31 október 2025

Herra Hinrik Frehen biskup - dánardagur 31. október 1986

Hinrik biskup Frehen

Í dag minnumst við herra Hinriks Hubert Frehen, fyrsta biskups Reykjavíkur­biskupsdæmis, sem lést 31. október 1986. Með skipun hans árið 1968 hófst nýtt tímabil í sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, þar sem biskupsdæmið í Reykjavík tók við af hinu forna nafnbiskupsdæmi Hóla.

Herra Hinrik Frehen fæddist 24. janúar 1917 í Waubach í Hollandi og gekk í Montfort-regluna (S.M.M.) árið 1937. Hann var vígður prestur 18. desember 1943 og lauk doktorsprófi við háskólann í Louvain í Belgíu með ritgerð um kristfræði Pierre de Bérulle kardínála. Hann gegndi ýmsum trúboðs- og kennslustörfum innan reglunnar áður en hann var skipaður biskup á Íslandi 18. október 1968.

30 október 2025

Absalon erkibiskup – guðsmaður, ríkisráðsherra og faðir Kaupmannahafnar - 30. október

Absalon erkibiskup - faðir Kaupmannahafnar

Í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags stóð allt frá árinu 1875 og fram til ársins 1970 nafnið „Absalon“ við daginn 30. október. Líklega hefur þetta nafn ekki sagt Íslendingum mikið og jafnvel þeir sem leituðu í kirkjuleg dagatöl fundu engan dýrling með því nafni. Hvers vegna skyldi þá þessi Absalon hafa ratað í íslenska almanakið? Svarið er að finna í sögu Danmerkur. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags var í fyrstu þýðing eða staðfærsla dansks almanaks, sem innhélt bæði kirkjulega og þjóðlega minningardaga Dana. Þar með skýrist hvers vegna nafn eins og nafn Absalons – manns sem Íslendingum var að mestu óþekktur – birtist 30. október í íslensku dagatali árið 1875 og hélst þar í árlegum útgáfum þess allt til ársins 1970. Absalon var ekki dýrlingur í formlegum skilningi, heldur erkibiskup og einn af þeim sem lögðu grunninn að þjóðríkjum hinna norrænu miðalda – maður sem tengdi saman trú og vald, kirkju og ríki, menningu og stjórnvald.

28 október 2025

Heilagir Símon og Júdas Taddeus postular - hátíð 28. október

Heilagir Símon „vandlætari“ og Júdas Taddeus postular

Í guðspjalli dagsins Lk. 6,12-19, sjáum við Jesú ganga upp á fjall til bænar, og velja sér því næst tólf postula. Eftir nótt á bæn til Föðurins gengur hann niður af fjallinu og hittir fjölda fólks sem vill hlýða á hann, snerta hann og læknast. Þar með hefst það verkefni sem hann treystir postulunum fyrir: að miðla þessari læknandi náð áfram út í heiminn.

24 október 2025

Að lesa í náttúruna og tímann - Hugleiðing út frá guðspjalli dagsins – Lúk 12, 54–59


Guðspjall dagsins er ákall Jesú til dómgreindar: 

„54 Jesús sagði og við fólkið: „Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri segið þér jafnskjótt: Nú fer að rigna. Og svo verður. 55 Og þegar vindur blæs af suðri segið þér: Nú kemur hiti. Og svo fer. 56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða. Hvers vegna kunnið þér ekki að meta það sem nú er að gerast? 57 Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður hvað rétt sé? 58 Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig réttarþjóninum og hann varpi þér í fangelsi. 59 Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.“ 

Hann minnir á að við getum lesið í skýin og vindinn, en gleymum að lesa í lífið sjálft. Jesús kallar menn til að greina merki tímans — að sjá hvar Guð talar í náttúrunni, í sögunni og í hjarta mannsins.

23 október 2025

Séra Lambert Terstroet SMM (1912–2003) - 23. október

Séra Lambert Terstroet, (tölvugerð mynd)

Í dag, 23. október, minnumst við séra Lamberts Terstroet, prests af reglu heilags Montforts (SMM), sem lést á þessum degi árið 2003. Hann fæddist 19. maí 1912 í Hollandi og gekk ungur í Reglu heilags Louis-Marie Grignion de Montfort.

Séra Lambert var doktor í guðfræði og sérfróður um Guðsmóðurina. Hann var lika fjölfróður, víðlesinn, hafði ferðast víða og hafði haldið fyrirlestra um Heilaga ritningu í um sextíu löndum. Hann var glaðlyndur, hlýr og andríkur prestur sem hafði einstakt lag á að vekja trú og gleði í hjörtum þeirra sem áttu leið á fund hans.

