28 nóvember 2025

Hinar fimm leiðir Tómasar frá Akvínó - Quinque viae

Heilagur Tómas frá Akvínó (1225-1274)

Til að leita svara  við spurningunni:  „Hvort Guð sé til.“ An Deus sit

Heilagur Tómas frá Akvínó setti fram þessar fimm leiðir í Summa Theologiae (I, q. 2, a. 3). Þær eru hvorki „vísindalegar sannanir“ né rökleiðslur í nútímaskilningi, heldur rökrænar leiðir sem leiða hugann frá heimi reynslunnar til viðurkenningar á Guði. Hann sýnir með þeim að skynsemi mannsins geti, með íhugun á veruleikanum, komist að því að til sé æðsta orsök, uppspretta og markmið alls sem er til. Þessar leiðir eru ekki fullkomnun trúarinnar, heldur upphaf íhugunar sem opnar hugann fyrir nærveru hins guðlega í sköpuninni.

27 nóvember 2025

Heilög María Mey af Kraftaverkameninu – hátíð 27. nóvember

Heilög María mey af Kraftaverkameninu birtist heilagri Katrínu Laboure í kapellunni við Rue de Bac í París aðfaranótt 27. nóvember 1830 - „María getin án syndar bið þú fyrir oss er leitum athvarfs hjá þér“

Í dag fagna Lasaristar af reglu heilags Vinsents af Páli hátíð heilagrar Maríu meyjar af Kraftaverkameninu, sem tengist djúpt og órjúfanlega ævi hinnar auðmjúku reglusystur heilagrar Katrínar Labouré. Frá kapellu Dætra kærleikans af reglu heilags Vinsents af Páli við Rue du Bac 140 í París hefur þessi birting móður Jesú orðið að einni víðfeðmustu og áhrifamestu Maríuhefðum síðari tíma. Í miðju alls er systirin sem Kristur leiddi inn í náðarmikil samtöl við Guðsmóðurina – og ávextir þeirra eru enn að móta trúarlíf milljóna.

Svipmynd: Heilög Katrín Labouré
Katrín Labouré fæddist 2. maí 1806 í Fain-lès-Moutiers í Bourgogne-héraði, um 240 kílómetra suðaustur af París. Þorpið er smátt og umlukið akurlendum. Hún var 9. barnið af 11 systkinum. Þar ólst hún upp á sveitabýli föður síns og frá unga aldri sýndi hún djúpa trú. Heimilið var fátækt en hlýtt, og sveitalífið kenndi henni ábyrgð, vinnusemi og einfaldleika sem síðar varð að hjartslætti köllunar hennar. Móðir hennar lést þegar Katrín var níu ára, og strax á unga aldri leitaði hún huggunar hjá Maríu Guðsmóður. Hefðbundnar frásagnir segja að hún hafi sest við altarið og tekið í hendina á styttu af Maríu með orðum sem hafa fylgt henni allt til enda: „Héðan í frá ert þú móðir mín.“

25 nóvember 2025

Heilög Katrín frá Alexandríu – mey, fræðikona og píslarvottur 25. nóvember

Heilög Katrín frá Alexandríu, mey, fræðikona og píslarvottur. Hjólið minnir á píslarhjólið sem brotnaði og táknar sigur hennar yfir ranglætinu. Sverðið vísar til aftökunnar sem hún mætti með óbifanlegu hugrekki. Bókin táknar visku hennar og fræðilega menntun

Heilög Katrín frá Alexandríu hefur um aldir verið ein ástsælasta meyja og píslarvottur kristninnar. Samkvæmt fornum frásögnum var hún ættgöfug og vel menntuð ung kona í heimsborginni Alexandríu á fyrri hluta fjórðu aldar, þar sem heimspeki, trú, vísindi og menning mættust. Þar kynntist hún kristinni trú og tók við henni af heilum hug, og beitti síðan bæði rökvísi og fræðilegri menntun sinni til að vitna um Krist.

Þegar keisarinn Maxentíus, sem í hefð frásagnanna er oft kallaður Maximinus, bauð að færa heiðnum goðum fórnir neitaði Katrín. Hún vitnaði hiklaust um trú sína og mælti gegn óréttlátum boðum keisarans sem stönguðust á við samvisku hennar. Helgisagan segir að keisarinn hafi þá kallað saman fimmtíu heimspekinga til að hrekja mál hennar og leiða hana frá kristinni trú, en orð Katrínar sannfærðu þá. Samkvæmt frásögninni lét keisarinn þá lífláta heimspekingana og beindi síðan reiði sinni að Katrínu sjálfri.

