teresía Margrét af hinu alhelga Hjarta Jesú (1747–1770) var Karmelnunna sem lifði stutta ævi en skildi eftir sig djúp andleg áhrif. Hún fæddist sem Anna Maria Redi í Arezzo á Ítalíu og ólst upp í trúuðu og velmegandi umhverfi. Hún sýndi snemma guðræknislega köllun og gekk sextán ára gömul í Karmelregluna í Flórens.

Heilagur Ignatíus frá Antiokkíu – píslarvottur og Theophoros, „Guðsberi“ - minning 17. október

Heilagur Ignatíus frá Antiokkíu Heilagur Ignatíus, biskup frá Antiokkíu í Sýrlandi, var einn af fyrstu leiðtogum kristinnar kirkju eftir tím...