22 október 2025

Heilagur Jóhannes Páll II páfi - minning 22. október

Heilagur Jóhannes Páll II páfi

Karol Wojtyła, sem fjölskylda og vinir kölluðu Lolek, fæddist árið 1920 í bænum Wadowice í Póllandi. Hann kynntist alvöru lífsins snemma á ævinni. Móðir hans lést þegar hann var níu ára og eldri bróðir hans þegar hann var tólf. Faðir hans, sem var maður djúprar trúar og bænaiðkunar, kenndi honum að leita til Heilags Anda. Þessi trú varð honum stoð og skjól þegar hann missti föður sinn árið 1941 – þá 21 árs gamall. Í þeirri sorg varð honum ljós sú köllun sem mótaði allt hans líf: Guð var að kalla hann til að verða prestur.

Æviágrip
Á meðan Þjóðverjar hernámu Pólland starfaði hinn ungi Karol sem verkamaður og í efnaverksmiðju, og kynnist þar bæði hörku lífsins og reisn vinnandi fólks. Á kvöldin tók hann þátt í leynilegum leiksýningum, og síðan í leynilegu guðfræðinámi í Kraká, þar sem hann undirbjó sig til prestsþjónustu. Hann var vígður til prests árið 1946 og lauk doktorsprófi í Róm.

21 október 2025

Nýir dýrlingar – tákn vonar og trúfesti

Páfi ávarpar þátttakendur eftir messuna (Mynd: Vatican news)

Síðastliðinn sunnudag, hinn 19. október 2025 tók Leó páfi XIV tók sjö karla og konur í tölu heilagra við hátíðlega messu á Péturstorginu. Í ávarpi sínu eftir messuna lýsti hann þeim sem „skærum táknum vonar“ og dæmum um þá algildu köllun sem allir kristnir menn eiga hlutdeild í – kölluninni til heilagleikans.

„Samfélag kirkjunnar nær yfir allt rými og allan tíma,“ sagði páfinn. „Í hverju tungumáli og hverri menningu erum við ein þjóð Guðs, líkami Krists og lifandi musteri Heilags anda.“

18 október 2025

Heilagur Lúkas, guðspjallamaður - verndardýrlingur lækna og listamanna - minning 18. október

Heilagur Lúkas guðspjallamaður

Heilagur Lúkas er höfundur þriðja guðspjallsins og Postulasögunnar. Páll postuli kallar hann „hinn elskaða lækni“ (Kól 4,14). Samkvæmt Eusebiosi kirkjusagnaritara var Lúkas ættaður frá Antíokkíu og heiðingi að uppruna. Þetta skýrir þá sérstöku næmni sem hann sýnir fyrir heiðingjum og utangarðsfólki í frásögnum sínum.

Æviágrip
Við vitum ekki nákvæmlega hvenær Lúkas tók trú, en af Postulasögunni má ráða hvenær hann gekk til liðs við Pál. Fyrir 16. kafla er frásögnin í þriðju persónu, en eftir sýn Páls af manni frá Makedóníu færist frásögnin í fyrstu persónu fleirtölu: „leituðum við færis að komast til Makedóníu“ (Post 16,9–10). Það bendir til þess að Lúkas hafi þá gengið til liðs við Pál og síðan fylgt honum um Samóþrakíu, Neapólis og Filippí. Síðar verður frásögnin aftur í þriðju persónu og virðist Lúkas þá hafa orðið eftir í Filippí. Sjö árum síðar liggja leiðir þeirra aftur saman og Lúkas fer með Páli til Míletusar, Tróas, Sesareu og Jerúsalem. Þegar Páll er síðan í haldi í Róm um árið 61 stendur Lúkas við hlið hans. Í lok fangelsisvistarinnar skrifar Páll: „Lúkas er einn hjá mér“ (2Tím 4,11).

17 október 2025

Heilagur Ignatíus frá Antiokkíu – píslarvottur og Theophoros, „Guðsberi“ - minning 17. október

Heilagur Ignatíus frá Antiokkíu

Heilagur Ignatíus, biskup frá Antiokkíu í Sýrlandi, var einn af fyrstu leiðtogum kristinnar kirkju eftir tíma postulanna. Hann kallaði sjálfan sig Theophoros – „Guðsbera“ – því hann taldi sig bera Krist í hjarta sínu og í líkama sínum. Hann var samtímamaður og vinur heilags Pólýkarps frá Smyrnu, sem samkvæmt sögnum Íreneusar frá Lyon var lærisveinn heilags Jóhannesar postula. Þannig stóð Ignatíus í beinum andlegum tengslum við arfleifð postulanna og varð lifandi brú milli Jóhannesar postula og guðspjallamanns og hinnar uppvaxandi kirkju annarrar aldar.