24 nóvember 2025

Heilagur Andrés Dung-Lac og félagar, píslarvottar Víetnams - minning 24. nóvember

Heilagur Andrés Dung-Lac og félagar píslarvottar Víetnams

Í dag minnist kirkjan heilags Andrésar Dung-Lac og 116 samferðamanna hans, píslarvotta víetnömsku kirkjunnar. Þeir standa fyrir ótal fleiri: hundruð þúsunda trúaðra sem liðu píslarvættisdauða í Víetnam á 17.–19. öld. Þeir voru biskupar, prestar, trúboðar og leikmenn – foreldrar, hermenn, kennarar, konur og börn – sem létu lífið fyrir Krist í hrikalegum ofsóknum.

Á árunum 1625–1886, að undanskildum stuttum friðartímum, gerðu yfirvöld allt sem þau gátu til að ýta undir hatur gegn lærisveinum Krists. Eftir því sem ofsóknirnar jukust, jókst einnig staðfesta kristinna manna. Af þeim 117 sem síðar voru teknir í tölu heilagra voru 11 spænskir trúboðar úr Dóminíkanareglunni, 10 franskir trúboðar og 96 Víetnamar: 8 biskupar, 50 prestar og 59 leikmenn úr öllum stéttum samfélagsins. Margir voru foreldrar og fjölskyldufólk; aðrir trúkennarar, prestnemar eða hermenn.

Þrátt fyrir þessa sögu ofbeldis varð blóð þeirra sáðkorn trúarinnar: vitnisburður píslarvottanna varð grunnur sterkrar og lifandi kirkju í Víetnam sem heldur áfram að vaxa.

22 nóvember 2025

Jesús Kristur konungur alheimsins - stórhátíð síðasta sunnudag kirkjuársins

Jesús Kristur konungur heldur alheiminum í hendi sér

Á þessum síðasta sunnudegi kirkjuársins lítur kirkjan til Krists sem konungs alheimsins. Það kann að virðast undarlegt að hátíðin leiði okkur ekki inn í hásal eða ljóma heldur að krossinum á Golgata, þar sem myrkur, háð og veikleiki virðast ráða för. En einmitt þar, í djúpu myrkrinu, opinberast sú konunglega dýrð sem ekki byggist á valdi heimsins heldur á kærleika allt til enda. Jesús Kristur er konungur sem ríkir ekki með sverði heldur með sjálfsfórn, friði og miskunn.

Á fyrsta alþjóðlega kirkjuþinginu í Níkeu árið 325 var skilgreint að Kristur væri Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af sönnum Guði. Þetta var svar við villukenningu sem afneitaði guðdómi hans. Sextán öldum síðar, árið 1925, minnti Píus páfi XI á í bréfinu Quas Primas að eina lækning heims sem þjáist af óréttlæti og sundrungu sé að viðurkenna Krist sem konung hjartna og samfélags. Trúarhátíðir, sagði páfinn, nái til hjarta fólks á þann hátt sem engin fræðileg yfirlýsing gerir, því þær snerti bæði huga og hjarta og endurtaki boðskap sinn ár eftir ár.

20 nóvember 2025

Heilagur Rafael Kalinowski – prestur og Karmelíti - minning 20. nóvember

Heilagur Rafael Kalinowski prestur og Karmelíti

Heilagur Rafael Kalinowski (1835–1907), sem hlaut við skírn nafnið Jósef, var pólskur aðalsmaður, verkfræðingur, útlagi í Síberíu og síðar prestur í hinni Berfættu grein Karmelreglunnar. Líf hans er einstakur vitnisburður um fyrirgefningu, þrautseigju og friðargjörð í anda Karmels.

Æviágrip
Rafael, sem var skírður Jósef, fæddist í Vilníus 1. september 1835, sonur kaþólsks aðalsfólks, Andrésar Kalinowski og Jósefínu Polonska. Hann ólst upp í samfélagi sem var með djúpar rætur í trú og menningu, en sem hafði verið niðurlægt með skiptingu Póllands á 18. öld og lent undir ströngu valdi Rússlands. Í þessum hluta landsins var pólsk þjóðarvitund kerfisbundið bæld niður, og rússnesk stjórnvöld reyndu að innlima menningu, tungumál og stofnanir landsins í rússneska keisaradæmið.