16 október 2025

Heilög Heiðveig, reglusystir og hertogaynja Póllands - minning 16. október

Heilög Heiðveig, reglusystir og hertogaynja Póllands

Heilög Heiðveig af Sílesíu 1174–1243, fæddist í Bæjaralandi og var gefin ung að aldri Hinriki hertoga af Neðri-Sílesíu, sem kallaður var „hinn skeggjaði“. Þau hjón eignuðust sex börn og hjónaband þeirra einkenndist bæði af ábyrgð og trúarlegri samstöðu.

Heiðveig fylgdi eiginmanni sínum í stjórnunarstörfum, en bar um leið í hjarta sér djúpa samkennd með hinum fátæku og þjáðu. Hún lét ekki tign sína eða auðæfi fjarlægja sig frá þeim, heldur sýndi auðmýkt í orði og verki. Hún var ekki of stolt til að klæðast gömlum fötum og notuðum skóm. Hún vildi ekki greina sig um of frá fátækum, því, eins og hún sagði sjálf: „Þau eru meistarar okkar.“

15 október 2025

Heilög Teresa af Jesú, Karmelnunna og kirkjufræðari - minning 15. október

Heilög Teresa af Jesú, Karmelnunna og kirkjufræðari

Heilög Teresa af Jesú, einnig nefnd Teresa frá Ávila, er ein skærasta stjarna Karmelreglunnar og allrar kristinnar dulhyggju. Hún var kona sem sameinaði djúpa trú, mikla skáldskapargáfu og óvenjulegan kjark. Í henni bjó eldur kærleikans sem hreinsaði, lýsti og umbreytti. Líf hennar var eins og ferðalag inn í hinn innri kastala sálarinnar — leið sem hún lýsti af skýru innsæi og mannlegri hlýju.

Æviágrip
Teresa de Cepeda y Ahumada fæddist í Ávila á Spáni árið 1515, dóttir Gyðings sem hafði tekið kristna trú og annarrar konu hans. Hún ólst upp í glaðværri fjölskyldu og elskaði riddarasögur og ævintýri. En eftir að hún missti móður sína og síðar elskaðan bróður sinn varð trúarleg leit hennar dýpri. Hún gekk í karmelklaustur í Ávila árið 1536, þrátt fyrir andstöðu föður síns, og sór klausturloforð 3. nóvember 1537.

14 október 2025

Heilagur Kalixtus I – Páfi og píslarvottur - minning 14. október

Heilagur Kalixtus I páfi og píslarvottur

Heilagur Kalixtus I (eða Callixtus) var páfi frá árinu 217 til 222. Hann fæddist sem þræll í Róm og gekk í gegnum miklar þjáningar áður en hann varð leiðtogi kirkjunnar. Hann var dæmdur í námuþrælkun á Sikiley, en losnaði úr ánauð og var tekinn í þjónustu af Zephyrinusi páfa. Með tímanum varð hann einn áhrifamesti skipuleggjandi kristinna grafreita, og það var hann sem stofnaði hina víðfrægu katakombu páfanna við Via Appia, sem enn í dag ber nafn hans – Katakomba Kalixtusar. Þar voru margir fyrstu páfarnir jarðsettir, og þar má enn sjá einfaldar grafir sem bera vitni um trúfesti og von hinna fyrstu kristinna manna.

12 október 2025

Leó páfi XIV: Kærleikur til fátækra má ekki aðskiljast frá trúnni


Postullegt vakningarbréf Dilexi te kallar kirkjuna til nýrrar samkenndar

Á minningardegi heilags Frans frá Assisí, 4. október 2025, gaf Leó páfi XIV út sitt fyrsta postullega vakningarbréf, sem ber titilinn Dilexi te – „Ég hef elskað þig“ (Opb 3,9).

Bréfið er í beinu framhaldi af bréfi Páfa Frans, Dilexit nos, um kærleika Hjarta Jesú, og byggir á drögum sem hinn látni páfi hafði undirbúið síðustu mánuði ævi sinnar. Leó páfi gerir bréfið að sínu, bætir við hugleiðingum um trú og fátækt og leggur áherslu á að kærleikur til Guðs og kærleikur til fátækra séu óaðskiljanleg.

07 október 2025

Rósakransmessa – hl. María mey og sigur trúarinnar - minning 7. október

Heilög María mey með rósakranstalnaband

Rósakransmessan, sem haldin er 7. október, er tileinkuð Maríu mey undir heitinu María rósakransins. Hátíðin á rætur sínar bæði í djúpri bænahefð Dóminíkusarreglunnar og í sögulegum atburði sem markaði tímamót í sögu Evrópu. Píus V páfi hvatti árið 1571 kristið fólk til að biðja rósakransinn fyrir friði og vernd gegn yfirvofandi ógn Ottómanaveldisins. Þegar sigur flotans við Lepanto varð staðreynd hinn 7. október sama ár, eignaði hann hann fyrirbæn Maríu meyjar og gerði daginn að hátíð hennar.

Svipmynd: Rósakransinn – bæn í hringrás lífsins
Rósakransinn er ekki aðeins talnabandsbæn heldur íhugun leyndardóma lífs og trúar. Heilagur Dóminikus, stofnandi Dóminíkusarreglunnar á 13. öld, var sagður hafa fengið rósakransinn í sýn frá Maríu mey sem bænaleið til að endurnýja trú fólks. Hann kenndi mönnum að íhuga líf Krists með því að tengja hverja bæn við atburð úr guðspjöllunum – fæðingu, krossfestingu og upprisu. Þannig varð rósakransinn að andlegri „messubók hinna fátæku“ sem jafnvel ólæst fólk gat notað til að íhuga helstu leyndardóma trúarinnar.

06 október 2025

Heilagur Brúnó prestur, ábóti og stofnandi Karþúsareglunnar - minning 6. október

Hl. Brúnó og félagar, stofnendur Karþúsareglunnar 
6. október er minning heilags Brúnós, lærdómsmanns og íhugunarmunks sem leitaði Guðs í þögn og kyrrð fjallanna. Hann er stofnandi Karþúsareglunnar, einnar elstu og ströngustu reglna kirkjunnar, þar sem samfelld íhugun, þögn og bæn eru það sem lífið hverfist um. Reglan hefur varðveitt anda hans órofa í nær þúsund ár, og áhrif hans má greina jafnvel í þeim hreyfingum sem leggja áherslu á kyrrð og bæn í samtímanum — ekki síst innan Karmelreglunnar.

04 október 2025

Heilagur Frans frá Assisi – reglustofnandi og vitni um fagnaðarerindið - minning 4. október

Heilagur Frans frá Assisi


Í huga margra er heilagur Frans frá Assisi tákn hinnar hreinu trúar sem birtist í fátækt, auðmýkt og ómældri gleði yfir sköpun Guðs. Hann átti sér engan annan auð en vináttu við Krist, og var í lífi sínu og vitnisburði eins konar „Alter Christus“ – spegilmynd Frelsarans. Hann kenndi að við eigum ekki aðeins að tilbiðja Guð, heldur einnig að elska bræður okkar og systur, alla menn og alla skapaða hluti.

Æviágrip
Heilagur Frans fæddist árið 1182 í Assisi, sonur efnaðs klæðakaupmanns, Pietro di Bernardone, og móður hans Pica di Bourlemont. Í æsku var hann afar metnaðargjarn og tók þátt í stríði Assisi gegn Perugia. En stríðsreynslan og veikindi eftir heimkomuna hreyfðu hjarta hans djúpt. Í draumi heyrði hann rödd: „Hvers vegna þjónar þú þjóni en ekki Meistara?“ og líf hans tók að breytast.

03 október 2025

Minning hinna heilögu verndarengla – 2. október

Verndarengill

Hinn 2. október heldur kirkjan upp á sérstakan dag sem helgaður er verndarenglum. Viðurkenning á verndarhlutverki engla í lífi mannsins hefur fylgt kristinni trú frá upphafi, og þessi dagur minnir okkur á návist þeirra og umhyggju í daglegu lífi. Dagurinn var tekinn upp í almanak kirkjunnar árið 1607 af Páli V páfa. Hann varð síðan hluti af hinni almennu kirkjulegu hátíðadagskrá og minnir kristna menn á trúna á verndandi návist englanna í daglegu lífi.

01 október 2025

Heilög Therese frá Lisieux, mey, kirkjufræðari og verndardýrlingur trúboða - minning 1. október

Heilög Therese af Jesúbarninu og Hinu heilaga andliti

1. október er minning heilagrar Therese af Jesúbarninu, kenndri við Lisieux í Frakklandi, meyjar, kirkjufræðara og verndardýlings trúboða. Hún er ein af vinsælustu dýrlingum Kaþólsku kirkjunnar, ekki vegna þess að hún hafi ferðast langt eða unnið stórbrotin verk, heldur af því að hún benti á leið sem er öllum fær: litlu leiðina í kærleikanum.

Æviágrip
Therese Françoise Marie Martin fæddist 2. janúar 1873 í Alençon í Frakklandi. Hún var yngst átta barna, en missti móður sína aðeins fjögurra ára gömul. Faðir hennar sýndi henni mikla ástúð og kallaði hana „litlu drottningu Frakklands og Navarra“. Þegar systur hennar gengu hver af annarri í klaustur, fylltist hún sjálf ákafri löngun til að helga líf sitt Guði.

Heilagur Tómas Becket, biskup og píslarvottur - minning 29. desember

Víg heilags Tómasar Becket í dómkirkjunni í Kantaraborg „Fyrir nafn Jesú og til verndar kirkjunni er ég reiðubúinn að taka á mig dauðann.“ Þ...