17 nóvember 2025

Heilög Elísabet frá Ungverjalandi – verndari fátækra og þjáðra - minning 17. nóvember

Heilög Elísabet frá Ungverjalandi

Í dag minnist kirkjan heilagrar Elísabetar frá Ungverjalandi, sem lifði stuttu en djúpu lífi. Hún fæddist inn í konungsfjölskyldu, giftist ung landgreifanum Loðvíki af Þýringalandi (Thuringia) og ól honum þrjú börn. Þegar hún varð ekkja ung að árum brást hún ekki við í örvæntingu heldur með einlægri, fransískri fátækt og óþrjótandi elsku til hinna minnstu. Hún var tekin í tölu þriðju reglunnar frá Assísí og lauk lífi sínu aðeins 24 ára að aldri árið 1231, þegar heilagleiki hennar var þegar öllum ljós.

Æviágrip
Heilög Elísabet fæddist árið 1207, dóttir Andrésar, konungs Ungverjalands. Í Þýringalandi helgaði hún líf sitt bæn og íhugun þrátt fyrir að vera í miðju hins veraldlega umstangs hirðarinnar. Hún tók stöðu fátækra og sjúkra mjög nærri sér og lét reisa sjúkrahús þar sem hún sjálf þjónaði þeim sem veikastir voru. Eftir dauða Loðvíks eiginmanns síns tileinkaði hún sér lífstíl algerrar fátæktar, gerði sig að systur hinna bágstöddu og gaf í raun allt sem hún átti.

15 nóvember 2025

Heilagur Albert mikli – biskup og kirkjufræðari - minning 15. nóvember

Heilagur Albert mikli

Heilagur Albert mikli, oft kallaður Albertus Magnus, fæddist í Þýskalandi um árið 1200 og gekk í reglu dóminíkana. Hann var einn mesti fræðimaður miðalda, bæði í guðfræði og náttúruvísindum, og hafði áhuga á öllu sem snerti sköpun Guðs. Hann kenndi við háskólann í París og var lærifaðir Tómasar frá Akvínó, sem síðar varð einn áhrifamesti guðfræðingur kirkjunnar.

Albert tók virkan þátt í kennslu, rannsóknum og ritstörfum, og var þekktur fyrir afar víðtæka þekkingu sem náði yfir heimspeki Aristótelesar, náttúrufræði, líffræði, jarðfræði og stjörnufræði. Hann var skipaður biskup í Regensburg en sagði síðar af sér til að snúa aftur að lífi fræðimanns og kennara. Hann var hlýðinn, hógvær og féll auðveldlega inn í líf samreglusystkina sinna þrátt fyrir stórbrotna hæfileika. Hann lést í Köln 15. nóvember 1280.

14 nóvember 2025

Heilagur John Henry Newman - kirkjufræðari 1. nóvember 2025

Heilagur John Henry Newman kirkjufræðari

Á allra heilagra messu á þessu ári drottins 2025, hinn 1. nóvember síðastliðinn tilkynnti Leó páfi XIV að heilagur John Henry Newman hefði verið tekinn í tölu kirkjufræðara. Með því bætist hann í hóp hinna kennandi vitna kirkjunnar sem hafa með lífi sínu, ritum og anda varpað sérstökum ljóma á skilning okkar á trú og lífi. Að Newman sé nú formlega viðurkenndur sem kirkjufræðari er merkilegur atburður í samtímanum, sérstaklega í ljósi þeirrar djúpu hugsunar sem hann tileinkaði menntun, samvisku, þróun kenninga og virðingu fyrir persónu mannsins.

12 nóvember 2025

Heilagur Jósafat, biskup og píslarvottur - minning 12. nóvember

Heilagur Jósafat, biskup og píslarvottur

Heilagur Jósafat (1580–1623), sem upprunalega hét Jóhannes Kuntsevych, fæddist í vesturhluta Úkraínu á tímum mikillar ósamstöðu innan kirkjunnar. Enn var djúp gjá milli austur- og vesturkirkjunnar frá því á tímum klofningsins mikla árið 1054. Þegar hann var barn hafði lítið af samræðutilraunum milli þessara kirkjudeilda borið árangur, og margir rétttrúnaðarmenn litu á kirkjuna í Róm með tortryggni og fjandskap.

11 nóvember 2025

Heilagur Marteinn frá Tours biskup – minning 11. nóvember

Heilagur Marteinn frá Tours

Það eru fáir menn sem hægt er að lýsa með einni táknrænni athöfn, en heilagur Marteinn frá Tours tilheyrir þeim hópi. Sagan af því þegar hann gaf fátækum manni helming af skikkju sinni lýsir lífi hans í hnotskurn.

Marteinn fæddist um árið 316 í Pannoníu, núverandi Ungverjalandi, á jaðri hins síðrómverska heimsveldis. Faðir hans var liðsforingi og fékk land í Pavía á Ítalíu, þar sem fjölskyldan settist að. Foreldrarnir voru heiðnir, en Marteinn sýndi snemma áhuga á kristinni trú. Þegar hann var aðeins tólf ára þráði hann einlífi og bæn, en draumur hans um klausturlíf virtist fjara út þegar keisaraleg skipun barst um að hann skyldi ganga í herinn. Hann varð hermaður í Gallíu — svæðinu sem nú spannar mestan hluta Frakklands, Belgíu og vesturhluta Þýskalands — og þjónaði þar sem riddari keisarans.

Um árið 335 var hann á ferð á hesti þegar hann sá nánast nakinn betlara skjálfa í kuldanum. Hann tók upp sverð sitt, skar skikkju sína í tvennt og gaf manninum helminginn. Um nóttina birtist Kristur honum í draumi, klæddur í hálfa skikkjuna, og sagði við englana sem fylgdu sér: „Sjáið Martein, sem enn er óskírður hermaður, hann klæddi mig.“ Þessi sýn markaði líf hans. Hann var skírður næstu páska og þjónaði áfram í hernum í um tuttugu ár, þó hugur hans væri annars staðar.

07 nóvember 2025

Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550

Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elínar Magnúsdóttur, sem nefnd var bláhosa. Ari lést þegar Jón var enn barn, og ólst hann upp með móður sinni á Grýtu, kotbýli skammt frá Benediktínaklaustrinu að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Þar var ábóti Einar Ísleifsson, frændi Elínar, og hafa mæðginin líklega verið þar í skjóli hans. Þótt þröngt hafi verið í búi hjá þeim, studdi ábótinn frænda sinn og lét hann vinna fyrir mat sínum í klaustrinu. Þar hlaut Jón menntun og uppeldi í anda norrænnar fræðahefðar og kristilegrar menningar. Latínukunnátta hans þótti ekki mikil, en hann hafði góða þekkingu á norrænum ritum og skáldskap, og síðar setti hann börn sín til mennta í sama klaustri.

Árið 1507, þegar hann var 23 ára, gekk hann í þjónustu Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Sama ár var hann vígður til prests á Helgastöðum í Reykjadal og kynntist þar Helgu, sem varð fylgikona hans. Ári síðar fékk hann Hrafnagil, sem þótti eitt besta brauð í Eyjafjarðarsveit. Hann var fljótlega orðinn prófastur í héraðinu og jafnframt sýslumaður um tíma. Jón reyndist duglegur og úrræðagóður embættismaður, tryggur biskupi sínum og fór tvisvar utan í erindum hans. Þegar Gottskálk lést árið 1520 tók Jón við stjórn Hóla, og árið 1524 var hann kosinn biskup, 36 ára gamall.

06 nóvember 2025

Blessuð Jósefa Naval Girbés, meyja og þriðju reglu Karmelíti - minning 6. nóvember

Blessuð Jósefa Naval Girbes

Jósefa Naval Girbés fæddist 11. desember 1820 í bænum Algemesí í héraðinu Valencia á Spáni og lést 24. febrúar 1893. Hún var elst fimm systkina í trúaðri fjölskyldu. Sama dag og hún fæddist var hún skírð.

Þótt skólar væru ekki aðgengilegir á hennar tíma lærði hún að lesa og skrifa og náði mikilli færni í útsaumi. Þegar hún var þrettán ára missti hún móður sína og hjálpaði föður sínum við að ala upp yngri systkini sín á heimili ömmu sinnar. Hún tók á sig mikla ábyrgð og óx upp í bæn og trúfestu. Á átján ára aldri, undir andlegri leiðsögn sóknarprests síns, helgaði hún sig Guði með heiti um ævarandi meydóm.

Hún gekk í Þriðju reglu Karmels, sem síðar varð kölluð Leikmannaregla Karmels. Í heimabæ hennar, Algemesí, má enn sjá stórt myndverk af Maríu mey undir nafni Karmelsdrottningar, útsaumað í gulli og silki undir umsjón Jósefu.

04 nóvember 2025

Heilagur Karl Borrómeus biskup - minning 4. nóvember

Heilagur Karl Borrómeus

Þegar Ítalir tala um Miklavatn hafa þeir ekki í huga hið lítt þekkta Miklavatn í Flóanum í Árnessýslu. Nei þeirra Miklavatn er frekar hið víðfeðma Lago Maggiore á norðurhluta Ítalíu. Nafnið merkir bókstaflega „hið stóra vatn“, og það á fyllilega rétt á sér: Lago Maggiore er eitt af stærstu og fegurstu stöðuvötnum Ítalíu. Vatnið liggur á mörkum Sviss og Ítalíu þar sem héraðin Piemonte og Lombardía mætast. Umlukið fjöllum og gróðursælum hlíðum endurspeglar það í vatnsfletinum fornar byggðir og klaustur sem bera vitni um trú og menningu liðinna alda.

Við suðurenda vatnsins stendur bærinn Arona, fæðingarstaður hins heilaga Karls Borrómeusar. Þar, yfir húsþökum bæjarins og blikandi vatninu, gnæfir 35 metra há stytta af dýrlingnum sem reist var á 17. öld. Hún sýnir heilagan Karl, erkibiskupinn í Mílanó í þeirri mynd sem einkenndi hann best — þegar hann blessaði. Ítalir kalla styttuna Sancarlone, „stóri Karl“. Styttan er hol að innan og hægt er að ganga upp um stiga og horfa út um augun yfir vatnið og fjöllin. Það er eins og að sjá heiminn gegnum augu hans — augum auðmýktar og kærleika. Sú sýn er hluti af andlegri arfleifð Karls Borrómeusar. En hver var þessi maður sem Ítalir sýndu þennan mikla heiður?

03 nóvember 2025

Heilagur Marteinn frá Porres - minning 3. nóvember

Heilagur Marteinn frá Porres

Heilagur Marteinn frá Porres fæddist í fátækt í Lima í Perú árið 1579. Hann var sonur spænsks aðalsmanns og þeldökku frelsingjakonunnar Önnu Velásquez, sem var hugsanlega einnig af ætt frumbyggja. Faðirinn yfirgaf þau snemma og viðurkenndi ekki son sinn fyrr en átta árum síðar. Móðirin barðist ein við að sjá fyrir börnum sínum. Marteinn var aðeins tólf ára þegar hann var sendur í nám og vinnu til rakara og skurðlæknis, þar sem hann lærði að klippa hár og hjúkra sjúkum.

Nótt eftir nótt fann hann frið í bæninni og fór að verja sífellt meiri tíma í samtal við Guð. Hann þráði að þjóna Guði, en sem fátækur, dökkur drengur átti hann enga möguleika á að gerast munkur í landi þar sem lögin bönnuðu afkomendum afrískra þræla að ganga í trúarreglu.

02 nóvember 2025

Allra sálna messa – 2. nóvember

Litur: Fjólublár. Messutexti: Jóh 6, 37–40 „Allt sem faðirinn gefur mér mun koma til mín og þann sem til mín kemur mun ég alls eigi brott reka.“

Á Allra heilagra messu í gær horfðum við upp til himins og minntumst þeirra sem þegar lifa í ljósi Guðs. Í dag, á Allra sálna messu, beinum við hugum vorum til þeirra sem enn eru á leið til fullkomins ljóss — hinna framliðnu sem við biðjum fyrir í trú og von.

01 nóvember 2025

Allra heilagra messa – stórhátíð 1. nóvember

„Hjálpræðið kemur frá Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Op.7,10. 

Í dag, 1. nóvember, fagnar kirkjan Allra heilagra messu — hátíð allra þeirra sem hafa gengið veg trúarinnar án þess að nöfn þeirra séu formlega meðal hinna þekktu dýrlinga. Þetta er dagur hins hljóða heilagleika, þeirra sem elskuðu, báðu, þjáðust, vonuðu og þjónuðu án þess að nokkur reisti þeim minnisvarða. Þeir eru afar margir, og líf þeirra myndar ósýnilega brú milli himins og jarðar.

Hátíðin á rætur sínar að rekja allt aftur til fyrstu alda kirkjunnar, þegar minnst var píslarvotta sem enginn þekkti með nafni. Seinna varð þessi dagur að sameiginlegri hátíð allra heilagra. Hún minnir okkur á að vegur heilagleikans er ekki frátekinn fyrir örfáa, heldur opinn öllum sem svara kærleika Guðs með trúfesti í hversdagslífi sínu.

Blessuð María af Englum – Karmelnunna Minning 16. desember

Blessuð María af Englum - Karmelnunna Blessuð María af Englum, eða Marianna Fontanella, fæddist árið 1661 í Tórínó og ólst upp í stórri og t...